Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 14:53:50 (2836)

2003-01-21 14:53:50# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, Frsm. 2. minni hluta KolH
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[14:53]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Við ræðum nú þrjú frv. sem fjalla um eflingu og traustari stoðir undir vísinda- og tæknirannsóknir á Íslandi og ég vil taka fram áður en lengra er haldið að í markmiðssetningum þessara þriggja frv. koma fram mjög skýr og öflug markmið og ég er sammála þeim. Hins vegar er eitt og annað við framgang og hönnun þessa máls að athuga, eins og fram kemur í nál. mínu sem ég mun nú fara yfir, herra forseti. Áður en ég hef það vil ég gagnrýna nál. meiri hluta þessara þriggja nefnda sem hafa fjallað um þetta mál því að það er sannarlega tilefni til að setja í þingskjöl meira af umræðunni sem fram fór í nefndunum --- hún var nú ekki svo mikil --- en formenn hv. nefnda hafa ákveðið að gera. Mér finnst þau fremur snautleg, öll þrjú nál., í jafnviðamiklu máli og hér um ræðir.

Herra forseti. Í nál. mínu á þskj. 802 kemur fram eftirfarandi:

Í annað sinn hafa þrjár þingnefndir fjallað um þrjú frv. um vísinda- og tæknirannsóknir, tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins og opinberan stuðning við þessa mikilvægu þætti atvinnulífs og vísinda. Öll miða frumvörpin að því að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun í landinu. Þau voru til umfjöllunar á 127. löggjafarþingi en umfjöllun um þau var þá ekki lokið enda voru mjög deildar meiningar um efni þeirra í vísinda- og fræðasamfélaginu. Eftir vinnu sjö manna nefndar menntamálaráðherra, sem sett var á stofn og falið að yfirfara viðamiklar umsagnir sem nefndir þingsins höfðu fengið frá fjölmörgum stofnunum og einstaklingum voru frumvörpin lögð fram í breyttri mynd og hafði þá verið tekið tillit til ýmissa atriða í athugasemdum sem gerðar höfðu verið. 2. minni hluti tekur undir það að frumvörpin hafi haft gott af vinnu nefndarinnar en vill þó vekja athygli á ýmsu sem enn er ábótavant hvað varðar málið í heild.

Það sem vekur mesta athygli við alla umfjöllun um málið er sú alvarlega staðreynd að stjórnvöld sýna lítil sem engin merki um að þessi formbreyting málaflokksins muni leiða af sér auknar fjárveitingar til vísinda- og tæknirannsókna. Þvert á móti kemur fram í umsögnum fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis sem fylgja frumvörpunum að jafnvel verði um samlegðar- og sparnaðaráhrif að ræða sem leiði til lækkunar útgjalda hvað varðar ákveðna þætti málsins. Herra forseti. Þetta stríðir gegn þeim fullyrðingum ríkisstjórnarinnar að nú skuli fetað í fótspor Finna sem hafa eflt vísindarannsóknir til muna sl. 10--15 ár. Það hefur verið gert m.a. með því að hækka umtalsvert fjárveitingar til rannsóknastarfa. Það kom fram í máli gesta sem komu á fund nefndanna að formbreytingin ein væri lítils virði ef ekki fylgdu auknar fjárveitingar. Helsta umkvörtunarefni vísinda- og fræðimannasamfélagsins hingað til hefur einmitt verið skortur á fjármunum og hefur verið bent á hróplegt ósamræmi milli fjölda og umfangs umsókna í vísindasjóðina og þeirra fjármuna sem ríkisstjórnin hefur ætlað málaflokknum. Í því sambandi, herra forseti, má rifja það upp sem sjálfur formaður Rannsóknarráðs Íslands, Hafliði P. Gíslason, sagði á fundum menntmn. sem haldnir voru síðasta vetur þegar verið var að fjalla um þessi mál. Hann sagði að sjóðirnir hefðu verið sveltir í mörg undangengin ár. Og í þessu sambandi öllu má því spyrja, herra forseti: Hvers vegna var ekki lögð fram áætlun um auknar fjárveitingar samhliða þessum frv.? Fyrst Finnar eru nefndir má auðvitað gagnrýna að það er enginn rökstuðningur í greinargerðum með þessum málum hvers vegna Finnar urðu fyrir valinu sem fyrirmynd Íslendinga. Auðvitað eru fleiri þjóðir sem hafa verið að efla þessa málaflokka hjá sér á síðasta áratug og ég sakna þess að ég skuli ekki hafa fengið röksemdafærsluna fyrir því að íslensk stjórnvöld ákváðu einmitt að velja sér Finna sem fyrirmynd.

