Mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 13:54:39 (2821)

2003-01-21 13:54:39# 128. lþ. 61.97 fundur 356#B mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[13:54]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það hefur verið sagt um okkur Íslendinga að þegar við komumst í feitt þá kunnum við okkur ekki magamál. Sú er því miður raunin ef ráðast á í hartnær 200 milljarða kr. fjárfestingu á einum stað og tengja hana einu fyrirtæki. Verði af stækkun Norðuráls á sama tíma með tilheyrandi virkjunarframkvæmdum lætur nærri að fjárfest verði á örfáum árum fyrir um eina milljón á hvern Íslending í áliðnaði einum saman, til viðbótar því sem fyrir er.

Það er mat flestra hagfræðinga sem hafa tjáð sig um fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaál að þær framkvæmdir muni valda gífurlegri þenslu, ekki einungis á Miðausturlandi heldur ekki síður á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Öðrum landshlutum og öðrum atvinnugreinum mun blæða vegna hærri vaxta og hærra gengis krónunnar sem framkvæmdirnar munu kalla fram. Verði af þessum risaframkvæmdum munu þær hefta allan vöxt annarra útflutningsgreina á framkvæmdatímabilinu og ryðja mörgum þeirra burt. Atvinnulífið verður einhæfara en ella. Er það þetta sem við viljum, virðulegi forseti?

Ein milljón á hvern Íslending í áli. Áhrifin eru þegar að koma í ljós. Gengi krónunnar er nú þegar 10--15% hærra en efnahagslífinu er eðlilegt og gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga þessa árs. Atvinnulífið heldur að sér höndum. En þetta er aðeins forsmekkurinn.

Sérfræðingar fjmrn. segja að gengið muni hækka, vextir hækka og viðskiptahalli verði gríðarlegur. En háir vextir og hátt gengi munu fyrst og fremst bitna á öðrum útflutningsgreinum, einkum á landsbyggðinni. Mun ferðaþjónustan þola 10--20% tekjuskerðingu á næstu árum? Munu sjávarútvegurinn og fiskvinnslan þola samsvarandi skerðingu á tekjum og beina launalækkun sjómanna vegna hærra gengis? Gengishækkun upp á 15% þýðir um 500 millj. kr. lækkun á útflutningstekjum landbúnaðarins og þar fjúka 100 störf. Er það þetta sem við viljum?