Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 15:56:11 (2844)

2003-01-21 15:56:11# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, SJS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[15:56]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa ýkja mörg orð um efni þessara frv. þó að þau gefi vissulega tilefni til ýmiss konar vangaveltna um stöðu þessara mála hér hjá okkur þar sem ýmislegt og sem betur fer margt er vel gert en öðru ábótavant. Lengi vel var stuðningur opinberra aðila við raunverulega grundvallarstarfsemi á sviði grunnrannsókna og vísinda afar bágborinn. Það var kannski eðlilegt og afsakanlegt á fátæktartímum í íslensku samfélagi. En þó er ein vænlegasta leiðin til að vinna sig út úr slíku einmitt sú að leggja grunn að uppbyggingu með öflugu rannsóknar-, nýsköpunar- og þróunarstarfi eftir því sem mönnum er nokkur kostur að ráðstafa fjármunum til slíkra hluta. Það ætti í öllu falli ekki að vera okkur sérstakt vandamál nú á síðustu tímum þegar íslenskt þjóðfélag býr sannarlega orðið við mikið ríkidæmi þó að því sé að sönnu nokkuð misskipt. Vissulega hafa hlutirnir heldur verið að þróast í rétta átt. Þá er ég ekki bara að tala um það sem lagt er af mörkum til opinberra rannsókna í gegnum það kerfi sem við erum hér með til umfjöllunar heldur líka það sem gert er í menntastofnunum, fyrst og fremst í háskólunum og að einhverju leyti líka í vaxandi mæli úti í atvinnulífinu sjálfu þar sem menn stunda rannsóknar- og þróunarstarf.

Þær kerfisbreytingar sem hér er verið að gera --- menn tala mikið um Finnland í því sambandi eins og þar hafi verið fundið fyrirheitna landið í þessum efnum --- eru sumpart eðlilegar út frá þeirri viðleitni að samræma yfirstjórn þessara mála, kannski betur en áður hefur verið gert. Var þó ætlunin með lögum sem sett voru snemma á tíunda áratugnum að ná betur utan um það en áður var, þ.e. að vísindarannsóknir, vísindamenntun og stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í atvinnulífinu væru samræmd og skilvirk hér á landi. En það er ekki þar með sagt, herra forseti, að sú formúla sem hér er fundin upp --- þá á ég einkum og sér í lagi við frv. um Vísinda- og tækniráð sem setja á upp undir forsrn. --- sé endilega gáfulegasta lausnin í þeim efnum eða sú eina sem til greina komi. Ég verð nú með fullri virðingu fyrir vinum okkar Finnum að segja að þó að þeim hafi vegnað vel að ýmsu leyti í atvinnuuppbyggingu á undanförnum árum, og ekki síst á sviði hátækni þar sem þeir hafa veðjað mjög á rafeinda- og fjarskiptaiðnaðinn og ýmiss konar hátæknigreinar tengdar honum, er ekki alveg einfalt mál, held ég, að fara eins og í eina heimsókn, þótt með merka nefndarformenn úr meiri hlutanum sé, og sækja bara þetta finnska fyrirkomulag og smella því hér upp á Ísland. Þar fyrir utan er örugglega áhugaverð fordæmi að finna víðar en í Finnlandi, með fullri virðingu fyrir þeim, aftur sagt. Ég held t.d. að það sem þjóðir eins og Írar, Hollendingar, Danir og fleiri hafi verið að gera sé á margan hátt ekki síður lærdómsríkt og fróðlegt. Ég er ekki viss um að alls staðar sé um sambærilega skipulagningu þessara mála að ræða innan stjórnkerfisins. Þar á ofan kemur þessi finnska útgáfa sem hér er sett fram í frumvarpsformi, að svo miklu leyti sem þá er beinlínis ætlunin að líta til þess fordæmis, mér sumpart spánskt fyrir sjónir af minni takmörkuðu þekkingu á þessum hlutum í Finnlandi. Ég held að sé nefnilega varhugavert að alhæfa um eitthvert ,,finnskt módel`` í þessum efnum.

