Hvalveiðar

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:31:31 (2913)

2003-01-22 15:31:31# 128. lþ. 63.5 fundur 330. mál: #A hvalveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., SI
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:31]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda, Svanfríði Jónasdóttur, fyrir þessar fyrirspurnir, en eins og fram kom í máli hennar hefur afskaplega myndarlega verið staðið að uppbyggingu á hvalaskoðunarfyrirtækjum hér við land og má nefna Húsavík þar sem dæmi.

En ég get ekki tekið undir þær gagnrýnisraddir sem heyrst hafa um það að hvalveiðar muni leggja hvalaskoðunarfyrirtæki í rúst því að auðvitað er ekki verið að skjóta hvali á sömu svæðum og hvalaskoðunarfyrirtækin hafa vanið komur sínar á, langt því frá. Ég legg áherslu á að gott samráð og samstarf sé haft við aðila í ferðaþjónustu þegar og ef að því kemur að hvalveiðar hefjist að nýju.

Vísindanefnd NAMMCO fjallaði um ástand hrefnustofnsins á fundi árið 1997 og niðurstaðan var í stuttu máli sú að hvort sem litið var á Mið-Atlantshafsstofninn í heild sinni eða eingöngu á stofninn á íslenska strandsvæðinu væri stofnstærðin nú nálægt því sem talið er að hún hafi verið áður en veiðar hófust. Þær veiðar sem stundaðar voru úr stofninum meginhluta síðustu aldar hafa því samkvæmt þessu haft hverfandi áhrif á stofnstærðina.