Heilsugæsla, félagsþjónusta og öldrunarþjónusta

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:46:39 (2920)

2003-01-22 15:46:39# 128. lþ. 63.6 fundur 449. mál: #A heilsugæsla, félagsþjónusta og öldrunarþjónusta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:46]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Eins og kom fram hjá henni hefur þessi samþætting komið afar vel út á Hornafirði og það kom mjög skýrt fram í viðhorfskönnun sem viðhöfð var hjá íbúum Hornafjarðar að þeir voru mjög ánægðir með þetta fyrirkomulag. Eins hefur það heyrst frá bæjaryfirvöldum að þau eru mjög ánægð með þetta. Með aukinni heimaþjónustu og heimahjúkrun hefur innlögnum fækkað sem hlýtur að vera aðalmarkmiðið, að fólk geti verið sem lengst heima hjá sér með hjálp sem oft þarf ekki að vera mjög mikil en er mjög mikilvæg og það er nauðsynlegt að halda þessu starfi áfram. Eins og kom fram hjá hv. ráðherra þá veit ég að hann er að vinna vel að þessum málum.