Þótt haldið sé fram að mál þetta sé vel ígrundað er það mat 2. minni hluta að samhliða undirbúningi þessara breytinga hefði verið full þörf á að gera óháða athugun á stöðu rannsókna á Íslandi þar sem beitt væri viðurkenndum aðferðum á sviði vísindastjórnunar. Á þann hátt hefði legið fyrir trúverðug greining á ástandinu sem hefði getað orðið örugg vísbending fyrir þá sem nú fá það verkefni að vinna stefnumótun fyrir málaflokkinn. Þar sem engin slík rannsókn eða greining liggur í sjálfu sér fyrir má ætla að stefnumótunarstarfið skorti viðmiðanir og verði því ekki eins markvisst og ella hefði orðið, sérstaklega þegar á það er litið að heildarsamræming er ein höfuðröksemdin sem stjórnvöld nota fyrir þessum breytingum.

Í athugasemdum með frumvarpi til laga um Vísinda- og tækniráð Íslands sem lagt var fram og afgreitt á Alþingi 1993--1994 er vitnað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var 21. september 1993. Við endurskoðun málaflokksins er eðlilegt að litið sé til fyrri stefnumörkunar og skoðað hvort þau markmið sem sett voru 1994 hafi náðst. Ekkert slíkt liggur fyrir um það og verður að telja það til vansa í undirbúningi málsins. Einnig má nefna skýrslu um rannsókna- og vísindastefnu ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram á 116. löggjafarþingi. Það verður að telja miður að sá staðall sem kynntur var varðandi vinnubrögð í þessum málaflokki skuli ekki hafa verið notaður áfram sem viðmiðun við gerð þeirra frumvarpa sem nú liggja fyrir.

[15:00]

Þegar skoðuð er sú grundvallarbreyting sem fylgir aukinni þátttöku stjórnvalda í stefnumörkun, eða eins og segir í greinargerð með frumvarpi til laga um Vísinda- og tækniráð að málefni vísinda og tækni verði með þessum breytingum færð á efsta stig stjórnsýslunnar, má benda á gagnrýni sem er hávær í alþjóðasamfélaginu nú um stundir. Þar er varað við miklum pólitískum afskiptum af vísindasamfélaginu þar sem slíkt er talið geta takmarkað frelsi vísindamanna. Við þurfum auðvitað að viðurkenna nauðsyn þess að vísindin sjálf megi ekki færa í pólitískar viðjar valdhafanna. Í því sambandi má taka undir það sem segir í umsögn Háskóla Íslands um málið (dags. 5. des. 2002) þar sem fjallað er um þann ramma sem frumvörpin setja vísinda- og tæknistarfsemi á Íslandi, en þar segir, með leyfi forseta, að: ,,sá rammi hlýtur ætíð að byggjast á óskráðum meginreglum vísindasamfélagsins, fyrst og fremst þeim:

að vísindamenn hafi frelsi til þess að einbeita sér að þeim rannsóknum sem þeir telja mestu skipta,

að opinber stuðningur við verkefni grundvallist ávallt á gæðum verkefna og faglegu mati á hæfni þeirra sem stunda rannsóknir, tækniþróun og nýsköpun og

að þekking og sjónarmið innan vísindasamfélagsins séu ráðandi þáttur við þróun þess.``

Í almennri umræðu hefur einnig verið varað við auknum áhrifum fjársterkra og fjölþjóðlegra fyrirtækja í iðnaðarrannsóknum. Slíkar rannsóknir eru nú í auknum mæli framkvæmdar í leyni og niðurstöður þeirra ekki gefnar upp í krafti eignarréttar fyrirtækjanna. Umræða um þessa þætti hefur verið í lágmarki í vinnunni við þessi frumvörp og er það að mínu mati miður.

Í meðferð frumvarpanna hefur verið gagnrýnt það fyrirkomulag að stjórnsýslu- og stofnanaþáttur frumvarpanna skuli aðskilinn á þann hátt sem frumvörpin gera ráð fyrir. Um það atriði hefur ekki farið fram næg umræða. Þá vill 2. minni hluti taka undir með Háskóla Íslands, en rektor segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,Háskóli Íslands er ein af undirstöðustofnunum íslensks samfélags og gegnir lykilhlutverki í menntun ungra vísindamanna. Háskólinn sinnir rannsóknum á fjölmörgum fræðasviðum í samræmi við alþjóðlegar viðmiðanir og í fjölþjóðlegu samstarfi. Leiðandi framlag hans til vísinda og fræða á Íslandi er óumdeilt og forsenda þess að ná megi markmiðum frumvarpanna þriggja. Því verður að telja í hæsta máta eðlilegt að skipan Vísinda- og tækniráðs taki mið af þessu, með því að háskólarektor eigi fast sæti í ráðinu. Enn fremur að háskólastigið eigi fimm fulltrúa í ráðinu, þar af a.m.k. þrjá frá Háskóla Íslands. Með þessu móti er tryggt að skipan ráðsins endurspegli meginþætti í íslensku háskólasamfélagi.``

