Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 14:39:52 (2832)

2003-01-21 14:39:52# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[14:39]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér ekki nákvæma grein fyrir hvaða erindi hv. þm. átti í ræðustólinn en ef ég skildi ræðu hv. þm. rétt þá kemur fram að Félag háskólakennara og Félag prófessora hefur sent frá sér umsögn þar sem þau vara mjög við miðstýringu en vitna síðan til þess að það sé ekkert óeðlilegt að tilteknir ráðherrar sitji í nefndinni. Ég spyr hv. þm. vegna þeirrar röksemdafærslu sem þeir settu fram um óttann við að þetta mundi leiða af sér miðstýringu: Er hann sleginn af á blaðsíðu 2 vegna þess að þeir vitna til þess að það sé eðlilegt að efsta stig stjórnsýslunnar sitji og fylgist með því sem er að gerast? Það er vandséð, virðulegi forseti, eða bara vandskilin sú röksemdafærsla sem hér var verið að reyna að setja fram, virðulegi forseti, þannig að ég á bara erfitt með að átta mig á því hvað hv. þm. er að fara. Ég vil benda á að þeir óttast það að þessi miðstýring geti leitt til þess að menn nái ekki þeim árangri sem að er stefnt og þeim árangri sem menn vilja ná. En það hefur ekkert með þetta að gera.

Hinni spurningunni, virðulegi forseti, er auðsvarað en þá er vísað í blaðagrein samflokksmanns á Seltjarnarnesi sem hefur komist að þeirri niðurstöðu að hann styðji þetta mál. Það er alveg augljóst, virðulegi forseti, að í áliti okkar kemur fram að við styðjum ekki málið. Þegar af þeirri ástæðu er alveg ljóst að greinarmunur er þar á en það breytir ekki hinu að í okkar flokki er það einfaldlega þannig að við finnum ekki að því þó að flokksmenn hafi mismunandi áherslur í einstökum málum en það er kannski eitthvað sem hv. þm. þekkir ekki í sínum flokki.