Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 18:06:53 (2858)

2003-01-21 18:06:53# 128. lþ. 61.4 fundur 422. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform, arðgreiðslur o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[18:06]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hvað skyldi hafa einkennt samfélagsbreytingar í heiminum á síðustu 10--15 árum? Ég held að óhætt sé að alhæfa um það efni. Það er markaðsvæðing, einkavæðing og markaðsvæðing, ekki bara hér á landi heldur víðs vegar um heiminn.

Þjóðir hafa gengið mishart fram í þessu efni. Lengi vel var talað um Nýja-Sjáland sem eins konar tilraunabú frjálshyggjunnar. Nýsjálendingar riðu á vaðið með að markaðsvæða ýmsa grunnþjónustu í samfélaginu. Þeir markaðsvæddu símkerfin fyrst, síðan komu raforkukerfin og bankarnir. Sama gerðist reyndar í Ástralíu. Þeir gengu nokkuð hart fram í einkavæðingunni en þessar þjóðir eru nú að reyna að snúa til baka. Eftir að bankarnir komust algerlega úr þeirra eign, voru á valdi erlendra auðhringa, var að nýju farið að tala um að stofna þjóðbanka í þessum ríkjum. Fréttir um þetta bárust nú ekki alls fyrir löngu. Þeir gerðu sem sagt mistök. Það hafa Íslendingar gert líka en þeir láta ekki þar við sitja, að gera mistök. Þeir leita uppi mistök til að gera þau. Þeir sækja hugmyndir í allar helstu mistakasmiðjur heimsins.

Hæstv. fyrrv. fjmrh., Friðrik Sophusson, bauð hingað til lands á sérstakan viðhafnarfund Ruth Richardson, fyrrum fjármálaráðherra á Nýja-Sjálandi. Hún hélt hér glærusýningu undir miklum ljóskösturum á Hótel Loftleiðum. Ég man alltaf hver boðskapur hennar var, þ.e. að ákveða hvað þú ætlar að gera, hlusta ekki á neina gagnrýni og framkvæma það. Það hefur hæstv. félmrh. ekki gert með þetta frv. Það er gott. Það er kannski þess vegna sem það hefur lagast frá því að það var síðast sett fram.

Nú eru nefnilega ákvæði í þessu lagafrv. um að vatnsveitur, ef þær eru gerðar að hlutafélagi, skuli að meiri hluta vera í eign ríkis eða sveitarfélaga. Þetta er gott en ég tel hins vegar mjög vafasamt að fara út á þessa braut. Ég ætla að skýra hvers vegna. Ástæðan er sú að sú röksemd að Alþingi beri fyrst og fremst að hlusta á raddir sveitarfélaganna og vilja þeirra stenst ekki þegar um slík grundvallaratriði er að ræða, þ.e. grunnþjónustuna í landinu. Þar eiga að gilda almenn lög, almennar grundvallarreglur sem tryggi að grunnþjónustan sé ekki tekin úr höndum samfélagsins vegna þess að ef farið er út á þá braut að einkavæða vatnsveiturnar, Gvendarbrunnana eða raforkuna, þessa grundvallarþjónustu, þá verður ekkert aftur snúið. Alla vega gæti þá orðið erfitt að snúa til baka. Þá er komin fram skaðabótaskylda og ýmsir erfiðleikar við að snúa til baka. Við eigum því að fara okkur mjög hægt. Það var þess vegna gott að við gáfum okkur tíma til að hugsa þetta mál áður en vatnsveitufrumvarpinu hinu fyrra var hrint fram. Ég held að við eigum að gera hið sama með þetta.