Undir þetta má sannarlega taka, herra forseti, sérstaklega í ljósi þeirra umræðna sem hafa farið fram núna upp á síðkastið um stöðu háskólasamfélagsins, stöðu háskólanna og þá ekki síst samkeppnisstöðu þeirra og rannsóknarhlutverk.

Annar minni hluti menntamálanefndar gagnrýnir að ekki skuli hafa verið fjallað á formlegan hátt um breytingartillögur Háskóla Íslands í nefndunum. Þá ber að harma að frestunin á afgreiðslu frumvarpanna í fyrravor skyldi ekki hafa skilað sér í aukinni vinnu í nefndum Alþingis. Þannig var lokaspretturinn í afgreiðslu þessara mikilvægu mála allt of flausturslegur og gerði það þingmönnum beinlínis erfitt fyrir að ljúka umfjöllun um alla þætti málsins.

Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið, herra forseti, í nefndaráliti á þskj. 802 tel ég mér ekki fært að styðja frumvarp til laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, né heldur frumvarp til laga um Vísinda- og tækniráð eða frumvarp til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins þótt tvö þau síðarnefndu séu formlega ekki á sviði menntamálanefndar.

Meginröksemd mín, herra forseti, gagnvart þessu er sem sagt sú að þrátt fyrir góða, jákvæða og öfluga markmiðssetningu þessara laga tel ég stjórnvöld ekki hafa sýnt okkur fram á í þessari umfjöllun að aðgerðir þeirra eða þessar formbreytingar komi til með að helga þetta meðal. Ég sé ekki að þessum markmiðum verði náð nema til komi umtalsvert öflugur fjárstuðningur umfram það sem verið hefur.

Herra forseti. Mig langar í því sambandi að vitna til tæplega þriggja ára gamallar greinar. Þetta er grein sem hefur lifað með mér þennan tíma vegna þess að ég tel hana afar merkilega og sýna miklu betur en margar þykkar skýrslur hvert ástandið er í raun og veru í vísinda- og fræðasamfélagi okkar. Þessi grein er skrifuð af þáverandi úthlutunarnefnd Vísindasjóðs, þeim dr. Guðmundi E. Sigvaldasyni, dr. Sigríði Halldórsdóttur, dr. Guðrúnu Agnarsdóttur, dr. Stefáni Ólafssyni og dr. Önnu Agnarsdóttur. Þau skrifa þessa grein í Morgunblaðið sunnudaginn 13. febrúar árið 2000 og kalla hana ,,Vísindasjóður fjárfestir``. Mig langar til að vitna til þessarar greinar, með leyfi forseta. Þar segir:

,,Vísindi í leit að pólítík. Í vetrarbyrjun gerðust nokkur tíðindi. Ráðstefna var kölluð saman til að ræða nýja skýrslu um grunnrannsóknir á Íslandi. Kjörorð ráðstefnunnar var ,,Vísindi í leit að pólítík``. Í örfáa daga kepptust fjölmiðlar við að greina frá undarlega þversagnakenndri niðurstöðu skýrslunnar ,,Staða grunnrannsókna á Íslandi`` eftir Ingu Dóru Sigfúsdóttur og Þórólf Þórlindsson. Niðurstaða þeirra var að afköst íslenskra vísindamanna og gæði vinnu þeirra stæðist samanburð við það sem vel er gert í þeim löndum sem sýna mest afköst og gæði í vísindastarfi (miðað við fólksfjölda). Afköstin eru mæld í birtum tímaritsgreinum í alþjóðlegum tímaritum, gæðin eru metin eftir því hversu oft er vitnað til þessara greina á alþjóðlegum vettvangi. Þessi niðurstaða kom mörgum á óvart, ekki síst þeim, sem gjörla vita að umgjörð grunnrannsókna á Íslandi er síst til þess fallin að hægt sé að vænta mikilla afreka á því sviði. Niðurstaða skýrsluhöfunda varð því sú að andstætt öðrum löndum, þar sem beint samband virðist vera milli fjárveitinga til vísinda og afraksturs vísindastarfs, þá er því ekki fyrir að fara í íslensku samfélagi.

