Stjórn fiskveiða í Norður-Atlantshafi

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:19:50 (2884)

2003-01-22 14:19:50# 128. lþ. 63.91 fundur 362#B stjórn fiskveiða í Norður-Atlantshafi# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[14:19]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég skil ekki hvers vegna þetta mál er komið upp hér á hv. Alþingi. Við lifum í frjálsu samfélagi þar sem vísindasamfélagið hefur frelsi til að takast á hendur ýmis rannsóknarverkefni. Það sem er að gerast í þessu máli er að norska utanríkismálastofnunin óskar eftir samstarfi við stofnun á Íslandi um tiltekið verkefni. Þeir leituðu til utanrrn. og við sögðumst ekki geta tekið þátt í þessu verkefni. Sjútvrn. vissi um það. Síðan biðja þeir um samstarf við Háskóla Íslands. Við bentum þeim á að tala við Háskóla Íslands. Getur hv. þm. bent mér á einhverja aðra sem við hefðum átt að benda á? Það væri út af fyrir sig fróðlegt en ég taldi að sjálfsögðu rétt að við reyndum að benda á aðila hér á landi sem hugsanlega gætu tekið þátt í slíku rannsóknarverkefni. Við erum því miður ekki með neina sjálfstæða utanríkispólitíska stofnun.

Síðan ákveður utanrrn. að styrkja Alþjóðastofnun Háskóla Íslands um 500 þús. kr. til að taka þátt í þessu verkefni, af svokölluðum ráðherralið. Það er algengt að við tökum átt í ýmsum verkefnum með þessum hætti. Það er algjörlega án skuldbindinga. Við höfum engin afskipti af því hvernig þetta verkefni verður unnið. Það er þessara stofnana að ákveða það.

Hæstv. forseti. Ég skil því ekki af hverju þetta mál er rætt á Alþingi. Við lifum í frjálsu samfélagi. Við stjórnum ekki vísindastofnunum. Við stjórnum ekki vísindarannsóknum. Það var gert í Sovétríkjunum sálugu og kommúnistaríkjum en sem betur fer búum við ekki við slíka ráðstjórn hér á landi.