Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 17:59:56 (2856)

2003-01-21 17:59:56# 128. lþ. 61.4 fundur 422. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform, arðgreiðslur o.fl.) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[17:59]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um vatnsveitur sveitarfélaga.

Þetta frv. er samið í ráðuneytinu og byggist að hluta til á frv. sem ég flutti á 127. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga þá. Við gerð þessa frv. sem nú er lagt fram hefur verið tekið tillit til umsagna sem bárust félmn. um málið og hefur ráðuneytið haft samráð við fulltrúa Samorku, samtök rafveitna, hitaveitna og vatnsveitna, við frumvarpsgerðina. Varð niðurstaðan af því samráði að leggja til verulega umfangsmeiri breytingar á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, með síðari breytingum, en upphaflega var fyrirhugað. Einnig hefur ráðuneytið átt óformlegt samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um efni frv.

Þær breytingar sem eru lagðar til í frv. miða einkum að því að auka sveigjanleika í stjórn og rekstri vatnsveitna. Jafnframt er að því stefnt að einfalda gjaldtökuheimildir vatnsveitna. Loks miða breytingarnar að því að hindra eftir megni sóun neysluvatns.

[18:00]

Helstu nýmæli í frv., herra forseti, eru eftirfarandi:

Kveðið er á um að sveitarstjórn sé heimilt að ákveða rekstrarform vatnsveitu í eigu sveitarfélagsins og breytingunni er m.a. ætlað að tryggja samræmi við ákvæði 3. gr. laganna sem varða vatnsveitur í eigu tveggja eða fleiri sveitarfélaga. Þá er mælt fyrir um heimild sveitarstjórnar til að framselja einkarétt sveitarfélags á rekstri vatnsveitu og sölu vatns innan marka sveitarfélagsins til stofnunar eða fyrirtækis sem að meiri hluta er í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Ég endurtek að salan er til stofnunar eða fyrirtækis sem að meiri hluta er í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Framsalið gildir einungis til ákveðins tíma og heimilt er að binda það þeim skilyrðum og kvöðum sem ástæða þykir til.

Þá er kveðið á um heimild eiganda vatnsveitu til að áskilja sér árlega allt að 7% arð af eigin fé veitunnar. Samsvarandi heimild er þegar að finna í orkulögum, nr. 58/1967, að því er varðar hitaveitur og rafveitur.

Þá er mælt fyrir um skyldu vatnsveitu til að sjá um að nægilegt vatn og vatnsþrýstingur sé fyrir hendi til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað þar sem hans er krafist, enda verði því við komið. Jafnframt er lagt til að vatnsveita geti krafið einstaka notendur um hluta kostnaðar í þeim tilvikum þegar nauðsynlegt er vegna stærðar og/eða nýtingar fasteignar að auka vatnsþrýsting til hennar. Meðal annars getur reynt á ákvæðið vegna krafna um brunavarnir en samkvæmt gildandi lögum ber sveitarstjórn allan kostnað af vatnsöflun vegna brunavarna.

Lagt er til að orðið ,,notkunargjald`` komi í stað ,,aukavatnsgjalds`` í gildandi lögum og að innheimta megi notkunargjald óháð því hvort notandi greiðir jafnframt vatnsgjald skv. 7. gr. laganna. Gert er ráð fyrir að notkunargjald sé greitt af allri atvinnustarfsemi sem vatns getur notið og öll notkun vatns til annars en venjulegra heimilisþarfa skuli jafnframt háð notkunargjaldi. Jafnframt er lögð til sú breyting að kveðið verði á um heimild til að skipta greiðendum notkunargjalds í mismunandi gjaldflokka en afnumið er ákvæði um að hámark aukavatnsgjalds skuli miðast við ákvæði í reglugerð sem ráðherra setur. Miðast hámarkið þess í stað við almenn sjónarmið um innheimtu þjónustugjalda.

Þá er lagt til að regla sem nú er í 1. mgr. 7. gr. verði 2. málsl. 11. gr. og byggist ákvæðið á almennum sjónarmiðum um álagningu þjónustugjalda, þ.e. að ekki skuli ákveða í gjaldskrá hærra gjald en meðalkostnað af að veita þjónustuna.

Í frumvarpinu er miðað við að daglegur rekstur vatnsveitu sé á ábyrgð stjórnar vatnsveitu í umboði sveitarstjórnar. Það er í samræmi við ákvæði reglugerðar um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 421/1992, með síðari breytingum. Þar sem svo háttar til að ekki hefur verið kosin sérstök stjórn vatnsveitu fer sveitarstjórn með ákvörðunarvald um málefni vatnsveitu. Sveitarstjórn er heimilt að setja samþykkt um stjórn vatnsveitu þar sem kveðið er á nánar á um heimildir stjórnar vatnsveitunnar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa framsögu lengri. Ég legg til að að lokinni umræðu í dag verði þetta mál sent hv. félmn. til athugunar.