Vísinda- og tækniráð

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 13:34:32 (2867)

2003-01-22 13:34:32# 128. lþ. 62.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 128. lþ.

[13:34]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér verða greidd atkvæði um þrjá lagabálka sem mynda eina heildstæða löggjöf og verða frv. í reynd ekki aðskilin. Með þessum lagabreytingum er vísindarannsóknum í landinu skapaður nýr rammi þar sem aukið er á pólitíska miðstýringu. Það er nokkuð sem hæstv. ráðherrar Framsfl. sérstaklega hafa talað um að lyfti vísindarannsóknum upp á æðra plan --- ég held að það hafi verið hæstv. iðnrh. sem orðaði það svo --- þ.e. þegar vísindaheimurinn er settur undir ráðherravaldið. Við teljum þetta vera til ills og skref aftur á bak. Við viljum efla sjálfstæði vísindastofnana og vísindamanna, treysta á frelsi og frumkvæði þeirra í stað þess að reyra þá undir pólitískt miðstýrt vald eins og gert er með þessum frv. sem við senn greiðum atkvæði um. Í þessum frv. er að finna sitthvað sem er til góðs þannig að við munum ekki leggjast gegn frv. heildstætt. En við munum sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.