Mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 14:06:23 (2826)

2003-01-21 14:06:23# 128. lþ. 61.97 fundur 356#B mótvægisaðgerðir vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[14:06]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin en mjög voru þau rýr. Ég fékk ekki svar við þeim spurningum sem ég setti fram. Ég spurði um hvernig mæta ætti hugsanlegum ruðningsáhrifum í atvinnulífinu, hvernig ætti að bregðast við hækkun vaxta fyrir fjölskyldur og fyrirtæki. Engin svör. Ég spurði hvort horfa ætti aðgerðalaust á fyrirtæki á borð við Impregilo undirbjóða innlent vinnuafl. Engin svör. Og ég vil leggja áherslu á að Impregilo, þetta ítalska fyrirtæki, er þekkt fyrir þetta. Það er líka þekkt fyrir hneykslismál. Ég hvet menn til á fara á netið og fletta upp Impregilo scandals og þá fyllist skjárinn einhverra hluta vegna. Þetta fyrirtæki er þekkt fyrir að bjóða lágt en keyra síðan kostnaðinn upp frammi fyrir dómstólum.

Ég spurði um niðurskurð hjá hinu opinbera. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson talaði af léttúð um niðurskurð upp á 10% og hækkun raunvaxta um 2 prósentustig. En það segir í greinargerðinni sem hann vitnar til frá fjmrn. frá 8. janúar, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt þessum útreikningum mundu aðgerðirnar ekki duga einar sér til að halda verðbólgu innan þolmarka.`` Og hér er vísað í 10% niðurskurð. Ég óska eftir að fá að vita hvar verður skorið niður. Hvers vegna fáum við ekki svör um þetta?

Síðan er talað um hinn efnahagslega ávinning af þessu. Það er einmitt hann sem menn eru að bera brigður á, að ekki sé ávinningur af þessu verkefni. Það er það sem hagfræðingar eru að vara okkur við og þeir eru að benda okkur á að skoða vinnsluvirðið út úr þessari framkvæmd eftir að búið er að flytja arðinn úr landi, skoða hvað situr eftir í íslensku hagkerfi.

Og síðan þetta með atvinnuna. Vita menn hvað hér hafa skapast mörg störf á landi síðan um 1970? Að meðaltali á milli 1.000 og 1.500 á ári. Og við þurfum á næsta áratug að skapa 14 þúsund ársverk. Hér erum við að tala um 700 störf í álverinu og afleidd störf. Telja menn að þessar ráðagerðir og þær afleiðingar sem þær munu hafa í för með sér stuðli að því að við mætum þessu marki? Ég held ekki. En hvar eru svörin, hæstv. ráðherra?