[16:00]

Ég heyrði finnskan fræðimann halda merkan fyrirlestur á ráðstefnu í Ósló um hvernig Finnar hefðu náð þeim árangri sem raun ber vitni. Hann lagði ekki síst áherslu á að hann hefði skapast í rauninni í gegnum mjög fjölþættar aðgerðir sem væru alls ekki einfaldlega frá stjórnvöldum komnar eða á forræði þeirra. Það skipurit sem hann dró upp af bæði rannsókna- og þróunarstarfi og stuðningsaðgerðum við nýsköpun í finnsku atvinnulífi var geysilega fjölbrotið. Það voru fleiri en ein og fleiri en tvær meginstoðir í því kerfi. Ég heyrði hér einn ræðumann áðan nefna Sitra og það fyrirkomulag. Það er aðeins eitt af fleiri en einu og fleiri en tveimur slíkum fyrirbærum sem eru til staðar í Finnlandi. Á vegum stjórnvalda er mjög öflug starfsemi í háskólum sem Finnar hafa byggt upp og eflt á vegum atvinnulífsins sjálfs. Þeir hafa eftir að hafa gengið í Evrópusambandið að sjálfsögðu sótt sér þá styrki þangað sem þeir eiga möguleika á o.s.frv.

Varðandi stjórnkerfið sjálft og frv. til laga um Vísinda- og tækniráð, þá staldra ég nú langmest við gríðarlega ráðherravæðingu þessa málaflokks. Ég hef hvergi séð neitt þessu líkt áður á prenti. Það vantar í raun og veru nánast eiginlega sáralítið upp á að öll ríkisstjórnin eigi að sitja þarna í þessu Vísinda- og tækniráði. Ég spyr nú bara: Til hvers? Og af hverju er hún ekki bara öll þarna? Það tekur því varla að sleppa þeim sem eru ekki taldir upp. Ef menn vilja láta ríkisstjórnina vera í einhverju vísinda- og tækniráði, þá finnst mér að eigi ekkert að vera að mismuna ráðherrum í þeim efnum.

Ég hef áður nefnt það og ég endurtek að ég undraðist það þegar ég fór að lesa þetta og skoða hverjir væru þarna og hverjir ekki, að einum ráðherranum skyldi þá vera sleppt sem ég hefði nú talið að ætti að vera í hópi þeirra fyrstu og það er utanrrh. Af hverju er ekki utanríkisviðskiptaráðherra og yfirmaður Útflutningsráðs í þessum hópi úr því að verið er að þessu á annað borð, þessari algjöru ráðherravæðingu yfirstjórnar þessa málaflokks?

Þetta er sem sagt þannig, herra forseti, eins og sjálfsagt öllum er ljóst sem hafa skoðað málið en sakar ekki að fara yfir, að sex ráðherrar eiga að tilnefna fulltrúa í Vísinda- og tækniráðið, í þennan 14 manna hóp sem fyrir utan ráðherrana sjálfa sitja þar. Það eru menntmrh., iðnrh., sjútvrh., landbrh., heilbr.- og trmrh. og umhvrh. Þessir ágætu ráðherrar tilnefna einn fulltrúa sinn hver. Það gæti t.d. verið pólitískur aðstoðarmaður þessara ráðherra sem þeir tilnefndu. Það skyldi nú ekki vera að þeim dytti það í hug, gæti verið? Gæti verið einhver fagmaður. Vitum það ekki.

En síðan sitja í ráðinu í eigin persónu forsrh., fjmrh., iðnrh. og menntmrh. En það er ekki nóg. Það gæti þurft að auka vægi ríkisstjórnarinnar aðeins betur í þessu, þannig að forsrh. hefur heimild til að kveðja allt að tvo ráðherra í viðbót til setu í ráðið í senn. Hann getur ákveðið, ja við skulum segja utanrrh., kannski fengi hann fyrir náð og miskunn að fljóta þarna inn, eða félmrh. og þeir mættu vera þarna í stjórninni annað árið og svo kannski þeir tveir eða þrír sem þar fyrir utan væru þá enn óupptaldir í ríkisstjórn, t.d. ráðherra Hagstofunnar, þeir væru svo hitt árið.

Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að mér blöskraði alveg þegar ég sá þetta. Ég hefði næstum því talið að einfaldara væri þá að hafa alla ríkisstjórnina og vera ekkert að mismuna mönnum. Það má alveg færa rök fyrir því að t.d. félmrh. gæti verið þarna sem er ráðherra sveitarfélaganna sem aftur fara með veigamikið hlutverk og bera vissa ábyrgð á atvinnumálum innan umdæma sinna. Og síðan eins og áður sagði utanrrh. sem er þó utanríkisviðskiptaráðherra og er yfir Útflutningsráði og hefur einmitt verið að bagsa við það í ráðuneyti sínu undanfarin ár að efla hlut utanríkisþjónustunnar á sviði markaðsaðgerða erlendis fyrir íslenskar vörur. En hann er ekki hafður með. Ég spyr nú bara: Hvers á hann að gjalda og sérstaklega miðað við núverandi aðstæður þar sem hann er formaður annars stjórnarflokksins?

Og síðan það að forsrh. sjálfur sé formaður þessa ráðs og fari með svona sérstakt tilnefningarvald á öðrum ráðherrum inn í ráðið er afar sérkennilegt fyrirbæri, herra forseti. Ég leyfi mér að spyrja: Hafa einhverjir stjórnsýslusérfræðingar, menn sem eru vel að sér um stjórnskipun lýðveldisins, hafa þeir farið yfir þetta og velt þessu fyrir sér út frá ýmsum grundvallarhugmyndum í þeim efnum? Ég minnist þess aldrei áður að hafa séð að forsrh. í fjölskipaðri ríkisstjórn væri falið tilnefningarvald á öðrum ráðherrum, óskilgreint, inn í stjórnskipað fyrirbæri af þessu tagi. Kannski eru til einhver fordæmi fyrir þessu og kannski er þetta allt í lagi í sjálfu sér, en ég leyfi mér að geta mér þess til að þetta sé a.m.k. afar athyglisverð nýbreytni, svo ekki sé meira sagt.

Síðan er það eitt enn, herra forseti, sem mér finnst líka þurfa að staldra við í þessu og það hef ég áður nefnt í tengslum við hliðstæð mál og það er að það gætir æ ríkari tilhneigingar til þess að breyta stöðu forsrn. og gera forsrn. sumpart hliðstætt fagráðuneytunum sem framkvæmdaráðuneyti á þessu sviði. Færð hafa verið undir forsrn. hlutverk t.d. í sambandi við eftirlitsstarfsemi í landinu, eftirlitsiðnaðinn sem stundum er kallaður og færð hafa verið undir forsrn. ýmis mál á undanförnum árum sem hafa smátt og smátt verið og eru að breyta stöðu þess frá því að forsrn. var tiltölulega laust við slík verkefni og hafði þessa skýru stöðu að vera ráðuneyti forsrh., m.a. með sitt lögskipaða úrskurðarhlutverk í deilumálum milli ráðuneyta og með það hlutverk að gefa út reglugerð um Stjórnarráð Íslands og annað sem hinni sérstöku stöðu forsrn. tengist.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort við Íslendingar séum ekki á villigötum með þessa þróun undanfarin ár sem sérstaklega hefur orðið áberandi í tíð síðustu ríkisstjórna undir forustu Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., að rugla þessum reytum saman. Er það endilega svo sniðugt að forsrn. og forsrh. með hina sérstöku stöðu sem það ráðuneyti auðvitað eðli málsins samkvæmt hefur í stjórnskipun landsins, sé í vaxandi mæli að taka yfir málaflokka framkvæmdalegs eðlis af þessu tagi og verði að því leyti til eins og eitt af framkvæmdaráðuneytunum eða fagráðuneytunum, en eigi áfram að hafa m.a. það hlutverk að úrskurða í deilumálum sem upp kunna að koma á milli þeirra? Þau geta sprottið upp og þar á meðal milli þessara ágætu ráðuneyta sem á að hrúga inn í þetta Vísinda- og tækniráð.

