Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 17:06:51 (2847)

2003-01-21 17:06:51# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[17:06]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka þeim þremur hv. nefndum hv. Alþingis sem hafa fjallað um þessi þrjú svokölluðu vísindafrv. fyrir ágæt störf. Það er ljóst að innan þessara nefnda hefur farið fram mikið starf og það hefur verið vel af hendi leyst. Þetta mál hefur verið nokkurn tíma í umfjöllun og þegar ég ákvað það á liðnu vori að fresta afgreiðslu málsins þá var það gert í raun í trausti þess að um þetta ágæta mál yrði breiðari og meiri samstaða ef það fengi meiri tíma til að þróast, gerjast og þroskast.

Ég held að það sé nákvæmlega það sem gerst hafi. Ég held að hægt sé að fullyrða það hér og nú að málið hefur fengið meiri umfjöllun. Það nýtur meiri skilnings og mun meiri samstaða er um það. Ég tók eftir því að á kynningarfundi sem haldinn var í lok þess starfs sem sjömannanefndin svokallaða vann komu engar grundvallarathugasemdir við málið og það sést líka á umsögnum um málið hjá nefndum Alþingis að um það er orðin almenn samstaða.

Nokkuð hefur verið rætt um það hér að standa hefði þurft öðruvísi að kynningarmálum en gert var og þá er sérstaklega nefnd til sögunnar ferð sem farin var að minni tilstuðlan til Finnlands og er í raun önnur ferð sem farin er þangað til lands til þess að fræðast um ekki aðeins fyrirkomulag stefnumótunar í vísindamálum heldur einnig almennt samstarf vísindasamfélagsins og stjórnmálamanna. Þess ber að geta að þetta ferðalag var aðeins liður í þeirri viðleitni minni að auka upplýsingagjöf um þetta, en ég stóð fyrir fundi 20. júní sl. þangað sem kom finnskur þingmaður sem var formaður framtíðarnefndarinnar, Markku Markkula og fór yfir stefnumótun finnska þingsins í málefnum þekkingarsamfélagsins. Ef ég man rétt þá var öllum stjórnmálaflokkum boðinn aðgangur að þessum kynningarfundi og flestir nýttu sér það með góðum árangri.

Að því er varðar Finnlandsferðina þá skrifaði ég Alþingi bréf þar sem ég bauð upp á það að þingið sendi fulltrúa stjórnmálaflokkanna, að sjálfsögðu á kostnað þingsins, og taldi eðlilegt að þeir fengju aðild að þessu ferðalagi og það gæti þá orðið nefndum þingsins til frekari upplýsingar um þessi mál. En því var svarað svo til að ekki væru fjármunir til þess að standa undir þessum ferðakostnaði þannig að frammi fyrir þeirri stöðu þá ákvað ég að leggja til að ráðuneytin greiddu ferðakostnað formanna nefndanna, iðnrn., menntmrn. og fjmrn., minnir mig að hafi staðið straum af þessu, til þess að tryggja þó þannig upplýsingagjöf inn í þessar nefndir. Síðan lagði ég áherslu á að birt yrði skýrsla um ferðalagið sem yrði þingmönnum til upplýsingar um þessa fundaröð sem við stóðum fyrir í Finnlandi og var mjög gagnleg.

Ég vil því taka fram að ég tel að þarna hafi verið eðlilega að málum staðið, en ekki voru tök á að styðja þingmenn til þessarar farar sjálfsagt vegna þess að rekstrarliður þingsins hefur verið naumt skammtaður.

Þegar ég lít yfir nál. minni hlutans um þessi mál og hlusta á málflutning hans verð ég að segja eins og er að mér finnst að ekki hafi komið fram sterk rök fyrir því að þingmenn sameinist ekki um þetta mál. Mér finnst ekki hafa komið fram sterk rök fyrir því. Fyrir það fyrsta vil ég taka það sérstaklega fram að sú skipan mála að hér er farið fram með þrjú frv. en ekki eitt stafar alls ekki af því að ágreiningur hafi verið milli stjórnarflokkanna um þetta mál, alls ekki. Þvert á móti er þetta bein afleiðing af því stjórnskipulagi sem hér ríkir.

