Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 17:46:17 (2850)

2003-01-21 17:46:17# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[17:46]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins til að ljúka því sem ég var byrjaður á í fyrra andsvari, ég taldi upp nokkra efnisþætti. Síðasti efnisþátturinn sem ég vildi koma inn á varðar framlag einkafyrirtækja til vísindastarfs og rannsóknarvinnu. Það er misskilningur hjá hæstv. ráðherra að ég sé því andvígur eða sé á nokkurn hátt að gera lítið úr því nema síður sé, mér finnst það fagnaðarefni. Mér finnst hins vegar skipta meginmáli hvernig samspilið er á milli vísindarannsókna á vegum hins opinbera annars vegar og síðan fyrirtækjanna og atvinnulífsins sem ég vil að sjálfsögðu að njóti góðs af því vísindastarfi sem fram fer í háskólum eða öðrum rannsóknastofnunum landsins. Það þyrfti langt mál til að skýra hvað ég á nákvæmlega við en ég hef gert það við fyrri umræðu um þetta mál.

Varðandi Íslenska erfðagreiningu sem ég vék sérstaklega að, það var eiginlega svolítið sértækt vegna þess að ég held að það sé drjúgur hluti af þeim 64% sem hæstv. ráðherra vék að í sundurgreiningu sinni á framlagi til vísindastarfs. Þar sagði ég að þeir peningar væru að sjálfsögðu komnir úr íslensku samfélagi, m.a. bankakerfinu sem keypti ameríska áhættufjárfesta út á sínum tíma fyrir nokkur þúsund milljónir króna. Þetta eru náttúrlega peningar sem koma hér upp úr sjónum eða annars staðar úr atvinnulífinu. Þetta er svolítið sérstakt dæmi og raskar heildarmyndinni vegna þess hve stórt það er í sniðum og gefur hugsanlega ekki alveg rétta mynd af framlagi samfélagsins til vísindarannsókna þegar til lengri tíma er litið.

Ef það er hins vegar rétt, og ég ætla ekkert að efast um það, að við verjum meiru á vegum hins opinbera til rannsókna en aðrar þjóðir gera, allar aðrar þjóðir, finnst mér það að sjálfsögðu fagnaðarefni en er nokkuð sem ég hef sérstakan áhuga á að kynna mér nánar.