Stjórn fiskveiða í Norður-Atlantshafi

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:32:06 (2890)

2003-01-22 14:32:06# 128. lþ. 63.91 fundur 362#B stjórn fiskveiða í Norður-Atlantshafi# (aths. um störf þingsins), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[14:32]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Sérstaklega þakka ég fyrir svör hæstv. utanrrh. Ég taldi mikilvægt að hæstv. utanrrh. upplýsti um stöðu málsins. Nú er ljóst að ríkisstjórnin, í formi peninga, hefur komið að málinu. Hins vegar koma viðbrögð samfylkingarmanna ekki á óvart vegna þess að það verður ESB-slepja í gangi. Það blokkerar alla sýn til annarra hluta, þegar rætt er um einhvers konar samvinnu við Evrópusambandið. Þá gleymist slagorð Samfylkingarinnar um gagnsætt stjórnkerfi. Ég er ansi hræddur um að í öðrum málum hefði þetta þótt sjálfsögð spurning og sjálfsagt að upplýsa þetta.

Ég hef ekki sagt að ég væri á móti svona úttekt. Það fólst ekki í spurningum mínum til hæstv. utanrrh. Hins vegar tel ég afar hæpið að koma með opinberum hætti að vinnu sem þessari þegar við vitum að Norður-Atlantshafið samanstendur ekki af Noregi og Íslandi. Þarna eru mjög stórir samstarfsaðilar, Grænland, Færeyjar og jafnvel Rússland. Eigi með opinberum hætti að koma að þessum málum á auðvitað að taka þetta dæmi allt. Hvað ætli við á hinu háa Alþingi hefðum sagt ef Grænlendingar og Færeyingar hefðu tekið sig saman um að gera einhvers konar úttekt á því hverjir samstarfsmöguleikar þeirra væru gagnvart ESB einna og sér? Ætli okkur hefði ekki fundist það allhæpið upplegg? Það er þess vegna sem ég er að ræða þetta.

Þetta er stórmál og hefur ekkert með frjáls vísindi að gera. Það mega allir rannsaka. Það mega allir taka sig saman og stunda hvaða rannsóknarvinnu sem þeir vilja. Ég hef sjálfur unnið í samvinnu og sambandi við kollega mína erlendis í Evrópu. Við því er ekkert að segja. En það má gera athugasemdir við það þegar stuðlað er að því af hinu opinbera á vegum ráðuneytis að setja í gang vinnu án þess að þeir sem það varðar fái aðkomu að því hvernig það er sett upp.