Ljóst er að vísindi eru nú samofin viðfangsefnum mjög margra ráðuneyta, í raun og veru allra en þó í mismiklum mæli. Þau eru að sjálfsögðu eitt höfuðviðfangsefni menntmrn. og að því er varðar tækniþróun eru þau eitt af hinum stærstu viðfangsefnum sem iðnrn. fæst við. Auk þess má geta þess að atvinnumálaráðuneytin fást mjög mikið við rannsóknir og byggja starfsemi sína bæði á grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum. Við getum t.d. ímyndað okkur að sjútvrn. ætti í mjög miklum erfiðleikum með að marka sér framtíðarsýn, ef það ráðuneyti styddist ekki við störf Hafrannsóknastofnunar. Það leiðir af sjálfu sér að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins starfar líka að því að reyna að ýta undir framþróun í fiskiðnaði. Starf sjútvrn. er því mjög háð rannsóknum og vísindum. Það gildir einnig um önnur ráðuneyti, ekki síst atvinnuvegaráðuneytin.

Eðli málsins samkvæmt er hins vegar er æskilegt að ráðherrarnir vinni saman á vettvangi. Þegar sá vettvangur hefur verið mótaður er eðlilegt að forsrh. sinni þar þeim skyldum sínum að samræma stefnumörkunina.

Þessi þrjú vísindafrv. endurspegla að vissu leyti þau tök sem þessi mál hafa verið tekin í Finnlandi en þar er farin þessi sama leið og hún hefur reynst vel. Ég kem að því hér á eftir hvers vegna finnska fordæmið er æskilegt og gott fordæmi.

Nákvæmlega af þeim ástæðum er aðkoma forsrh. að þessu máli er æskileg, án þess að hann verði þar með fagráðherra --- ekki er verið að ýta neitt undir það að forsrn. verði fagráðuneyti. Hins vegar er sú staðreynd viðurkennd hvaða hlutverki forsrn. gegnir, hversu mikið vægi vísindanna er almennt orðið í Stjórnarráðinu, hversu æskilegt er að ráðherrarnir komi að þessum málum hver með sínum hætti og hversu mikilvæg þessi stefnumörkun er fyrir einstök ráðuneyti. Því er eðlilegt að haga þessu svona og þetta endurspeglar ekki ágreining. Það er mjög mikilvægt að ég eyði þessum misskilningi því að það er ekki svo að þarna hafi verið ágreiningur á ferðinni heldur er þetta eðlileg skipan mála miðað við okkar fyrirkomulag.

[17:15]

Í raun og veru var Vísinda- og tækniráð sá þáttur málsins sem ekki hafði verið hrint í framkvæmd af þeim heildarhugmyndum sem bent var á af OECD á sínum tíma. Við gengum í verulega endurskipulagningu á styrkjakerfinu, sjóðakerfinu og það hefur reynst vel. Það hefur komið fram að það hafi reynst vel. Það er hárrétt. Það hefur reynst ágætlega enda er ekki verið að breyta því. Áfram er stuðst við hinar faglegu aðferðir sem hafa verið mótaðar í rúm tíu ár innan Rannsóknarráðs um hvernig eigi að veita styrk. Það er að vísu breytt úr þriggja þrepa kerfi í tveggja þrepa kerfi, ef svo má að orði komast, en alls ekki í öðrum tilgangi en að viðhalda faglegum vinnubrögðum. Það er afar mikilvægt að menn skilji að það stendur ekki til að breyta þessum faglegu vinnubrögðum. Þau hafa reynst vel og við þau verður áfram stuðst.