Ég hef áður rakið samspilið á milli alþjóðasamninga annars vegar og hins vegar þegar gerðar eru lagabreytingar af þessu tagi. Þetta samspil skiptir nefnilega mjög miklu máli. Nú fara t.d. fram alþjóðalegir samningar á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO. Þessir samningar hafa verið kenndir við GATS, General Agreement on Trade in Services, almennt samkomulag um verslun í þjónustu. Menn eru að takast á um hverning eigi að skilgreina þjónustu, til hvaða þátta, til hvaða sviða GATS-samningarnir eigi að taka. Margir óttast að kröfur þeirra sem vilja ganga hart fram í því að markaðsvæða grundvallarþjónustu í samfélaginu, t.d. vatnið og rafmagnið, muni koma til með að heyra undir GATS, ekki aðeins bankastarfsemi eða tryggingar heldur allt þetta svið. Nú erum við þar stödd í samningunum að einstök ríki eru að reisa kröfur á hendur öðrum um hverju þau vilja ná fram. Við höfum t.d. fengið kröfur frá Indlandi, frá Japan, frá Bandaríkjunum og að því er ég hygg frá Evrópusambandinu líka. Evrópusambandið er búið að setja sínar kröfur fram. Það varð mikið uppistand þegar upplýstist hvað var í þeim kröfum, t.d. þeim sem settar voru á hendur Kanadamönnum um að einkavæða vatnið í Kanada. Evrópusambandið sagði: Ef þið viljið fá aðgang að okkar mörkuðum í Evrópu með ykkar korn þá verðið þið að hleypa okkur inn í ykkar vatn. Svona eru menn að ræða saman. Nú erum við þar stödd í þessu samningsferli að einstök ríki eru að ræða hvert við annað. Almannasamtök eru að reyna að opna þessar viðræður. Það hefur m.a. verið gert hér á landi af hálfu BSRB sem hefur óskað eftir því að utanrrh. upplýsti hvaða kröfur hafa verið reistar á hendur Íslendingum. Það hefur ekki fengist upplýst en nú hefur utanrrn. brugðist þannig við að þessar kröfur verða settar á netið. Þar verða þær ekki sundurgreindar, þ.e. þar kemur ekki fram frá hvaða landi þær koma heldur verði kröfurnar almennt settar á netið. Sama mun vera að gerast í Evrópu eftir þrýsting frá verkalýðshreyfingu og almannasamtökum.

Verði samið um að tilteknir þættir í efnahagslífinu, líka þessir grunnþjónustuþættir, heyri undir þessa samninga og við tökum síðan þessi fyrirtæki og keyrum undir markaðslöggjöf og gerum þau að hlutafélögum þá getur svo farið að samkvæmt þessum alþjóðlegu skuldbindingum verði okkur þröngvað til að hætta hvers kyns niðurgreiðslu, okkur verði þröngvað til að fara með þessa þjónustustarfsemi að öllu leyti inn á markað. Þarna er samspilið. Við þessu samspili eru menn að vara. Ekki vildum við að það gerðist sem henti Suður-Afríkumenn og Argentínumenn, að erlend stórfyrirtæki sem sérhæfa sig í að sölsa undir sig almannaþjónustu eins og vatnsveitur og rafmagn, næðu Gvendarbrunnunum okkar eða vatnsveitum hér í landinu.

Mig grunar að þetta sé ekki efst á óskalista hæstv. félmrh. að öðru leyti en því að hann kann að vilja verða við kröfum sveitarfélaga. Mér finnst hins vegar að við eigum að fara mjög varlega í þessu. Hér eigum við að láta almennar reglur gilda.

[18:15]

