Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 18:22:06 (2859)

2003-01-21 18:22:06# 128. lþ. 61.4 fundur 422. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform, arðgreiðslur o.fl.) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[18:22]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. Þetta frv. var kynnt hér áður og hefur tekið þó nokkrum breytingum. Mér sýnist alla vega eins og frumvarpstextinn er að það sé nokkuð tryggt að vatnsveitur verði í eigu sveitarfélaga og verði ekki teknar í einkarekstur sem slíkar þó að fela megi stjórn þeirra fyrirtæki eða sveitarstjórnir geti framselt reksturinn um ákveðið tímabil eins og hér er sagt.

Ég tel að frv. eins og það er nú í pottinn búið sé mun ásættanlegra en það sem hér hafði áður verið kynnt og að nú sé í raun tryggt að einkaréttur sveitarfélaganna verði áfram til staðar og sveitarfélögin eigi vatnsveiturnar í hvaða rekstrarform sem þær svo verða settar. Hins vegar velti ég fyrir mér og langar kannski að fá nánari útskýringar á því frá hæstv. ráðherra hvers vegna hér er verið að auka arðsemiskröfuna af eigin fé. Er það svo að vatnsveitur almennt í sveitarfélögum hafi eigi staðið undir rekstri sínum eða myndað tekjur til sveitarfélaganna? Er almennt talið að sú ávöxtun eða arður sem hefur orðið af vatnsveitum hafi ekki nægt til viðhalds þeirra eða lagningar vatnsveitu? Eða af hvaða orsökum sérstaklega er hér verið að heimila hærri arðkröfu til eigenda? Er hér eingöngu verið að horfa til hækkandi tekjustofns viðkomandi sveitarfélags?

Mig langaði til að fá þetta betur upplýst frá hæstv. ráðherra en ég tel að frv. sé í betri búningi nú en áður var og að eignarréttur sveitarfélaganna sé alla vega tryggður hér.