Hins vegar hafa menn verið að viðurkenna þá staðreynd að vísindin eru verulega mikilvægur hlutur í hagvexti þjóðarinnar, verulegur hlutur í atvinnustigi og lífskjörum þjóðarinnar. Þess vegna er verið að færa stefnumörkunina frá Rannsóknarráði Íslands, Rannís, og upp á stigið þar sem ríkisstjórnin starfar. Þar er verið að stefna saman þremur mikilvægum aðilum, þ.e. vísindasamfélaginu, stjórnmálamönnum, sem bera ábyrgð á framkvæmdarvaldinu, og atvinnulífinu. Það er þessi samvinna sem tryggð verður með þessum hætti. Það er einmitt samvinna af þessu tagi sem hefur lukkast mjög vel í Finnlandi. Við erum að vissu leyti að feta í fótspor þeirra í þessum efnum. Mikilvægt er að menn geri sér grein fyrir þessu.

Hér hefur málið verið skilgreint þannig að verið sé að stjórnmálavæða vísindin. Ég tek fram að þessi frumvörp fjalla um stefnumörkun. Mér bregður svolítið þegar menn tala í mjög neikvæðum tón um að stjórnmálavæða stefnumörkunarstarf í þjóðfélaginu. Hvert er hlutverk okkar stjórnmálamanna ef ekki einmitt að móta stefnu? Er það illt í sjálfu sér að við setjum ramma utan um samstarf atvinnulífsins, vísindamanna og stjórnmálamanna? Er það slæmt í sjálfu sér? (KolH: Það verður bara ríkisstjórnarstefna.) Því miður er þetta byggt á misskilningi. Þarna er verið að stíga mjög jákvætt skref. Það er verið að gera stjórnmálamönnum fært að axla með árangursríkari hætti þá ábyrgð sem þeir eiga að bera, að marka stefnu í öllum málum samfélagsins og þá ekki síst með tilliti til þess að vísindin eru samofin flestum þáttum í uppbyggingu samfélagsins. Þetta er mikilvægt að menn hugleiði.

Það er einnig mikilvægt að menn hafi hugfast, sem ég er reyndar búinn að skýra áður í umræðum um þessi mál þó að mér heyrist að á það hafi ekki verið hlustað, að þessi þrjú frumvörp fjalla ekki um fjármögnun sjóðakerfisins. Þeim er ekki ætlað að gera það. Sú gagnrýni að hér sé verið að tala um peninga en ekki stefnumörkun er á misskilningi byggð. Hér er verið að búa til ramma um stefnumörkun. Sá er tilgangur frv. Menn eru því að fara í geitarhús að leita ullar þegar þeir spyrja um fjármuni í þessu frv. Sérstaklega er það fjarri öllu lagi að telja, þegar fram kemur í þessum frumvörpum það álit að stjórnsýslukostnaður við þetta fyrirkomulag muni minnka, að með því eigi að minnka fjárframlög til vísinda. Þetta er hártogun. Af því að ég horfi hér á marga vandaða þingmenn sem leggja það ekki í vana sinn að vera með hártoganir þá finnst mér það ekki þeim samboðið að tala um þetta á þeim grundvelli.

Kostnaðarútreikningurinn með þessum frumvörpum er ekki umfjöllun um fjárframlög til vísinda. Engum ætti að detta það í hug. Það er verið að reikna út stjórnsýslukostnað. Það er beinlínis sagt að það verði lægri stjórnsýslukostnaður vegna kerfisins. Hins vegar mega þingmenn gjarnan spyrja þann sem hér stendur um hver sé staða mála í fjárframlögum til vísinda og þar með til hinna frjálsu vísindasjóða. Það er eðlilegt að um það sé spurt og skal ég nú koma að því og því hvort sú lýsing stenst fyllilega sem hér hefur komið fram hvað eftir annað, að mjög illa sé staðið að þeim málum á Íslandi almennt.

Í raun væri hægt að nota ýmsa mælikvarða til að sjá hvernig þjóðin stendur sig í þessum efnum. En mælikvarðarnir sem við getum lagt á þetta eru fólgnir í því annars vegar að líta á framlög til vísinda og rannsókna í heild og í öðru lagi á opinber framlög til vísindarannsókna. Í þriðja lagi, eins og hér var beðið um, verður að skoða framlög einkageirans til vísindarannsókna og að lokum er athyglisvert að skoða þessi framlög sem hlutfall af vergri landsframleiðslu og kalla saman samanburð á þeim efnum við aðrar þjóðir. Í raun og veru getum við ekki notast við marga aðra mælikvarða þó að einn mælikvarði sé þá eftir. Sá er að vísu ekki nákvæmur en hann segir sýnilega mestu söguna, þ.e. hvernig þjóðinni vegnar og hversu mikill hluti af þeim hagvexti og batnandi lífskjörum sem við búum við og höfum byggt hér upp sl. rúm 10 ár byggist raunverulega á því að við höfum ákveðið að fjárfesta í háskólum, menntun og rannsóknum.

