Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 15:16:46 (2840)

2003-01-21 15:16:46# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, Frsm. 2. minni hluta KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[15:16]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ekki að hæstv. ráðherra geri mér það upp að ég sé ekki stolt af íslenskum vísindamönnum. Ég er afar stolt af íslenskum vísindamönnum og það er úthlutunarnefnd Vísindasjóðs, sem ég var að vitna til, líka. Sannleikurinn er sá að íslenskir vísindamenn hafa búið við þröngan kost en staðið sig ótrúlega vel miðað við það fjármagn sem þeir hafa fengið til rannsókna sinna. Ég var auðvitað fyrst og fremst að benda á það í máli mínu þegar ég vitnaði í þessa þriggja ára gömlu Morgunblaðsgrein, að íslenskir vísindamenn hafa unnið þrekvirki með mjög naum fjárráð.

Ég er afskaplega stolt af því sem íslenskir vísindamenn hafa lagt til, ekki bara til vísinda á Íslandi heldur og á alþjóðlega vísu. Sannarlega vil ég að við styðjum vel við bakið á þessum vísindamönnum. Ég vil ekki að hægt sé að segja um okkur að íslenskir vísindamenn séu hættir að sækja um í sjóðina vegna þess að þeir séu svo fjársveltir. Ég vil að við eflum þessa sjóði. Það er ekki hægt að gera það á annan hátt en að taka hraustlega til hendinni, búa til áætlun um hvernig við ætlum að fjármagna þessa sjóði, t.d. til næstu sex til tíu ára. Slík áætlun hefði auðvitað átt að liggja fyrir í umfjölluninni um þessi frumvörp.