Stjórn fiskveiða í Norður-Atlantshafi

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:17:35 (2883)

2003-01-22 14:17:35# 128. lþ. 63.91 fundur 362#B stjórn fiskveiða í Norður-Atlantshafi# (aths. um störf þingsins), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[14:17]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til þess að koma hér upp undir liðnum um störf þingsins vegna frétta á ljósvakamiðlum síðustu daga. Í Ríkisútvarpinu kl. 8 21. janúar kom frétt um að sérfræðingar hjá norsku utanríkisþjónustunni segðu að Norðmenn og Íslendingar könnuðu núna hvort mögulegt væri að löndin tvö tækju að sér stjórn fiskveiða á Norður-Atlantshafi ef þau gengju í Evrópusambandið. Sjútvrh. segist ekki vita til þess að samstaða af þessu tagi sé til staðar.

Ég tel nauðsynlegt að hæstv. utanrrh. landsins, Halldór Ásgrímsson, upplýsi þingið um aðkomu sína og ráðuneytis síns að þessu máli vegna þess að þingið hefur ekki fengið fregnir af því. Sjútvn. hefur ekki fengið upplýsingar um þetta mál og augljóslega, samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins, hefur hæstv. sjútvrh. heldur ekki haft hugmynd um málið. Síðan fjallar Morgunblaðið um þetta mál í dag. Þar segir í fyrirsögn: ,,Mikilvæg rannsókn eða óraunhæf hugmynd? Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra leggja ólíkt mat á mikilvægi fyrirhugaðs rannsóknarverkefnis norsku utanríkismálastofnunarinnar, NUPI, og Alþjóðamálastofnunar HÍ sem einkum snýst um svæðisbundna fiskveiðistjórnun Noregs og Íslands í NA-Atlantshafi.``

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um mikilvægt mál að ræða. Í greininni í Morgunblaðinu kemur í ljós að aðkoma utanrrn. að málinu er bein með fjárframlögum. Ég tel líka mikilvægt að hæstv. utanrrh. upplýsi um hvort fyrirhuguð rannsókn taki inn lönd eins og Færeyjar og Grænland sem eru okkar næstu nágrannar. Einnig tel ég mikilvægt að hæstv. utanrrh. upplýsi um aðkomu Grænlands að málinu sem nágranni okkar í vestri.

Hvað er hér verið að gera, virðulegi forseti? Ég krefst þess að hæstv. utanrrh. upplýsi þingið um málið.