Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 14:41:56 (2833)

2003-01-21 14:41:56# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[14:41]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að hv. þm. kæmi glaðari hingað inn á þing úr jólafríinu en raun ber vitni.

Það sem ég var að meina með því að vísa m.a. til umsagnar Félags háskólakennara og Félags prófessora um að félögin telja eðlilegt að forsrh., fjmrh. og menntmrh. eigi sæti í þessu ráði, eru ummæli sem fallið hafa af vörum þingmanna Samfylkingarinnar um að það sé slæmt að stjórnmálavæða þessi málefni, þennan málaflokk. Það voru í rauninni allir sem komu á fund nefndarinnar sem lýstu yfir eindreginni samstöðu og vilja til þess að fá þessi frv. í gegn. Og það væri ágætt ef hv. þm. benti á nokkra aðila sem hefðu einfaldlega staðið þvert gegn frv. Það kom fram mikill vilji bæði hjá þeim gestum sem komu á fund nefndarinnar og í þeim umsögnum sem nefndin fór yfir þannig að það er alveg skýrt að menn úti í samfélaginu eru ekki jafntortryggnir út í stjórnmálamenn og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson.

En það sem ég vildi segja áðan með því að benda á þá skoðun sem formaður Samfylkingarfélagsins á Seltjarnarnesi setur fram í blaðagrein sinni --- og ég fagna því sérstaklega að þingmaðurinn taki fram að leyfðar séu fleiri skoðanir en ein í flokki þeirra --- er að þar er maður með fagþekkingu. Þar er maður sem vinnur hjá Rannís og skilur um hvað málið fjallar og hann styður málið. Það er það sem skiptir máli.