Ef við lítum aðeins á þessi mál er það ljóst að OECD-ríkin hafa sett sér það markmið að ná heildarframlögum til rannsókna yfir 3% af landsframleiðslu. Íslendingar komust nýlega yfir þetta mark. Þeir í hópi örfárra ríkja sem hafa náð þessu marki. Finnar hafa lengi verið nokkuð yfir þessu marki. Svíar hafa einnig verið yfir því en hins vegar blasir við sú mynd að framlag Svía til rannsókna, bæði frá opinbera geiranum og frá ríkinu, hefur verið í jafnvægi lengi og er heldur að lækka ef eitthvað er. Hjá okkur hefur þetta stöðugt vaxið, meira að segja svo mikið að vöxturinn hefur, ef ég man þetta rétt, verið um 13% á ári. Sá vöxtur er langt umfram það sem viðmiðunarþjóðir okkar hafa nokkurn tíma boðið upp á. Þetta er íslenska samfélagið að gera. Ekkert samfélag í Evrópu, sambærlegt við Ísland að mannafla, ber sig til með þessum hætti.

Ég ráðlegg þingmönnum að kynna sér hvað það samfélag sem við erum oftast borin saman við þegar rætt er um Evrópusambandsaðild okkar, þ.e. Lúxemborg, rekur marga háskóla og ver miklu til vísinda. Ég held það væri gagnlegt fyrir þingmenn að kynna sér þetta. Þeir reka reyndar engan háskóla. Engan. (Gripið fram í: Búnir að ákveða að opna einn núna.) Þeir eru búnir að ákveða að opna einn núna, er kallað utan úr sal. Það er nú ekki svo heldur eru þeir búnir að ákveða að opna mjög takmarkaða starfsemi ákveðinna deilda, háskóladeilda. Það er allt og sumt. En þeir eiga eftir að hrinda því í framkvæmd á meðan Íslendingar hafa stofnað sjö og jafnvel átta háskóla. Ég skal gjarnan fara yfir samanburðinn milli Íslands og Finnlands á eftir vegna þess að sérstaklega hefur verið óskað eftir því. Sá samanburður er Íslendingum ekki til minnkunar, það get ég fullvissað hv. þingmenn um. Við eigum að sýna því sanngirni sem Íslendingar hafa gert í þessum efnum. Við eigum að virða það því að auðvitað koma þessir peningar frá skattgreiðendum. Það eru þeir sem bera uppi kerfið sem við höfum komið okkur upp sem hefur leitt til góðs og orðið okkur til framfara og heilla.

Íslendingar leggja hátt hlutfall opinbers fjár til rannsókna miðað við aðrar þjóðir. Íslendingar leggja mikla peninga til rannsókna miðað við aðrar þjóðir. Á árinu 2001 námu opinber framlög til rannsókna 1% af vergri landsframleiðslu. Það er, hv. þingmenn, með því hæsta sem gerist í heiminum. Hér er verið að ýja að því að svo sé ekki heldur sé nánasarlega staðið að framlögum til rannsókna og vísinda. Þessu er öfugt farið. Við erum með einna hæst framlag í heiminum. Aðeins Finnar leggja hlutfallslega jafnmikið af opinberu fé til rannsókna. Næstir í röðinni eru Frakkar með 0,89% af vergri landsframleiðslu.

