Geðheilbrigðisþjónusta við aldraða

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 18:00:09 (2933)

2003-01-22 18:00:09# 128. lþ. 63.8 fundur 460. mál: #A geðheilbrigðisþjónusta við aldraða# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KVM
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[18:00]

Fyrirspyrjandi (Karl V. Matthíasson):

Herra forseti. Ég ber hér fram fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um geðheilbrigðisþjónustu við aldraða og eru það þrjár spurningar:

1. Hvernig telur ráðherra að geðheilbrigðisþjónustu við aldraða með alvarlega geðsjúkdóma verði best fyrir komið á næstu árum í ljósi fjölgunar aldraðra?

2. Telur ráðherra rétt að slík þjónusta sé veitt á sérhæfðum geðdeildum?

3. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að slík deild verði stofnuð í nánustu framtíð?

Ástæðan fyrir því, herra forseti, að ég legg þessar spurningar fyrir hæstv. ráðherra er að engin sérhæfð deild fyrir aldrað fólk sem á við geðræn vandamál að stríða er til í landinu eða fyrir fólk á þessu aldursskeiði sem þjáist af geðsjúkdómum. Gamalt fólk sem er veikt á geði verður auðvitað að fá viðhlítandi læknismeðferð eins og aðrir sjúklingar í landinu. Í sumum tilfellum er hægt að koma til hjálpar þannig að góður bati verði og í öðrum tilfellum með því móti að lífið verði bærilegra fyrir þetta fólk.

Í flestum löndum sem við Íslendingar berum okkur saman við hafa verið stofnaðar sérhæfðar geðdeildir fyrir aldraða sem þjást af alvarlegum geðsjúkdómum og erum við í hópi þeirra fáu þar sem slík þjónusta er ekki til. Því tel ég vera brýnt að við förum að gefa gaum að þessu máli, líka með tilliti til þess, herra forseti, að öldruðum hér á landi fjölgar og þar af leiðandi hlutfalli þeirra sem þjást af andlegum sjúkdómum og eru í þessum aldurshópi. Þess vegna koma nú þessar spurningar fram sem ég vona að muni leiða það í ljós að uppi séu áform um að stofna slíkar deildir sem ég er hér að spyrja um.

Herra forseti. Það má segja að þegar aldurinn fer að færast yfir þá fylgja því stundum ýmsir sjúkdómar og þetta á líka við um andlega sjúkdóma og ekkert síður. Þess vegna tel ég vera brýnt að við gerum gangskör að því að taka á þessum málum svo að fólk líði ekki að ástæðulausu þegar hægt er að taka í taumana og bregðast við í mörgum tilvikum.