Enda þótt höfundar skýrslunnar um stöðu grunnrannsókna á Íslandi hafi ekki boðið ráðstefnugestum einhlíta skýringu á niðurstöðu könnunarinnar hlaut úthlutunarnefnd Vísindasjóðs árið 2000 að velta því alvarlega fyrir sér hvaða afl það væri sem framleiddi þau ókjör af umsóknum um styrki til grunnrannsókna sem sjóðnum höfðu borist. Við blasti stafli, sem í voru 283 umsóknir um alls 600 milljónir króna.``

Herra forseti. Hér kemur skýrt fram að það fólk sem starfað hefur í úthlutunarnefndum þeirra sjóða sem hingað til hafa starfað á Íslandi kveinkar sér sáran. Undan hverju? Undan skorti á fjármagni til sinna starfa. Og það segir áfram í greininni að í úthlutunarnefnd Vísindasjóðs sitji fólk sem hefur starfað í ólíkum greinum grunnvísinda í langan tíma og að þetta fólk hafi allar forsendur til að meta þetta á þann hátt að mark sé takandi á. Þessir mætu höfundar segja að okkar fólk, okkar ungu vísindamenn sem sækja um í þessa sjóði, biðji um smápeninga og fái ýmist einhverja hungurlús eða alls ekki neitt. Þetta fólk segir jafnframt frá því að þegar það byrjaði að starfa í þessari úthlutunarnefnd hafi það farið á fund þáv. menntmrh., sem mun að öllum líkindum hafa verið hv. þm. Björn Bjarnason, það hafi greint honum frá bágri stöðu Vísindasjóðs og beðið hann um að íhuga möguleikana á að auka ráðstöfunarfé sjóðsins, sem þá var 150 millj., í 450 millj. kr. Með þá upphæð í höndunum töldu þessir ágætu doktorar sér kleift með ábyrgu aðhaldi að sinna þeim umsóknum sem getið var um áðan upp á 600 millj. kr.

En sannleikurinn er auðvitað sá að þessar 450 millj. sem úthlutunarnefnd Vísindasjóðs bað um fyrir þremur árum eru ekki enn komnar. Við erum komin í heildina upp í 300 millj. og það er ekki útlit fyrir að það eigi að auka við það miðað við þessar umsagnir fjárlagaskrifstofu fjmrn. sem ég vitnaði til áðan og sem fylgja frumvörpunum.

Herra forseti. Í þessari ágætu Morgunblaðsgrein segja þau í úthlutunarnefnd að jafnvel hafi margir einstaklingar gefist upp á að senda umsóknir til sjóðanna, svo slæmt sé ástandið. Í öllu falli er niðurlag þessarar greinar mjög skýrt og í því eru skilaboð til Alþingis Íslendinga og framkvæmdarvaldsins. Þar halda höfundarnir fram að við höfum náð ótrúlega góðum samningum við vísindamennina sem eru í sjálfu sér að selja okkur vöru sína, þekkingu sína og kunnáttu í gegnum rannsóknir sínar. Þessi úthlutunarnefnd telur að úthlutunarnefndirnar séu samninganefndir í raun og veru fyrir hönd ríkisins sem geri þessi innkaup sem síðan nýtist samfélaginu öllu og þau telja sig hafa náð ótrúlega góðum samningum, gert reyfarakaup, en segja jafnframt að aukið ráðstöfunarfé Vísindasjóðs þurfi að koma til og leggja til í því sambandi hundruð milljóna kr. hækkun. Niðurlag greinarinnar er með þessu móti svo að ég fái að vitna beint, með leyfi forseta:

,,Eitt er víst að vísindi á Íslandi hafa fengið gæðavottun sem ætti að nægja Alþingi og framkvæmdarvaldi til að sannfærast um réttmæti þess að hætta á að fjárfesta í grunnrannsóknum. Í upplýsingasamfélagi nútímans eru engar upplýsingar án þekkingar og engin þekking án visku, þar á meðal stjórnvisku.``

Herra forseti. Ég held að okkur í þessum sal hafi skort stjórnvisku í meðferð þessara mála. Ég held að við hefðum átt að geta staðið betur að málum hér en við virðumst ætla að bera gæfu til. Mér sýnast þessi göfugu markmið vera þess eðlis að það hefði verið margt í sölurnar leggjandi sem ríkisstjórnin virðist ekki ætla að leggja í sölurnar fyrir markmiðsgreinar þessara þriggja frv. þannig að, eins og ég sagði í niðurlagi nál. míns, ég sé mér ekki fært að styðja þetta mál til enda.