Atvinnuástandið

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:08:05 (2879)

2003-01-22 14:08:05# 128. lþ. 62.94 fundur 360#B atvinnuástandið# (umræður utan dagskrár), KLM
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 128. lþ.

[14:08]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstjórn hælir sjálfri sér mest allra fyrir góða og trausta stöðu efnahagsmála. En er staðan jafngóð og stjórnarherrarnir halda? Nei, hún er það sannarlega ekki. Stóraukið atvinnuleysi og aukin fátækt er nefnilega líka efnahags- og ríkisstjórnarmál. Atvinnuleysi mælist nú í tölum sem við höfum ekki séð í mörg herrans ár og þetta aukna atvinnuleysi virðist koma ríkisstjórninni á óvart.

Ástæða þessa atvinnuleysis er að langmestum hluta samdráttur vegna rekstrarerfiðleika lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sérstaklega á landsbyggðinni. Brottfall úr skóla er einnig meira en venjulega sem er áhyggjuefni. Stærsti atvinnuleysishópurinn er nefnilega á aldrinum 16--24 ára og hefur verið það undanfarið sem er mér sérstakt áhyggjuefni.

Herra forseti. Á landsbyggðinni jókst atvinnuleysi hlutfallslega mest í síðasta mánuði. Hið svokallaða góðæri ríkisstjórnarinnar var lengur að berast til landsbyggðarinnar og til sumra staða á landsbyggðinni kom það bara alls ekki. Þar hefur ríkt áralangur samdráttur og störfum hefur fækkað, fyrirtæki hafa hætt starfsemi eða flutt suður að fullu eða að hluta. Þetta hefur verið staðan á fjölmörgum stöðum á landsbyggðinni áður en hið mikla samdráttarskeið sem nú stendur yfir hófst á landinu öllu.

Skattkerfisbreytingar ríkisstjórnarinnar gagnvart lögaðilum hafa ekki skilað sér í fjölgun starfsmanna, aukinni framleiðni eða betra rekstrarumhverfi, enda voru þessar breytingar eingöngu til hagsbóta fyrir stór fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu eins og ég hef margoft rætt um á hinu háa Alþingi.

Herra forseti. Ríkisstjórnin verður að auka framkvæmdir t.d. í samgöngumálum og jafnvel flýta þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á næstu árum eða þar til hin stóru framkvæmdaár við álver og Kárahnjúkavirkjun fyrir austan renna upp. Þeim framkvæmdum fagna ég alveg sérstaklega. Það er hlutverk ríkisstjórnar að hafa framtíðarsýn og skipuleggja opinberar framkvæmdir mörg ár fram í tímann og stilla þær af eftir ástandi og horfum í atvinnumálum. Þetta hefur ekki verið gert og þess vegna skellur hið mikla atvinnuleysi á okkur núna. Þetta staðfesti reyndar hæstv. félmrh. í svari sínu áðan ef ég hef heyrt rétt að hann væri að boða flýtingu framkvæmda í samgöngumálum.