Hvalveiðar

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:27:41 (2912)

2003-01-22 15:27:41# 128. lþ. 63.5 fundur 330. mál: #A hvalveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:27]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir fyrirspurnina. Lög um hvalveiðar eru frá því 1949. Þau voru sett vegna inngöngu í Alþjóðahvalveiðiráðið og þau taka til þeirra hvalategunda sem hvalveiðiráðið fjallar um. Þeim hefur verið beitt á þann hátt að þegar ákvarðanir hafa verið teknar á vegum hvalveiðiráðsins þá hefur reglugerðarákvæðum verið beitt með heimild í þessum lögum. Því má segja að beiting laganna hafi nánast einskorðast við að bregðast við ákvörðunum sem teknar hafa verið hjá Alþjóðahvalveiðiráðinu.

Smáhveli heyra ekki undir Alþjóðahvalveiðiráðið og þessum lögum hefur aldrei verið beitt gagnvart smáhvelum af hálfu ráðuneytisins, enda kemur það fram í greinargerð með frumvarpinu að friðunarákvæði skv. b-lið 3. gr., með leyfi forseta, mundi eigi ná til smáhvalaveiða þeirra sem tíðkast hafa hér við land. Þar af leiðandi hafa engin leyfi verið veitt og ekkert eftirlit verið haft með því hvort veiðar séu stundaðar með leyfum, þar sem ekki er um nein leyfi að ræða. Þar af leiðandi er ekki um að ræða brot á þessu að mati ráðuneytisins og því ekki um neina sérstaka meðhöndlun á brotum að ræða.

Síðan er það spurning hvort ráðherra telji að veiðar á smáhvelum og hvalaskoðun geti farið saman. Ég held að það sé ljóst af tilvitnun hv. þm. hér áðan að veiðar á smáhvelum og hvalaskoðun geti farið saman þar sem hvalaskoðun virðist hafa dafnað hér við land á undanförnum árum við þessar aðstæður.

Ég hef ekki myndað mér neina persónulega skoðun á þessu máli umfram þessa að horfa til þessa á þennan hátt og hef ekki látið fara fram neina sérstaka skoðun á þessu. Ef það ætti að gerast þá þyrftu menn alla vega samtímis eða jafnvel fyrr að átta sig á því, þ.e. ef niðurstaðan væri sú að hvalaskoðun og smáhvelaveiðar færu ekki saman, hvort ætti þá að víkja fyrir hinu.

Að lokum að síðustu spurningunni um hvort fyrirhuguð sé endurskoðun á lögum um hvalveiðar með tilliti til mismunandi nýtingar hvalastofnanna. Ekki er fyrirhuguð endurskoðun með tilliti til mismunandi nýtingar hvalastofnanna. Hins vegar er fyrirhuguð endurskoðun á lögunum um hvalveiðar ef þróun mála hvað varðar hvalveiðar við landið verður það jákvæð að nauðsynlegt sé að endurskoða lögin vegna þess að hvalveiðar, og þá er ég að tala um stórhveli sem heyra undir Alþjóðahvalveiðiráðið, hefjist á einhvern þann hátt sem fellur að aðild okkar að Alþjóðahvalveiðiráðinu.