Þá komum við að þróuninni varðandi skiptinguna á milli einkageirans og opinberra aðila. Um það bað hv. þm. Ögmundur Jónasson alveg sérstaklega. Þar hefur orðið bylting á Íslandi undanfarin tíu ár. Það er ekki langt síðan ríkið lagði fram um það bil 70% af því fjármagni sem gekk til rannsókna. Nú leggur einkageirinn til 64% af því fjármagni sem fer til rannsókna. Ég minni á það aftur að við erum nú í flokki örfárra þjóða heimsins sem leggjum meira til heldur en 3%. Hvernig stendur á því að einkageirinn hefur aukið framlag sitt til vísinda svo mjög? Það er vegna þess að hann hefur skynjað að það er stefna stjórnvalda að auka þátttöku atvinnulífsins í rannsóknum og vísindum. Við höfum búið til umhverfi sem gerir það jákvætt fyrir fyrirtækin að fjárfesta í vísindum, enda hafa þau gert það eins og þessar tölur sýna. Þetta hefur gerst á örfáum árum. Á um það bil áratug hefur orðið þessi mikla bylting, einmitt á sama tíma og lífskjör á Íslandi hafa farið stórlega batnandi. Nú er svo komið að um 64% koma frá einkageiranum, um 23% koma frá ríkinu og opinberum aðilum en 13% koma beinlíns frá útlöndum. Það hvernig við höfum laðað erlent fjármagn til þess að verða virkt í íslensku vísindastarfi er að sjálfsögðu líka mjög jákvæð þróun.

Ég reikna með því að fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafi ekki sömu viðhorf til þátttöku einkageirans í rannsóknastarfi eftir því hvar þeir sitja í flokki. Ég heyrði að hv. þm. Ögmundur Jónasson varaði við aukinni þátttöku einkafyrirtækja í rannsóknum. Ég skildi hann þannig að hann slægi varnagla við því að fyrirtækin tækju mikinn og aukinn þátt í þessu. Hann ímyndaði sér að þetta kæmi með einhverjum sérkennilegum hætti inn í fyrirtækin, gegnum banka eða eitthvað annað. Ég býst við því að ef þarna er um einhvern misskilning að ræða þá vilji hv. þm. gjarnan leiðrétta þann misskilning og mun ég þá taka mark á þeim leiðréttingum.

Ég ætla aðeins að nefna nokkur dæmi um hve mikilvæg þátttaka atvinnulífsins í rannsóknum hefur í heild orðið. Nefna má sem dæmi að erlend fyrirtæki hafa keypt rannsóknarniðurstöður íslenskra vísindamanna fyrir tugi milljarða kr. á sl. árum. Með öðrum orðum hafa niðurstöður íslenskra vísindamanna fært fyrirtækjum hér milljarða kr. og tugi milljarða kr., vegna þess að þessi starfsemi hefur eflst svo mikið. Hvernig eru þeir fjármunir notaðir sem hingað beraast sem tekjur af vísindastarfsemi? Að langmestu leyti eru þessir fjármunir notaðir til að fjárfesta í vísindum og margfalda þar með verðmæti starfseminnar.

[17:30]

Ef við lítum til þess hlutverks sem einkageirinn gegnir almennt í vísindum, þá getum við tekið sem dæmi að burðarásinn í framförum í lyflæknisfræði eru einkafyrirtækin. Það er mjög áhættusamur atvinnurekstur sem krefst þess að mikið áhættufjármagn sé til staðar og menn séu reiðubúnir til þess að taka mikla áhættu en geti jafnframt haft mikinn arð af ef vel tekst til. Þetta vildi ég að kæmi fram vegna þess að ég held að sú staðreynd blasi við að við Íslendingar höfum orðið blessunarlega þátttakendur í því sem best hefur gerst í heiminum í samstarfi atvinnulífs og vísinda. Þetta hefur tekist hjá okkur og það hefur tekist vegna þess að opinberir aðilar hafa verið reiðubúnir að fjárfesta í menntun og vísindum og vegna þess að skapað hefur verið jákvætt andrúmsloft fyrir fyrirtækin til að taka þátt í þessari þróun.

