Flugumferð um Keflavíkurflugvöll

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:02:38 (2904)

2003-01-22 15:02:38# 128. lþ. 63.3 fundur 148. mál: #A flugumferð um Keflavíkurflugvöll# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:02]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ferðaþjónustan er orðin einn helsti atvinnuvegur þjóðarinnar og sá atvinnuvegur sem talinn er hafa hvað mesta vaxtarmöguleika í heiminum. Staða Íslands á þessu sviði er mjög vænleg og með uppbyggingu og afþreyingu og aðstöðu um allt land eru möguleikarnir til að þessi atvinnugrein geti vaxið miklir.

Flestir ferðamenn til Íslands koma um Keflavíkurflugvöll og er ljóst að allt sem gert er eða ekki gert á þeim flugvelli getur haft mikil áhrif á komu flugvéla til landsins og þá um leið fjölda ferðamanna. Eitt af því sem valdið getur miklu um komu flugvéla til landsins er skattlagning á hvern farþega um völlinn. Þegar skattlagning á flug um Keflavík er skoðuð kemur í ljós að staða okkar er þar ekkert sérstök og flugvellir eins og í Kaupmannahöfn og París eru með allt niður í 56% lægri gjöld á hvern farþega en lagt er á hvern farþega í Keflavík. Hérna munar mestu um flugvallarskattinn sem er um 43% af skattlagningunni í Keflavík.

Ég vil gera athugasemd við þennan háa flugvallarskatt, herra forseti. Þarna er um að ræða skattlagningu sem ekki er í samræmi við aðra flugvelli á landinu. Ég veit að Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við þetta til opinberra aðila án árangurs.

Ef við leyfum okkur, herra forseti, að líta fram hjá ójafnrétti í skattlagningu á flugvöllum á Íslandi þá komumst við þó ekki hjá því að horfa til samkeppnisstöðu okkar við aðra flugvelli um ferðamennina. Fjarlægð Íslands frá fjölmenninu í austri og vestri gerir samkeppnisstöðu okkar um ferðamenn erfiða því áætlunarflug hingað er óhagkvæmt vegna fámennis. Langdrægni flugvéla er einnig að aukast og þörfin fyrir millilendingar á Íslandi er sífellt að verða minni. Við verðum því að geta boðið betur en aðrir. Til að svo megi verða þarf að skoða skattlagninguna eða einhverjar sambærilegar aðgerðir.

Samkeppni í afgreiðslugjöldum á Keflavíkurflugvelli er orðin veruleg og hefur leitt til verulega lækkaðs kostnaðar á þeim lið. Það hefur m.a. gert flugfélögum eins og kanadíska flugfélaginu HMY kleift að millilenda hér og taka farþega. Nú tel ég að eitthvað þurfi að gerast hjá opinberum aðilum í sambærilegum málum.

Herra forseti. Ég tel að hæstv. utanrrh. sé velviljaður í þessu máli og hafi mikinn skilning á því hve ferðamennskan er mikilvæg fyrir íslenskt efnahagslíf. Þess vegna vil ég leyfa mér að leggja fram eftirfarandi fyrirspurn til hans:

1. Hvað er nú gert eða fyrirhugað að gera til að auka flugumferð um Keflavíkurflugvöll?

2. Hvaða aðgerðir koma helst til greina til að bæta samkeppnisstöðu Keflavíkurflugvallar gagnvart öðrum alþjóðaflugvöllum?

3. Hvað er flugvallarskattur hár annars vegar í Kaupmannahöfn og Frankfurt og hins vegar í Keflavík?