Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 15:14:01 (2838)

2003-01-21 15:14:01# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, Frsm. 2. minni hluta KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[15:14]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að fagna því sem hæstv. menntmrh. segir okkur frá núna, að ákveðið hafi verið að láta fara fram úttekt á borð við þá sem ég lýsti í nál. mínu að þyrfti að fara fram. Auðvitað hefði maður samt viljað sjá slíka úttekt sem unnin er með viðurkenndum aðferðum vísindanna gerða áður en frv. voru samin og lögð fram, þ.e. á því vinnslustigi sem þau hafa verið undanfarin tvö ár hefði slík úttekt auðvitað átt að liggja fyrir.

Auðvitað veit ég um OECD-úttektirnar sem hafa verið til hliðsjónar við samningu og gerð þessara frv. En ég held að við getum öll verið sammála um að þær úttektir skortir ákveðna dýpt, ákveðna fagmennsku og fara ekki það djúpt í smáatriðin að hægt sé að votta þær rannsóknir sem óháðar vísindalegar úttektir unnar með bestu fáanlegu faglegu aðferðum sem vísindin eiga til í þessum efnum.

En rétt er að fagna því að rannsókn og óháð úttekt að þessu leyti skuli eiga að fara fram þó að vissulega hefði verið meira gagn í að að fá hana fyrr.