Herra forseti. Þessar hugleiðingar mínar leyfi ég mér að setja hér fram. Ég tel að það geti út af fyrir sig vel verið að þetta blessist allt saman og gangi upp, en mér finnst bæði dálítið undarlegt og þunglamalegt fyrirbæri þetta Vísinda- og tækniráð svona mannað, þetta verði geysilega fjölmenn samkunda og silkihúfuleg. Ég spái því að ekki verði auðboðað til funda þar sem allir yrðu mættir þegar meira en hálf ríkisstjórnin er sest inn í þetta og ég sé ekki alveg tilganginn með því að hauga þarna saman inn í ráð af þessu tagi annars vegar fulltrúum ráðherranna og svo ráðherrunum sjálfum. Verða þeir ekki svolítið kindarlegir fulltrúar ráðherranna í Vísinda- og tækniráðinu þegar ráðherrar þeirra sjálfur sest svo við hliðina á þeim inni á fundi? Hefur hann mikinn tilgang að hafa hinn tilnefnda fulltrúa með þegar húsbóndi hans og sá sem tilnefndi hann og hefur væntanlega oftast yfir honum að segja sem embættismanni, alla vega ef ráðherrann velur að taka einn af undirmönnum sínum út úr ráðuneyti eða undirstofnun? Hefur það þá mikið upp á sig að láta hann sitja við borðið við hliðina á ráðherranum sínum? Og er líklegt að menn væru óþvingaðir af því að tjá t.d. gagnstæðar skoðanir ef þær kæmu nú upp?

Ég hef miklar efasemdir um þetta og hefði talið að ef menn vilja ráðherravæða málaflokkinn og færa hann undir forsrn. sem ég sé líka ýmsa annmarka á, þá hefði kannski verið nær að hafa þetta þriggja manna ráðherraráð með einhverjum tilnefningum utan frá og ég hefði þá auðvitað horft til vísindasamfélagsins til að styrkja þar stöðu rannsóknastofnana háskólans og háskólanna, vísindasamfélagsins, að þeir hefðu tilnefnt þarna fulltrúa og svo e.t.v. atvinnulífið.

Herra forseti. Síðan ætlaði ég að fara nokkrum orðum um hin frumvörpin, fyrst og fremst frv. til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins.

Fyrst aðeins um frv. um sjóðina sem ég geri í sjálfu sér engar stórar athugasemdir við. Ég tel að það geti vel komið til greina að endurskipuleggja þetta sjóðafyrirkomulag. Ég held að það í sjálfu sér breyti ekki mjög miklu. Ég sé ekki nein stórfelld tíðindi í því frá því sem áður hefur verið. Það sem mestu máli skiptir auðvitað þarna er hvaða fjármuni menn hafa, hvert er afl hlutanna sem gera skal. Þar hafa menn auðvitað verið með mjög takmarkaða fjármuni miðað við eftirspurn. Það þekkja menn og það hefur valdið því að menn hafa rætt mikið á þeim vettvangi um hvort þeir ættu að fækka styrkjum og hækka þá, m.a. vegna þess að það fylgir því allmikið umstang að sækja um og það fer talsvert í sjálft sig ef úthlutað er síðan gríðarlegum fjölda af tiltölulega smáum styrkjum vegna þess að menn hafa takmarkaða fjármuni. Á hinn bóginn ef valin er sú leið að fækka þeim sem fá úthlutað og stækka þá eða hækka upphæðirnar, þá verður enn þá tilfinnanlegra en ella að hafna öllum þeim fjölmörgu, ágætu umsóknum sem full efni væru til að styðja, en ekki er þó hægt vegna peningaleysis.

Ég var ræðumaður á ársfundi þessa ágæta batterís fyrir nokkrum árum síðan og tók þá þátt í miklum umræðum um þetta og maður fann eiginlega sárt til þess þegar menn fóru að útmála það hversu erfitt hlutskipti það í raun og veru væri að fá allar þessar áhugaverðu og góðu umsóknir inn á borð, í hverjar væri búið að leggja gríðarlega vinnu og hafa síðan mjög takmarkaða fjármuni til að vinna úr þeim.

