Atvinnuástandið

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:14:38 (2882)

2003-01-22 14:14:38# 128. lþ. 62.94 fundur 360#B atvinnuástandið# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 128. lþ.

[14:14]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ekki skal ég spá um það hvaða ríkisstjórn verður hér að loknum kosningum (GÁS: Verður þú þar?) en ég verð þar ekki. Ég fór hins vegar rétt með tölur áðan og fór eingöngu með staðreyndir.

Útlit er fyrir að atvinnuleysi í janúar verði í kringum 3,7% og það er of mikið. Spá fjmrn. er sú að á árinu 2003 verði atvinnuleysi 2,6% en vextirnir eru að lækka. Stýrivextir Seðlabankans hafa lækkað nærri því um helming á síðasta ári og útflutningurinn gengur vel. Ég tel að það sé ekki skynsamlegt í þessari stöðu að vera að biðja um gengisfellingu og tilheyrandi verðbólgu sem af henni mundi hljótast. (Gripið fram í: En þið ætlið að hækka vextina.) Við erum að lækka vextina og við höfum varið stórauknu fé til starfsmenntunar og það mun skila sér. Í gang eru að fara stórframkvæmdir á Austurlandi, stórframkvæmdir eru í undirbúningi á suðvesturhorninu. Atvinnuleysi verður ekki læknað nema með fjölgun starfa og að því er verið að vinna. Hagvöxturinn er á uppleið, skattaumhverfi fyrirtækjanna hefur batnað, viðskiptahallinn er nærri því horfinn. Þegar við tölum um atvinnuleysi hér eins og eitthvert óskaplegt vandamál er sjálfsagt að reyna að bregðast við því eftir því sem kostur er og reyna að halda atvinnustiginu sem hæstu. En í Evrópusambandslöndunum er atvinnuleysi 5--10% fast. Við erum að tala um 2--3%. Það er gott að vera raunsær og nauðsynlegt að vera raunsær en það er ekki skynsamlegt að vera að tala kjarkinn úr sjálfum sér eða öðrum.