Spurt hefur verið um það hvernig standi á því að við leitum svo mikið til Finna með hugmyndir um hvernig standa beri að stefnumörkun í vísindum og það eru ástæður fyrir því. Þær ástæður eru til þess að gera skýrar og einfaldar. Finnar eru reyndar ein af smáþjóðunum í heiminum þannig að ef við viljum leita sambærilegra aðstæðna þá leitum við gjarnan til þjóða sem eru kannski svipaðar að stærð og Norðurlandaþjóðirnar þó að þær séu margfalt stærri samfélög en við, kannski 15--20 sinnum stærri samfélög en Ísland er, þá leitum við fanga þangað. Við berum okkur ekki gjarnan saman við þær þjóðir sem eru álíka stórar og við eins og Möltubúar og Lúxemborgarar. Við gerum það ekki mikið af einhverjum ástæðum, við teljum það ekki passa. Það er talið passa þegar við erum að tala um ganga í Evrópusambandið en við teljum það ekki hæfa þegar við erum að meta framlag okkar til lista og framlag okkar til mennta og menningar á Íslandi. Ég geri enga athugasemd við það. Ég tel það fullkomlega eðlilegt að við berum okkur saman við stærri þjóðir en við erum.

En ef við berum okkur saman við Finna og viljum reyna að leggja mat á það hvort við höfum staðið með einhverjum hætti að uppbyggingu menntastofnana okkar á þann máta að við þolum ekki samanburð við Finna, þá verð ég að segja eins og er að á það get ég ekki fallist með nokkru móti. Finnar hafa stofnað um það bil 20 háskóla. Þessi þjóð hefur stofnað um það bil 20 háskóla og af þessum 20 háskólum eru þrír tækniháskólar. Íslendingar hafa stofnað um 7--8 háskólastofnanir, þar af eina akademíu og þeir eiga nú tækniháskóla. Sem hlutfall af umsvifum þjóðarinnar og stærð þjóðarinnar er þetta hlutfallslega meira en Finnar gera á þessu sviði. En það er hins vegar hárrétt sem komið hefur fram hjá fjölmörgum ræðumönnum að þeir byggja upp á eldri grunni og hafa lengi staðið vel að þessu. Ég tek undir það með þeim ræðumönnum sem hafa sagt hér að við þurfum að efla tækninám. Það er ein af þeim áherslum sem við þurfum að leggja hér á Íslandi.

Að ýmsu öðru leyti eru aðstæður öðruvísi. Finnar hafa t.d. lagt áherslu á að nota vísindi og tækni til að endurbyggja sinn hefðbundna iðnað eins og skógarhöggið, finna nýja möguleika fyrir þær hefðbundnu atvinnugreinar sem áttu í miklum erfiðleikum eftir að markaðsaðstæður versnuðu hjá Finnum. Ég held að vandfundin sé sú þjóð í Evrópu án þess að ég vilji nokkur vera að hæla Íslendingum sérstaklega fyrir það, þá held ég að það sé þannig að vandfundin sé sú þjóð sem hefur fjárfest jafnmikið í menntun og vísindum og Íslendingar hafa gert. Ég bar Ísland saman við Lúxemborg og sá samanburður er að mörgu leyti æskilegur og réttlátur. Önnur þjóðin, Lúxemborgarar, býr við einna best lífskjör í Evrópu. Hin þjóðin, Íslendingar, er þar mjög nærri. Báðar þjóðirnar eru í fremstu röð að því er lífskjör varðar. Önnur þjóðin býr í miðju sjálfu markaðssvæði ESB. Hin þjóðin býr við útjaðar markaðarins og verður að borga talsverða fjármuni fyrir að koma vörum hingað til neyslu og til að koma framleiðsluvörum sínum á markað. Þetta eru hindranir sem við verðum að yfirstíga og við fáum enga hjálp við það. Það verðum við að gera með okkar eigin aðferðum.

