Stjórn fiskveiða í Norður-Atlantshafi

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:25:47 (2887)

2003-01-22 14:25:47# 128. lþ. 63.91 fundur 362#B stjórn fiskveiða í Norður-Atlantshafi# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[14:25]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Sem betur fer er það svo, a.m.k. enn þá, að fullt frelsi ríkir til að stofnanir rannsaki eða kafi ofan í mál á borð við það sem hér er til umræðu. Ég verð að segja að ég fagnaði því þegar ég sá að Alþjóðastofnun Háskóla Íslands væri í samstarfi við utanríkismálastofnun Noregs að vinna sérstaklega að því máli sem hér er til umræðu.

Ég fagna því einnig að hæstv. utanrrh. hafi séð ástæðu til þess að styrkja þetta verkefni. Auðvitað er þetta verkefni þess eðlis að það er full ástæða til þess að ofan í það sé farið og það skoðað ofan í kjölinn hvað muni hugsanlega felast í því ef EES-samningurinn heldur ekki til lengdar, eins og mjög margir hafa haldið fram. Þá er mjög eðlilegt að í það sé lögð vinna. Mér hefði þótt mjög eðlilegt að það væri gert af hálfu hæstv. utanrrn., að leggja vinnu í að skoða hvað er handan við hornið, ég vil nánast segja þegar til þess kemur að við þurfum að leita annarra leiða en að byggja allt okkar samstarf við Evrópu á EES-samningnum.

Það er mjög eðlilegt, herra forseti, að það sé skoðað í samvinnu við Norðmenn sem hafa einnig mikilla hagsmuna að gæta í sjávarútvegi ef til inngöngu í Evrópusambandið kæmi. Mér finnst þetta fullkomlega eðlilegt skref sem þarna er stigið og alls ekki óeðlileg afskipti hæstv. utanrrh. eða utanrrn. á því þótt lögð hafi verið í þetta hálf milljón. Mér hefði ekki þótt óeðlilegt þótt sú upphæð hefði verið nokkuð hærri, herra forseti.