Uppbygging og rekstur meðferðarstofnana

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 15:59:42 (2927)

2003-01-22 15:59:42# 128. lþ. 63.7 fundur 417. mál: #A uppbygging og rekstur meðferðarstofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[15:59]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að hreyfa þessu mikilvæga máli, en ákvörðun um að stofna nefnd með það markmið að móta heildarstefnu um uppbyggingu á sviði áfengis- og vímuefnameðferðar og þátttöku ríkisins í stofnkostnaði og rekstri meðferðarstofnana var samþykkt á Alþingi 3. maí sl. Í þál. er jafnframt gert ráð fyrir að gert verði árangursmat á meðferðarstofnunum og meðferðarleiðum til að tryggja sjúklingum sem mestan árangur og sem besta nýtingu fjárveitinga til málaflokksins.

[16:00]

Heilbr.- og trmrn. hóf vinnu við þetta verkefni sl. haust en það er mjög viðamikið og krefst góðs undirbúnings ef vel á að vera. Undirbúningshópur í ráðuneytinu fór yfir ýmis fyrirliggjandi gögn og skoðaði þróun málaflokksins á undanförnum árum, m.a. með það í huga að tryggja að vinna sem unnin hefur verið á þessu sviði nýtist til fulls og til að koma í veg fyrir að mistök fyrri ára við slíka skipulagningu verði endurtekin.

Ýmsar úttektir og greiningarstarf hefur verið unnið á fyrri árum, samanber rit heilbr.- og trmrn. frá 1991 um mótun framtíðarstefnu í vímuvörnum, mat dr. Howards Shaffers frá Harvard-háskóla á áfengis- og vímuefnameðferð á Íslandi frá því í nóvember 1997, skýrsla heilbr.- og trmrn. um meðferðarstofnanir samkvæmt beiðni sem lögð var fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi þess, 2000--2001, en í henni eru í viðaukaskrá 65 skýrslur um þessi mál sem m.a. þarf að kanna auk efnis sem komið hefur fram í ljósvakamiðlum og öðrum fjölmiðlum.

Heildarendurskoðun á þessu kerfi þarf að taka til hinnar opinberu þjónustu sem veitt er á þessu sviði og einnig starfa áhugamannahópa og samtaka sem vinna mjög mikið starf. Opinbera þjónustan er veitt mjög víða og er fyrirkomulag hennar með margvíslegum hætti. Starf ýmissa samtaka sem á stundum eru styrkt af hinu opinbera þarf líka að kortleggja en það hefur oft reynst erfitt verk.

Þar sem hér er um flókna þjónustu að ræða og óvenjuviðkvæma lagði undirbúningshópur ráðuneytisins til að fenginn yrði erlendur sérfræðingur hingað til lands til að þróa með ráðuneytinu skynsamlega aðferð til að vinna að þessu verkefni og undirbúa þannig starf þeirrar nefndar sem þál. gerir ráð fyrir. Þegar hafa verið lögð drög að því að fá hann til landsins, og vanda þarf mjög val þess aðila til að tryggja árangur starfa hans. Það þarf að undirbúa komu hans vel og undirbúa gögn sem nýtast mættu honum. Sú vinna stendur nú yfir.

Í áætlun ráðuneytisins er gert ráð fyrir að sérfræðingur komi hingað til lands í vorbyrjun og nefndin verði endanlega skipuð fyrir páska. Þeir starfsmenn ráðuneytisins sem nú mynda undirbúningshópinn yrðu í nefndinni auk annarra sérfræðinga. Hugsanlega yrði skipuð sérstök undirnefnd til að gera árangursmatið á stofnunum en sá hluti verkefnisins tekur sennilega lengri tíma en aðrir þættir. Miðað er við að nefndin skili í það minnsta áfangaskýrslu fyrir áramót 2003/2004.

Það eru bundnar vonir við að þessi aðferð tryggi að stefnumörkun í málaflokknum reynist raunhæf og að það að nefndarstarfið verði svo vel undirbúið sem raun ber vitni leiði til góðs árangurs.