En þetta finnst mér, herra forseti, kannski ekki vera aðalatriðið í þessu máli, þessi endurskipulagning á úthlutunarsjóðunum sem hér er verið að gera.

Um frv., herra forseti, um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins má segja, eins og margt fleira og gildir um þessi mál í heild, að markmiðin eru ákaflega glæsileg og góð og maður vildi svo gjarnan að innstæður væru fyrir því að með þessum hlutum ætti að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun í landinu í því skyni að treysta stoðir íslenskrar menningar og auka samkeppnishæfi atvinnulífsins. Þetta er nú aldeilis ekki dónalega orðað og glæsilegt ef það gengur eftir, ef frv. verða til þess. En ég held að ráðherravæðingin á þessu sé ekkert pósitíft efnislegt innlegg í það mál sem slíkt. Ég hef ekki þá trú, miklu frekar að þetta verði heldur silkihúfulegt við þær breytingar.

[16:15]

Leggi menn hins vegar beinlínis fram aukna fjármuni, efli þeir þau tæki sem þeir ætla að nota í þessu skyni, rannsóknastofnanir, fræðastofnanir og/eða opinbera sjóði sem eiga að úthluta fjármunum þá er hægt að fara að tala um að þess sjái efnislega stað að menn ætli að gera eitthvað í þessum efnum.

Frv. um stuðning við tækniþróun hefur líka göfug markmið, þ.e. að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að byggja upp innviði og tæknilega getu fyrirtækja. Ég hefði kannski orðað þetta þannig að það ætti ekki að tala beint um innviði og tæknilega getu fyrirtækjanna heldur hina almennu innviði sem fyrirtækin eða atvinnulífið aftur styðst við. Það er auðvitað ekki hlutverk stjórnvalda að fara inn í fyrirtækin og byggja upp þar heldur að leggja grunninn sem atvinnulífið stendur á. En þegar kemur að stofnunum og beinum stuðningi við frumkvöðla þá gildir þetta og hér er talað um það og að takast á við tækniþróun og rannsóknir er henni tengjast sem leiða til nýsköpunar í íslensku atvinnulífi. Maður getur heldur betur tekið undir þetta allt saman af öllu hjarta, herra forseti.

Svo kemur fyrirkomulagið sem þarna á að koma til sögunnar, þ.e. nýsköpunarmiðstöð á vegum Iðntæknistofnunar fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Það er ákaflega gaman að sjá þessa skilgreiningu loksins komna inn í lagafrv. hér á landi. En á það hefur mér þótt skorta mjög og okkur mörgum að menn hefðu augun opin og beindu sjónum sínum ekki síður að nýsköpun, að tilurð nýrra fyrirtækja og vexti smárra og meðalstórra fyrirtækja, heldur en hinum stóru patentlausnum sem Íslendingar hafa reynst ákaflega haldnir af, jafnvel í nútímanum. Nægir að vitna til ríkisframkvæmdanna miklu í virkjana- og stóriðjumálum sem eru einstæðar í sögunni á Vesturlöndum að ég hygg, þ.e. að í sjálfstæðu hagkerfi sé ráðist í svo hlutfallslega stórar framkvæmdir miðað við þjóðartekjur eða veltu í þjóðarbúskapnum eins og þær eru, beint og óbeint á vegum ríkisins og knúnar áfram af því. Guð láti gott á vita að þetta sé til marks um einhverja meðvitund gagnvart því að það verður auðvitað fyrst og fremst að hlúa að og treysta á vöxt í hinu almenna atvinnulífi, þ.e. nýgræðinginn, vegna þess að það þarf ekki nema einfaldan hlutfallareikning til að sjá að einstakar stóriðjuframkvæmdir, þó risavaxnar séu í fjármunum talið eins og þessar miklu framkvæmdir fyrir austan eða þess vegna stækkanir hér á suðvesturhorninu, skila ekki nema broti af þeim störfum sem verða að vera til í hinu almenna atvinnulífi á hverju einasta ári ef ekki á að vaxa hér upp atvinnuleysi. Það þurfa að verða til kannski 1.500--2.000 ný störf í atvinnulífinu á hverju einasta ári ef atvinnuleysi á ekki að vaxa þannig að 700 störf sem verða til eftir fimm ára framkvæmdaskeið eru náttúrlega eins og dropi í hafið. Þess vegna væri háskalegt ef menn einblíndu á slíkar patentlausnir og vanræktu nýgræðinginn á akri nýsköpunar og þróunar í atvinnumálum þar sem hið almenna atvinnulíf verður auðvitað að leggja til helftina. Það sem ekki bætist við í vexti opinberrar þjónustu og gegnum aukna samneyslu verður að koma til sögunnar í almenna atvinnulífinu í formi nýrra fyrirtækja og þess vaxtar sem á sér stað í smáum og meðalstórum fyrirtækjum.

