Atvinnuástandið

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:03:33 (2877)

2003-01-22 14:03:33# 128. lþ. 62.94 fundur 360#B atvinnuástandið# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 128. lþ.

[14:03]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrir að koma fram með þessa umræðu. Hún er mjög mikilvæg en við verðum náttúrlega að átta okkur á því öll á hinu háa Alþingi hver grunnur vandans er. 50% af tekjuöflun okkar kemur frá sjávarútvegi og staða gengismála er núna þannig að það er orðið mjög erfitt í greininni. Vinnsla sem byggir á aðkeyptu hráefni eins og rækjuvinnslan er komin í bullandi mínus. Frystiiðnaðurinn er að komast í bullandi mínus líka. Þar er mjög erfið staða ásamt markaðslegri stöðu. Við verðum að átta okkur á því að útflutningsatvinnugreinarnar, þar með ferðaþjónustan sem er um 13% af því sem við lifum af, er komin í veruleg vandræði vegna stöðu í gengismálum og vegna vaxtastigs í landinu. Þetta eru grunnatriði. Þetta er grunnurinn sem spýtir peningum inn í alla aðra afleidda þjónustu hvort sem það er í tölvuþjónustu eða öðru. Við verðum að laga þennan grunn og við verðum að komast niður á það hvernig við ætlum að standa að því máli. Það verður ekki gert með þenslu. Það verður gert með margþættum aðgerðum sem hæstv. ríkisstjórn verður að koma fram með.

Tækniiðnaðurinn er líka í verulegum vandræðum. Við erum að missa úr landi verkefni á sviðum sem við höfum verið að hasla okkur völl núna á allra síðustu árum eins og í vélbúnaði og þjónustu við sjávarútveg í öðrum löndum. Þetta er að færast úr landi. Ef grunnurinn verður ekki lagaður svo að grunnþjónusta okkar til tekjuöflunar hafi þá möguleika sem henni ber til þess að skapa tekjur fyrir samfélagið, þá er vonlaust að vinna bug á þessum málum. Það er vonlaust að vinna bug á atvinnuleysi og það verður ekki gert með patentlausnum eins og að fara í stórverkefni eða ana út í stórar framkvæmdir tímabundið. Grunnurinn verður að vera í lagi hvað þetta varðar eins og allt annað.