Eins og ég sagði áðan þá hafa Lúxemborgarar ekki fjárfest í vísindum og menntun í neinum þeim mæli sem við höfum gert. Þeir hafa nýtt sér háskóla nágrannaþjóðanna. Þeir þurfa ekki að vera með sjóði til þess að styrkja skipti á nemendum vegna þess að þau skipti eru nánast á einn veginn. Lífskjör markast líka þar af því að þeir þurfa ekki að halda uppi dýru samgöngukerfi eins og við þurfum að gera á Íslandi, það er bara hluti af stöðu okkar í heiminum að við erum að fjárfesta mikið í því að halda uppi samgöngukerfi, bæði innan lands og við útlönd. Lífskjör í Lúxemborg eru góð af því að þeir hafa ekki þurft að fjárfesta í vísindum, samgöngutækjum og öðru heldur getað notað sér það sem þar er boðið upp á í nágrannalöndunum. Lífskjör á Íslandi eru hins vegar góð af allt öðrum ástæðum og fyrst og fremst vegna þess að við höfum tekið þá upplýstu ákvörðun að fjárfesta í vísindum og menntun og um það hafa allir flokkar verið sammála. Lífskjör á Íslandi eru góð vegna þess að við höfum fjárfest í menntun á Íslandi og við eigum að viðurkenna þetta, við eigum að horfa á hagtölur sem segja okkur þessa sögu skýrt og skorinort og við eigum aldrei að gera lítið úr því.

Um leið og ég lýsi þessu þá er sjálfsagt mál að viðurkenna að vísindasjóðirnir eru veikleiki okkar. Þeir eru of smáir. Úr því þurfum við að bæta. Forsendurnar fyrir að bæta úr því eru m.a. fólgnar í þessum frv. sem við höfum lagt fram og sú áhersla sem kemur fram í samsetningu ráðherranna í Vísinda- og tækniráði, þ.e. forsrh. sem er samræmingaraðili um stefnumörkunina, fjmrh., menntmrh. og iðnrh., endurspeglar nákvæmlega áhersluna á það hvað þessi mál skipta miklu máli og hvað það er mikilsvert að þessir ráðherrar komi að stefnumörkuninni, m.a. til þess að tryggja fjármagn til verkefnanna.

Ég held ég hafi svona í stórum dráttum vikið að flestum þeim stóru spurningum sem hafa komið fram hér. Ég tel að umræðan öll um stjórnmálavæðingu vísindanna sé byggð á misskilningi ef menn ímynda sér að þetta sé allt saman gert til þess að misnota stöðuna innan Vísinda- og tækniráðs. Ég verð að segja eins og er að ég hrökk dálítið við þegar ég heyrði hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur ýja að því að það væri skrýtið að við skyldum leggja þetta frv. fram miðað við það að svo gæti komið ný ríkisstjórn til þess að misnota sér lögin. Þetta þótti mér mjög sérkennilegt. Það stendur ekki til af hálfu þeirra flokka sem standa að núv. ríkisstjórn að misnota þessi lög, enda eru engin efni til þess. Þetta er frv. um stefnumörkun og verið er að stefna saman helstu aðilum málsins, atvinnulífinu, vísindaheiminum og stjórnmálamönnunum til að marka þessa stefnu og ég treysti því að hver sú ríkisstjórn sem kemur að eftir næstu kosningar muni standast þá prófraun að nýta þessi lög, þegar þessi frv. verða orðin að lögum, til framdráttar fyrir samfélagið til að stilla saman strengi vísindaheimsins, stjórnmálamannanna og atvinnulífsins þjóðinni til góðs, og að allar hugleiðingar um hið gagnstæða séu byggðar á misskilningi og eigi enga stoð.

Ég vil að lokum þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að hún hafi verið gagnleg og ég tek það ekkert nærri mér þó að hér hafi verið ýjað að því að meiningin væri að stjórnmálamenn kæmu með yfirþyrmandi hætti að þessu. Það kann vel að vera að það viti þannig við stjórnarandstöðunni að þegar verið er að búa til vettvang þar sem stjórnmálamenn, vísindamenn og fulltrúar atvinnulífsins geta náð betur saman og stillt saman strengi sína, þá líti menn svo á að það sé einhver ógn við samfélagið. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég tel hins vegar að það sé afar eðlilegur hlutur miðað við það hversu mikilvægu hlutverki vísindin gegna í nútímasamfélagi og hversu lífskjörin hafa mikið batnað á undanförnum árum einmitt vegna þess samstarfs sem náðst hefur milli stjórnmálamanna, atvinnulífs og vísindamanna.