Flugumferð um Keflavíkurflugvöll

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:05:41 (2905)

2003-01-22 15:05:41# 128. lþ. 63.3 fundur 148. mál: #A flugumferð um Keflavíkurflugvöll# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:05]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli og Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. settu það markmið fyrr á þessu ári að efla sameiginlega markaðssetningu á vegum stofnunarinnar og fyrirtækisins þar sem starfsemi þeirra tengist að mörgu leyti. Í því skyni sameinuðust þau um ráðningu markaðsstjóra sem tók til starfa 1. júlí sl. Markaðssetning flugstöðvarinnar og flugvallarins er nátengd heildarmarkaðssetningu landsins sem áfangastaðar ferðamanna.

Eins og hv. fyrirspyrjandi sagði eru flestar farþegaflugvélar orðnar svo langdrægar að þær þurfa ekki að millilenda á ferð sinni yfir Atlantshafið þannig að helsta leiðin til að auka umferð inn á flugvöllinn er að ferðamenn sæki Ísland heim. Aukinn áhugi erlendra ferðamanna á landinu hefur því sjálfkrafa áhrif á flugumferð um Keflavíkurflugvöll.

,,Iceland Naturally`` er dæmi um víðtækt landkynningarverkefni sem íslensk stjórnvöld, Flugleiðir, Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. (FLE) og mörg útflutningsfyrirtæki taka þátt í um þessar mundir. Verkefnið felst í markaðssetningu landsins gagnvart Bandaríkjunum. Aðkoma FLE fyrir utan þátttöku í verkefninu í Bandaríkjunum felst í að gera merki átaksins sýnilegt innan flugstöðvarbyggingarinnar og í auglýsingu sem sýnd er í flugvélum Flugleiða.

Þá má nefna samstarf við Reykjavíkurhöfn og aðra aðila sem vinna að því að fá fleiri farþegaskip til Reykjavíkur. Það felur í sér möguleika á aukningu á skiptum á farþegum á Keflavíkurflugvelli þannig að erlendir ferðamenn ferðist með skipi aðra leiðina og flugi hina.

Hvað varðar markaðssetningu gagnvart erlendum flugfélögum þá er markvisst unnið að því að byggja upp tengsl við viðeigandi stjórnendur í flugiðnaði í Evrópu, Norður-Ameríku og víðar, í því skyni að vekja athygli á kostum Keflavíkurflugvallar. Það er m.a. gert á sérstökum fagráðstefnum þar sem þegar hefur komið fram áhugi lággjaldaflugfélaga á notkun Keflavíkurflugvallar.

Hvað varðar annað atriðið í fyrirspurninni þá vil ég taka fram að samkeppni í flugafgreiðslu hefur þegar haft jákvæð áhrif á samkeppnisstöðu Keflavíkurflugvallar. En betur má ef duga skal. Alþjóðleg þróun hefur verið í átt til lækkunar fargjalda og samsvarandi fjölgunar lággjaldaflugfélaga. Mesti vöxturinn hefur verið hjá slíkum flugfélögum og eins og fyrr sagði hefur Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli og FLE hafið viðræður við sum þeirra. Því hefur verið haldið fram að Keflavíkurflugvöllur sé óeðlilega dýr og hamli flugi lággjaldaflugfélaga.

Eins og áður hefur verið gerð grein fyrir í svari við fyrirspurn á Alþingi sl. vor þá sýndi úttekt fyrirtækisins Deloitte & Touche í byrjun árs 2002 að af 12 flugvöllum í Evrópu og Bandaríkjunum sem bornir voru saman var Keflavíkurflugvöllur sá fimmti lægsti í gjaldtöku. Það er því alls ekki sjálfgefið að samhengi sé milli opinberra flugvallargjalda og áhuga lággjaldaflugfélaga á notkun vallarins, enda fleiri þættir sem ráða úrslitum þegar slík félög hafa tekið ákvörðun um notkun flugvalla.

Hvað varðar flugvallarskattinn sem er innheimtur af farþegum á grundvelli laga nr. 31/1987, um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum þá hefur Eftirlitsstofnun EFTA gert athugasemd við mismunandi flugvallarskatta eftir því hvort um utanlands- eða innanlandsflug er að ræða eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda.

Um þessar mundir er unnið að því í samstarfi við viðeigandi ráðuneyti að kanna hvaða leiðir kunna að vera færar til breytinga og er þeirri vinnu því miður ekki lokið. Að mati utanrrn. er eðlilegast að sömu gjöld verði innheimt í utanlands- og innanlandsflugi. Við núverandi kringumstæður er nærtækast að lækka gjöld á utanlandsflugi til samræmis við það sem tíðkast í innanlandsflugi, enda er ekki grundvöllur til hækkana þar. Ef ákveðið verður að fara þessa leið mundi það fela í sér umtalsverða breytingu fyrir millilandaflug án þess að um ríkisstyrk væri að ræða.

Hvað varðar þriðja lið fyrirspurnarinnar þá er enginn flugvallarskattur greiddur á flugvöllum í Kaupmannahöfn og Frankfurt, en 1.250 kr. fyrir hvern fullorðinn farþega á Keflavíkurflugvelli. Þess ber þó að geta að flugvallarskattur er einungis hluti af venjulegum flugvallarfargjöldum og í Kaupmannahöfn og Frankfurt eru greidd lendingargjöld, afgreiðslugjöld, öryggisgjöld og innritunargjöld eins og venja er á alþjóðaflugvöllum.

Í þessu sambandi má ekki gleyma því að umferðarþungi á alþjóðaflugvöllum gefur augljóslega svigrúm til niðurfellingar eða lækkunar sumra gjalda því öryggis- og þjónustuaðilar eru þeir sömu óháð stærð. Þannig fara 18 milljónir farþega um Kaupmannahafnarflugvöll, 45 milljónir um flugvöllinn í Frankfurt en einungis 1,3 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll, sem er að sjálfsögðu mjög mikið miðað við fólksfjölda á Íslandi.