Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 14:43:46 (2834)

2003-01-21 14:43:46# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[14:43]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hafi fyrra andsvar hv. þm. verið undarlegt þá held ég að síðara andsvarið hafi eiginlega slegið það fyrra út og er þá langt til jafnað. Það er alveg ljóst að margir hafa fært fram rök fyrir því að þessi leið sé ekki æskileg og margir sem komu á fund nefndarinnar drógu hana í efa, það er rétt að halda því til haga. Þetta eru svipaðar frásagnir og ferðin til Finnlands, þangað sem stjórnarliðar fóru og fundu þar öll helstu rök sín fyrir því að rétt sé að fara þessa leið af því að aðrir voru ekki á vettvangi. Slík röksemdafærsla heldur vitaskuld engan veginn.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að lesa á nýjan leik, þar sem það hefur gengið eitthvað illa að ná því sem hér kom fram og ég vitnaði til í umræðunni áðan, virðulegi forseti, og það er kannski ánægjulegt að hæstv. forseti þingsins skuli sitja í stólnum, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Frumvörpin bjóða hins vegar þeirri hættu heim að stjórnvöld hverju sinni forgangsraði rannsóknaverkefnum fyrir vísindasamfélagið, slíkt telja félögin mjög óæskilegt.``

Hér er vísað í umsögn Félags háskólakennara og Félags prófessora. Það má vel vera að taka megi þessa umsögn eitthvað úr samhengi og finna einhverjar málsgreinar eða eitthvað í henni sem gæti bent til þess að menn séu ekki alfarið á móti þessari niðurstöðu. En, virðulegi forseti, þá væri gott að hv. þm. gæti lesið þetta allt saman í samhengi.