Mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 14:04:07 (2825)

2003-01-21 14:04:07# 128. lþ. 61.97 fundur 356#B mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[14:04]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Við erum að tala hér um nauðsynlega innspýtingu í efnahagslífið. Við erum að tala um bætt lífskjör í landinu. Við erum að tala um aukna atvinnu. Við erum að tala um auknar útflutningstekjur. Við erum að ráðast í framkvæmd sem hefur góð áhrif á efnahagslífið á landsbygginni.

Hvert er áhyggjuefnið? Hvað vilja vinstri grænir? Samfylkingin er reyndar að koma til ráðs, a.m.k. formaðurinn, jafnvel báðir, þó að það sé með hnút í maganum. (Gripið fram í: Báðir formennirnir?) Stóri plúsinn er að virkjun og álver á Austurlandi hefur jákvæð áhrif á þjóðarbúið og hefur auk þess gríðarlega góð byggðaleg áhrif. Það er augljóst mál að ekki hefði verið ráðist í þessar framkvæmdir nema þær skiluðu arði fyrir eigendur og þjóðarbúið. Það er hins vegar ánægjulegt að málið hefur byggðalegan vinkil vegna þess að orkulindirnar eru á Austurlandi. Fyrirtæki og þjónustugreinar á Austur- og Norðurlandi geta bætt við sig verkefnum og eru í sumum tilfellum í sárri þörf fyrir verkefni. Það hef ég heyrt á ferðum mínum um Norðausturkjördæmi á síðustu vikum.

Þetta á einnig við um fyrirtæki um allt land, og ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Í nýrri könnun Samtaka atvinnulífsins kemur fram að fyrirtæki hyggjast fækka fólki. Það kemur til viðbótar vaxandi atvinnuleysi eins og fram kemur í spá Vinnumálastofnunar. Fyrir helgi voru 5.644 atvinnulausir á landinu. Það er ekki í íslensku þjóðarsálinni að búa við atvinnuleysi.

Nú er heppilegur tími til að takast á við þetta góða verk. Hámark uppsveiflunnar er eftir tvö eða þrjú ár og ef nauðsynlegt verður bregðast stjórnvöld auðvitað við þá. Það er ekki hægt, hæstv. forseti, hvernig sem menn reyna, að líta á framkvæmdirnar sem efnahagslegt vandamál. Það er hreinlega ekki hægt. Við hljótum að fagna virkjun og álveri á Austurlandi sem jákvæðu framlagi í íslenskt efnahagslíf.