Heilsugæsla, félagsþjónusta og öldrunarþjónusta

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:53:44 (2925)

2003-01-22 15:53:44# 128. lþ. 63.6 fundur 449. mál: #A heilsugæsla, félagsþjónusta og öldrunarþjónusta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:53]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa orðið og hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli.

Ég held að það sé enginn tiltakanlegur ágreiningur hér á ferðinni. Spurningin er hvað á að fara hratt í að koma málum til sveitarfélaganna. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að stefna eigi að því að sveitarfélögin taki þetta yfir. Reynslan af reynslusveitarfélagasamningunum hefur verið slík, alveg óumdeilanlega, og ég er talsmaður þess. Ég neita því ekki að bakslag varð í þessum verkaskiptum þegar hætt var við að flytja málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna, mál sem búið var að undirbúa mjög vel en síðan voru stór og fjölmenn sveitarfélög sem treystu sér ekki til að ganga þá götu til enda. Þá varð bakslag í þeim samskiptum en vonandi kemur það andrúmsloft að hægt sé að vinna að þessari verkaskiptingu af fullum krafti.

Ég styð það og ég hef stutt það í gegnum tíðina að auka hlutverk sveitarfélaganna á þessu sviði því ég er sannfærður um að það er grundvallaratriðið til þess að efla sjálfstjórn sveitarfélaganna og forræði yfir eigin málum en til þess þurfa líka sveitarfélögin að sameinast. Það er alveg ljóst. Þau þurfa að sameinast í miklu meira mæli en verið hefur til að taka við þessu. Það er grundvöllurinn til þess að ná árangri í þessu máli. En ég er líka sannfærður um að það verður þróun á næstu árum í sameiningu sveitarfélaga eins og hefur verið, en ég held að það sé enginn verulegur ágreiningur hér uppi.