Nú gerðist það t.d. fyrir jólin að við samþykktum lög. ,,Við``, segi ég. Ég samþykkti þau ekki. Þau voru samþykkt gegn mínum mótmælum og mótmælum okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Það voru samþykkt lög um Norðurorku þar sem það var hreinlega gert heimilt að breyta henni í hlutafélag, sem var síðan gert um áramótin. Þar inni er vatnsveitan, reyndar þannig að eignarhaldið samkvæmt þeim lögum er enn á hendi sveitarfélagsins og er þar um einhvers konar rekstrarsamning að ræða. Ég tek þetta sem dæmi um hvert við erum að halda með alla þessa þjónustu. Ég tók við þá umræðu dæmi af reynslu Norðmanna sem eru búnir að markaðsvæða rafmagnið með aldeilis hrikalegum afleiðingum. Við þessa umræðu vitnaði ég í talsmenn norsku neytendasamtakanna sem sögðu að nú væri svo komið að þessi fyrirtæki hefðu samráð sín í milli, mökkuðu um verðlagið og háfuðu síðan inn arðinn, eins og einn komst að orði, háfuðu inn arðinn í milljörðum króna. Og sá sem sæti eftir með sárt ennið væri notandinn, væri almenningur í landinu. Þetta er sú þróun sem við eigum að reyna að sporna gegn vegna þess að þeir sem ráða yfir fjármagninu vilja sækja inn á þessar lendur. Það er bara staðreynd, ekki bara á þessu sviði heldur öðrum sviðum sem við höfum skilgreint sem grunnþjónustu og hluta af okkar velferðarþjónustu. Það er engin tilviljun að Verslunarráðið skuli efna til funda, ég held bara margra morgunverðarfunda, um mikilvægi þess að einkavæða heilbrigðisþjónustuna. Hvers vegna? Til að komast inn í arðinn sem er að hafa af henni þegar menn eru búnir að gera hana að hlutafélögum sem greiða arð til eigenda sinna.

Eigandi Öldungs hf. sagði að það væri alveg rakið að veðja á aldraða. Þannig var það orðað. Það væri svo mikinn pening að hafa út úr þeim bisness að reka öldrunarstofnanir sem ríkisstjórnin hefði einkavætt, og gæfi verulega vel í aðra hönd. Ég meina, það er inn á þessar brautir sem handhafar fjármagnsins eru farnir að leita og auðvitað er það mjög dapurlegt að í stað þess að sýna hugkvæmni sjálfir þá leita þeir inn á þessar slóðir. Sem betur fer á það ekki við um atvinnureksturinn þegar á heildina er litið vegna þess að að hér á landi hefur gætt mikillar og frjórrar nýsköpunar um langan tíma sem hefur orðið þess valdandi að hér hafa orðið til um 1.500 störf á ári hverju í langan tíma. Það er nú umhugsunarefni í ljósi þess að menn eru hér að rembast við að skapa 700 störf fyrir 200--300 milljarða kr. í þungaiðnaði, sem eru náttúrlega alveg galnar forsendur og furðulegt að séu uppi og gangi hér átölulaust í gegnum ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta á þingi og stjórnarandstöðuna einnig að undanskilinni Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði og varnaðarorðum sem hér hafa komið hjá frjálslyndum hvað það snertir.

Herra forseti. Þetta var það sem ég vildi leggja áherslu á við 1. umr. um þetta mál. Ég segi með öðrum orðum að ég tel frv. betra, miklu betra en það var þegar það kom fram á síðasta þingi og mér finnst þakkarvert að það skuli hafa verið endurskoðað þá. Mér finnst það vera mjög gott. En ég tel að ekki sé nóg að gert og varnaðarorð mín lúta að þessu samspili lagabreytinga og formbreytinga sem við gerum á rekstri þjónustustofnana af þessu tagi annars vegar og hins vegar alþjóðlegum skuldbindingum sem við erum að ganga inn í. Reyndar tel ég að við þurfum að skoða hvort við höfum staðið nægilega vel vaktina varðandi GATS og að mér læðist sá illi grunur að þegar okkur gafst kostur á að undanskilja vatnsgeirann GATS-samningunum þá hafi það ekki verið gert. En þetta er hlutur sem væri eðlilegt að yrði skoðaður því ef svo er, ef við erum búnir að gera einhverjar skuldbindingar um markaðsvæðingu á þessu sviði, þá er hættan augljós þegar við formbreytum þessari starfsemi yfir í hlutafélög eins og þetta lagafrv. veitir heimild til.