Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 17:57:18 (2855)

2003-01-21 17:57:18# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[17:57]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Þegar hér er kvartað undan því að við höfum ekki sömu umræðuhefð á Íslandi og Finnar kann vel að vera að eitthvað sé til í því. En það skrifast reyndar á reikning stjórnarandstöðunnar jafnt og stjórnarflokkanna. Þetta er bara sú hefð sem hefur skapast hér. Ég minnist þess t.d. ekki í umræðunni um gagnagrunninn að annað gerðist en að menn græfu sér nokkrar skotgrafir þar og skytust á. Jafnvel þeir aðilar innan stjórnarandstöðunnar sem voru efnislega sammála gagnagrunnsmálinu tóku afstöðu gegn honum af hefðbundnum ástæðum.

Þarna eigum við kannski eitthvað óunnið, ég skal ekki neita því. Ég hef reynt í þessari umræðu að halda þessu á málefnalegum grundvelli eftir því sem ég ber gæfu til. Hinu má heldur ekki gleyma að sérhver þjóð hefur sinn stíl. Íslendingar eru átakaþjóð og taka málin með miklum krafti, það er þeirra stíll og það hefur líka sína kosti þótt það hafi sína annmarka. Ég geld varhuga við því að við förum að sækja okkur aðra þjóðarsál til Finna. Það er ekki skynsamlegt, held ég.