Þessi skilgreining er alþjóðlega viðurkennd. Að vísu væri áhugavert að glíma við að setja upp íslenskar viðmiðanir í þessum efnum vegna þess að t.d. viðmiðanir Evrópusambandsins um hvað skuli teljast og flokkast smá og meðalstór fyrirtæki eru þannig að obbinn af íslensku atvinnulífi lendir inn í þá skilgreiningu ef við notum þær tölur um starfsmannafjölda eða veltu sem skilgreiningar t.d. í evrópska sáttmálanum um smá og meðalstór fyrirtæki gera ráð fyrir. Kannski ættum við að velta því fyrir okkur að eiga einhverja íslenska greiningu í þessum efnum. En kosturinn við að nota hina alþjóðlegu skilgreiningu er þó sá að við getum t.d. beitt stuðningsaðgerðum þannig að þær samræmist að öllu leyti samkeppnisreglum Evrópska efnahagssvæðisins á grundvelli hinnar evrópsku skilgreiningar. Við getum hlúð sérstaklega að tilurð og vexti þessara smáu eininga í atvinnulífinu. Fyrir því eru fordæmi og það er hægt að gera án þess að það brjóti hinar almennu samkeppnisreglur. Og þarf þá ekki að vera um að ræða stuðning á sérstökum byggðaþróunarsvæðum.

Herra forseti. Vonandi verður nýsköpunarmiðstöðin barn í brók og eitthvað meira en bara fögur orð og fögur markmið á blaði. En til þess þarf auðvitað að standa myndarlega að þeirri uppbyggingu og leggja henni til fjármuni.

Það má heldur ekki, herra forseti, fara þá leið sem stundum hefur verið farin á Íslandi að menn hafa ákveðið að stofna sjóð eða setja á fót eitthvert þróunarfélag eða hvað það nú hefur verið kallað á mismunandi tímum --- Þróunarfélagið, Nýsköpunarsjóður og auðvitað Byggðastofnun og margt fleira mætti nefna --- og standa svo þannig að framkvæmdinni eða hafa úthlutunarreglur og fyrirgreiðslureglur þannig að það komi að sáralitlum notum. Það hefur líka gerst. Það þýðir lítið að stofna sjóði sem eiga að styrkja atvinnulíf, kannski sérstaklega á landsbyggðinni, en gera þannig ávöxtunarkröfur eða þannig kröfur um tryggingar að það sé nánast undantekning að nokkur maður ráði við þær þannig að afleiðingin verður að sjóðirnir bólgna út af peningum, þeir komi þeim ekki út og fara að kaupa verðbréf hver í öðrum til þess að koma peningunum fyrir. Um það höfum við nýleg dæmi að nákvæmlega þannig hefur farið. Þeir hlutir sem menn þó sögðust ætla að gera hafa því ekki nýst. Maður heyrir náttúrlega mjög mikið kvartað undan því nú að erfiðara en nokkru sinni sé að fá lágmarksfyrirgreiðslu, fjármagnsfyrirgreiðslu, jafnvel bara venjulega bankaþjónustu ef í hlut eiga veikburða tilraunir til atvinnuuppbyggingar, sérstaklega á landsbyggðinni, þar sem hinir fínu, háeffuðu og einkavæddu bankar og sjóðir nánast nota það sem sjálfkrafa viðmiðun til að segja nei ef þeir sjá að póstfangið víkur eitthvað verulega frá suðvesturhorninu eða kannski Akureyri og næsta nágrenni.

