Atvinnuástandið

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 13:42:05 (2870)

2003-01-22 13:42:05# 128. lþ. 62.94 fundur 360#B atvinnuástandið# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 128. lþ.

[13:42]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Í gær var rætt um það utan dagskrár á hinu háa Alþingi hvernig stjórnvöld ættu að bregðast við væntanlegri þenslu á vinnumarkaði og í efnahagsmálum þegar framkvæmdir hefjast við virkjun fyrir austan og álver í Reyðarfirði. Vissulega er það verkefni sem þarf að taka á þegar nær dregur. Hins vegar hygg ég að þær þúsundir einstaklinga, nálægt 5.500 talsins í dag, sem með störfum okkar stjórnmálamanna fylgjast og eiga þess ekki kost að hafa fasta atvinnu, eru með öðrum orðum atvinnulausir, láti sér fátt um finnast þegar þessi vandamál framtíðar eru annars vegar. Þeirra vandamál eru nefnilega í núinu: ,,Hvernig á ég að brauðfæða mig og mína á atvinnuleysisbótum? Hvernig get ég fengið atvinnu við hæfi? Hvernig er mín næsta framtíð í þeim efnum og til lengri tíma litið?``

Það er nefnilega þannig, herra forseti, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að atvinnuleysi er því miður til staðar í okkar samfélagi og hefur farið ört vaxandi á síðustu mánuðum. Og enn fremur: Það er ekkert of bjart fram undan ef næstu mánuðir og hugsanlega missiri eru skoðuð í þessu samhengi. Það er sama hvort litið er til heildarsamtaka verkafólks, Alþýðusambands Íslands ellegar Samtaka atvinnulífsins, á báðum vígstöðvum eru fyrirliggjandi verulegar áhyggjur vegna þróunar mála á vinnumarkaði. Athugun Samtaka atvinnulífsins hjá sínum fyrirtækjum hefur leitt í ljós að fyrirtækin, einkanlega þau stærri, hyggjast fækka fólki á næstunni. Hagdeild Alþýðusambandsins segir á sama hátt að horfur séu ekki góðar á næstu mánuðum og missirum. Sumir tala um þetta ástand sem timburmenn undanfarins meints góðæris.

Tölurnar tala sínu máli. Vinnumálastofnun sem heyrir undir félmrh. spáir því að nú í janúar verði atvinnuleysið á landsvísu 3,5--4%. Það þýðir á mæltu máli að 6.000 manns eða þar um bil eru án atvinnu. Fleiri viðvörunarbjöllur klingja. Ungt fólk á vinnumarkaði stendur sýnu verst. Nálægt 10% ungra karla á aldrinum 16--24 ára eru án atvinnu. Leiða má að því líkur að atvinnuleysi sé í raun talsvert meira en þetta. Sérfróðir telja til að mynda að ákveðinn hópur fólks dragi mjög að skrá sig, ekki síst fólk með meiri menntun komandi úr störfum millistjórnenda eða hærra launuðum störfum. Þá sýna athuganir Hagstofunnar að dregið hefur enn hraðar úr atvinnuþátttöku en atvinnuleysistölur segja til um. Það þýðir aftur að fólki sem verið hefur í hlutastörfum hefur fækkað verulega. Allt veldur þetta áhyggjum því kunn er sú staðreynd að margfeldisáhrif stöðnunar eru síst minni en þegar þensluáhrifa gætir eða með öðrum orðum: Þegar atvinnuleysið er komið á ákveðið stig fer það að hafa neikvæð áhrif á þjóðarbúskapinn, keðjuverkandi áhrif eru augljós, ójöfnuður eykst, vanskil færast í vöxt, fjárhagslegir erfiðleikar heimila verða erfiðari viðureignar og kostnaður opinberra aðila vegna félagslegrar þjónustu eykst hröðum skrefum. Ráðningarskrifstofur segja útlitið dauft. Framboð á atvinnu er sáralítið en eftirspurn gífurleg og ástandið virðist svipað í öllum starfsgreinum. Í hugbúnaðargeiranum til að mynda, þar sem eftirspurn eftir starfskrafti var langt umfram framboð fyrir stuttu síðan, er nú viðvarandi verkefnaskortur. Þarna er dæmigert sprotaumhverfi sem á í miklum erfiðleikum.

[13:45]

Skoðum dæmi úr okkar næsta nágrenni. Hér á hinu háa Alþingi var nýverið auglýst eftir starfsmönnum til tölvudeildar. Í kringum 30 sóttu um. Fyrir örfáum mánuðum gekk erfiðlega að manna þá deild menntuðu fólki. Sömuleiðis hefur verið auglýst eftir fólki til almennra starfa hér á hinu háa Alþingi, umsækjendur á þriðja hundraðið. Þetta segir meira en mörg orð og ég hygg að við alþingismenn höfum einnig svipaða sögu að segja. Okkar skjólstæðingar sækja í stórauknum mæli til okkar, leitandi að hjálp í leit sinni að atvinnu.

Ég kem ekki hingað, herra forseti, til að finna sökudólga. Ég er ekki að ræða þessi mál til að finna veikan blett á hæstv. félmrh. eða ríkisstjórninni. Ég leita hins vegar eftir svörum. Það liggur fyrir að ríkisstjórnin ber hér talsverða ábyrgð. Vextir eru allt of háir og valda atvinnulífinu umtalsverðum erfiðleikum. Hátt gengi eykur einnig innflutning og veldur innlendri framleiðslu erfiðleikum. Þá má ekki gleyma því að skattapólitík ríkisstjórnarinnar hefur hækkað álögur á fyrirtæki og hér vísa ég til hækkunar tryggingagjalds. Stórlækkun tekjuskatts hefur ekki dugað til að mæta þessum erfiðleikum.

Ég tel brýnt að ríkisvaldið horfist í augu við þennan veruleika. Því spyr ég einfaldlega: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera --- núna, ekki á næsta ári eða þarnæsta ári, ekki á árinu 2005? Hvernig hyggst hún svara spurningum atvinnulausra Íslendinga sem spyrja: Hverjir eru möguleikar mínir, hvenær fæ ég atvinnu?