Atvinnuástandið

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:01:35 (2876)

2003-01-22 14:01:35# 128. lþ. 62.94 fundur 360#B atvinnuástandið# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 128. lþ.

[14:01]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Allar rannsóknir sýna að fólk með einhverja starfsmenntun á meiri möguleika en þeir sem ekki hafa starfsmenntun til að bregðast við þeirri hörmung sem atvinnuleysi er. Í ljósi þess er athyglisvert að skoða hvernig hlutfall á milli starfsnáms og bóknáms er í framhaldsskólum á Íslandi. Þar eru einungis um 30% nemenda framhaldsskóla á Íslandi sem leggja stund á starfsnám meðan um 70% nemenda skrá sig á svokallaðar stúdentsbrautir.

Í nágrannaríkjum okkar er þetta hlutfall öfugt. 70% nemenda eru í starfsnámi en 30% nemenda fara inn á svokallaðar stúdentsbrautir. Hér hefur þetta ekkert breyst í áratugi þrátt fyrir margar ræður víða í þjóðfélaginu og yfirlýstan vilja til að breyta þessu. Þess vegna er eðlilegt í baráttunni gegn atvinnuleysinu til lengri tíma litið að stokka þá hugsun upp, í rauninni að efna til þjóðarátaks um breyttar áherslur í menntakerfi okkar, umbylta þeim bóklegu áherslum sem gegnsýra alla umræðu í þjóðfélaginu um skóla og skólastarf.

Framhaldsskólinn þarf að endurspegla atvinnulífið þannig að nemendur finni hjá sér örvun til þess að sækja fram í námi sem er tengt starfsmenntun þannig að skólakerfið skili verðmætari nemendum inn í atvinnulífið og auki möguleika einstaklinga til þess að bregðast við atvinnuleysinu. Þannig getum við litið á skólakerfið og breyttar áherslur þar sem langtímalausn gegn þeim vágesti sem atvinnuleysið er.