Þetta er bara veruleikinn eins og hann er. Ef menn halda að hér sé verið að mála hlutina dökkum litum eða fara með fleipur þá hvet ég þá til þess að taka sér smáreisu, t.d. um norðvestanvert eða norðaustanvert landið og ræða við aðila sem tugum saman hafa verið nákvæmlega í þessum sporum, að reyna að fá stuðning við einhverja nýsköpun í atvinnulífinu, og heyra hvaða sögu þeir hafa að segja.

Ég fullyrði það, herra forseti, að þær breytingar sem orðið hafa í fjármálakerfinu og þrátt fyrir tilkomu sjóðanna með fínu nöfnunum þá hefur þetta sumpart farið aftur á bak en ekki áfram þegar kemur að því að fá fyrirgreiðslu, jafnvel bara lágmarksbankaþjónustu og lágmarksfyrirgreiðslu í sambandi við fjárfestingar, uppbyggingu á húsnæði eða kaupum á tækjakosti eða öðru slíku og jafnvel þó þar séu sett, að menn hefðu einhvern tímann talið, fullgildandi veð t.d. í iðnaðarhúsnæði á landsbyggðinni. En vita menn hvers virði það er nú talið af hinum háu herrum sem ráða háeffuðu og einkavæddu bönkunum og sjóðunum? Það er nú ekki gefið mikið fyrir það ef iðnaðarhúsnæðið er á Vestfjörðum, á norðausturhorninu eða einhvers staðar annars staðar.

Þannig hafa breytingarnar orðið, herra forseti, að aðilar sem fyrir nokkrum árum síðan áttu í gegnum fjárfestingarlánasjóði sinna atvinnugreina, eins og Fiskveiðasjóð og Iðnlánasjóð, vísa fyrirgreiðslu upp á 60% af stofnkostnaði við byggingu fiskvinnsluhúsnæðis eða iðnaðarhúsnæðis eða kaupa á fiskiskipi, ganga nú svipugöngin fram og til baka og fá litla sem enga fyrirgreiðslu, þar á meðal frá bönkunum eða bankanum sem gleypti þessa sjóði með húð og hári og hvers eigið fé myndar nú að verulegu leyti. Um þetta þekki ég mörg dæmi, herra forseti, að jafnvel við kaup á nýjum fiskiskipum þar sem menn bjóða fyrsta veðrétt í mjög fullgildri verðmætri eign sem er afsetjanleg og er ekki einu sinni föst á grunni þá kemur það til lítils eða einskis gagns. Þar hefur auðvitað orðið mikil afturför, herra forseti, frá því sem áður var.

Herra forseti. Ég veit að þetta þykir sjálfsagt hæstv. ráðherra eða ráðherrum sem hér eru við ekki skemmtitölur og að þeir vildu miklu frekar að maður mærði hér hin göfugu og fallegu markmið sem frumvörpin setja fram. En mér þykir nú ekki mikið upp á sig hafandi að ræða þá hluti ef ekki er hægt að taka þá í samhengi við þann veruleika sem blasir við þeim mönnum sem eru þó að glíma við þessa hluti í reynd. Ég geri ráð fyrir því að meira að segja hæstv. menntmrh. þekki eitthvað til þessara vandkvæða sem menn standa frammi fyrir sem eru að reyna nýsköpun í atvinnulífinu út um landið. Það er a.m.k. ákaflega algengt umfjöllunarefni á fundum okkar þingmanna þegar við förum sumir um saman og ræðum við umbjóðendur okkar í þinghléi eða kjördæmaviku, sennilega eitt algengasta umræðuefni sem þar ber á góma fyrir utan vonda vegi.

Herra forseti. Ég tel þó að það sé sumpart jákvætt og ánægjulegt að í þessu frv. um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins sé horft til hlutanna með þessum hætti. Þarna er talað sérstaklega um nýsköpunarmiðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Þetta hafa Svíar t.d. gert með ágætum árangri. Þeir reka bæði slíka nýsköpunarmiðstöð og reyndar líka sjálfstæða rannsóknarmiðstöð sem eingöngu sinnir rannsóknum á nýsköpun í smáum einingum og einbeitir sér að því að greina þau mál, greina þau vandamál sem þar eru að fást við o.s.frv.

