Atvinnuástandið

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 13:47:26 (2871)

2003-01-22 13:47:26# 128. lþ. 62.94 fundur 360#B atvinnuástandið# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 128. lþ.

[13:47]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er ótvírætt að atvinnuleysi er því miður nokkuð vaxandi frá því sem verið hefur síðustu ár. Atvinnuleysi var 3% í desember sem er meira atvinnuleysi í desember en verið hefur síðan 1998. Árið 1997 var atvinnuleysi í desember 3,7% og atvinnuleysi var verulega meira árin þar á undan ef miðað er við desember.

Skýringar geta verið ýmsar, t.d. árstíðabundin sveifla sem er þó minni en venjulega, 10% aukning milli nóvember og desember í fyrra í stað 25% árlegrar sveiflu undanfarin tíu ár milli nóvember og desember.

Þensla í efnahagslífinu hefur minnkað, fjárfesting sums staðar dregist saman. Hagræðing í sjávarútvegi leiðir til fækkunar starfa. Útgerðarmaður sem t.d. á tvö skip, leggur öðru og lætur hitt veiða kvótann. Samdráttur í tölvugreinum og uppsagnir hjá hátæknifyrirtækjum eiga hér hlut að máli enda mun þar hafa verið orðið um talsverða offjárfestingu að ræða eða óraunhæfar væntingar. Í október til apríl eru dagabátar ekki á sjó og þar af leiðandi er ekki vinna við afla þeirra. Það er samdráttur í ferðaþjónustu, hann kemur í ljós sérstaklega á Suðurnesjum. Það eru minni umsvif á Keflavíkurflugvelli og þar er minni þjónusta í boði.

Spurt er hvað ríkisstjórnin hyggist gera. Ríkisstjórnin vill flýta útboðum og koma verklegum framkvæmdum á vegum ríkisins í gang sem fyrst. Samgrh. hefur sérstaklega sent sínum undirstofnunum tilmæli þar um. Atvinnuleysistryggingasjóður er tilbúinn að styrkja átaksverkefni sem sveitarfélög eða fyrirtæki vilja leggja í. Hann hefur auglýst og mun kynna þetta úrræði á næstu vikum. Við reynum að stýra atvinnuleyfum til útlendinga. Það hefur dregið mjög úr veitingu nýrra atvinnuleyfa. Árið 2002 voru einungis 500 leyfi veitt á móti 1.400 árið 2001 og 2.300 árið 2000. Til þess að fá atvinnuleyfi handa útlendingi þarf hann að hafa sérþekkingu, t.d. eru veitt atvinnuleyfi til tónlistarkennara, eða einhverja hæfileika sérstaka, íþróttaþjálfarar og leikmenn fá atvinnuleyfi, ellegar þá að það sé sannanlega vinnuaflsskortur.

Á vegum svæðisvinnumiðlunar er boðið upp á ráðgjöf, menntun og námskeið og ég nefni sérstaklega aldurinn 16--24 ára þar sem við settum í gang Fjölsmiðjuna sem reynir að leiða til manndóms krakka sem oltið hafa úr skóla eða hlekkst hefur á í skóla. Sveitarfélög bregðast sum myndarlega við, t.d. Reykjanesbær sem ætlar að leggja stórfé í framkvæmdir til að bæta atvinnuástandið.

Þrátt fyrir allt eru ljósir punktar í þessu. Síðan 1993 hefur aldrei verið minna langtímaatvinnuleysi. Þá á ég við þá sem eru búnir að vera á atvinnuleysisskrá 6 mánuði eða lengur. Þeir eru færri núna en nokkru sinni áður síðan 1993. Atvinnuástandið er t.d. mjög gott á Norðurlandi vestra og á Vestfjörðum eða innan við 2%. Atvinnuástand í janúar er alltaf lakara en í desember en áætlað er að nú verði það 3,7% í þessum mánuði. Atvinnuástandið er farið að batna á Austurlandi.

Við þurfum að efla hagkerfið. Horfurnar eru stórbatnandi. Kárahnjúkavirkjun, álver á Austurlandi og göng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar eru vörður á þeirri leið. Skattar á fyrirtæki hafa lækkað og það örvar atvinnulífið. Gámafisk flytjum við óunninn úr landi, 2.000--3.000 tonn á mánuði og ástandið hlýtur að batna. Hagvöxtur er á uppleið, vextir hafa stórlækkað, þeir voru 11,4% en eru komnir í 5,8%, hafa næstum lækkað um helming.