Ég vil í því sambandi og að lokum, herra forseti, minna á að fyrir þessu þingi liggur till. til þál. um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum, flutt af okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Þessi tillaga er nú komin til nefndar og gjarnan hefði ég viljað sjá að hún hefði sömuleiðis fengið afgreiðslu á þessu þingi og henni mætti mjög gjarnan að verulegu leyti vísa til hinnar nýju nýsköpunarmiðstöðvar fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki vegna þess að margt af því sem talið er upp sem verkefni þeirrar nýsköpunarmiðstöðvar fellur ágætlega að þeim þáttum sem við erum að taka á í þessari þáltill. Þar er að vísu ýmislegt fleira sem tæpast er að vænta að þróunarstarf af því tagi sem nýsköpunarmiðstöðin á væntanlega fyrst og fremst að sinna, leysi af hendi. Það þarf auðvitað líka að skoða hluti eins og skattalög og ákvæði, samkeppnisskilyrði almennt, ýmislegt sem lýtur að kostnaði af samskiptum við stjórnvöld, af eftirliti og af leyfisveitingum, því t.d. hvernig menn auðvelda stofnun nýs rekstrar, auðvelda ættliðaskipti í slíkum atvinnurekstri og fleira og fleira sem í ljós kemur að getur orðið vandamál, getur orðið þröskuldur sem jafnvel knésetur svona starfsemi, sérstaklega ef hún er á unga aldri og má ekki við miklum áföllum.

Auðvitað þyrftu því fleiri aðilar að koma til. Ég held að mjög vænlegt væri að fara þá leið sem við leggjum til í tillögu okkar. Þar er svo sem ekki verið að finna upp hjólið. Þar er vísað til hluta sem margar aðrar þjóðir hafa gert, að vinna heildstæða framkvæmdaáætlun, að setja í lög eða staðfesta sáttmála um málefni þessara tegunda atvinnurekstrar. Það hefur verið gert í Evrópusambandinu. Það hefur verið afgreitt á vettvangi Norðurlandaráðs og ég sé ekki neitt því til fyrirstöðu að við gerum það einnig hér, Íslendingar eða Alþingi Íslendinga. Á þeim grunni yrði síðan unnin slík vinna, bæði upplýsingasöfnun og úttekt á stöðunni og síðan gerð áætlun um tillögur til úrbóta á helstu þáttum sem ástæða væri til að taka á.

Það er enginn vafi á því að þar er margt hægt að gera og það kostar ekki allt peninga. Stundum er spurningin einfaldlega sú að hafa alla umgjörðina, lagarammann og starfsskilyrðin sem þjálust og þannig að þau styðji við bakið á slíkri starfsemi en jafnvel torveldi hana ekki eins og annars getur verið hætta á.

Við munum að sjálfsögðu, herra forseti, leggja áherslu á að fá þessa tillögu okkar afgreidda. Mér fyndist fara vel á því að hún fengi að fljóta með í framhaldinu verði þetta lögtekið hér á næstu vikum, sem ætla má. Fyrir vorið yrði komin í gang vinna af þessu tagi og þá fengi hin ágæta nýsköpunarmiðstöð ærið að starfa að svo miklu leyti sem menn veldu þá að vísa slíkum verkefnum til hennar. En þá þarf auðvitað að efla hana til mikilla muna frá því sem enn er fyrirhugað og gera henni kleift að sinna starfi sínu vel.

Herra forseti. Eins og ég hef farið hér yfir er ýmislegt jákvætt og gott um þessi frv. að segja, sérstaklega hin fögru orð sem þar eru víða sett á blað. Annað orkar meira tvímælis og sumt höfum við miklar efasemdir um eins og þegar hefur komið fram í framsöguræðu talsmanns okkar, Kolbrúnar Halldórsdóttur, sem flutt var hér áðan.