Geðheilbrigðisþjónusta við aldraða

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 18:09:50 (2936)

2003-01-22 18:09:50# 128. lþ. 63.8 fundur 460. mál: #A geðheilbrigðisþjónusta við aldraða# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[18:09]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hér takast vissulega á tvö sjónarmið um hvort eigi að stofna sérhæfða geðdeild fyrir aldrað fólk og safna þannig þeim sem eiga við alvarlegri geðsjúkdóma að etja á eina slíka deild, eða hvort hægt er að meðhöndla það fólk í því kerfi sem núna er og í þeim úrræðum sem núna eru fyrir hendi víða.

Þarna eru fagleg sjónarmið sem takast á. Eins og ég rakti í svari mínu eru þau sjónarmið uppi hjá fagfólki í þessum geira að það fyrirkomulag sem nú er hafi marga góða kosti. Ég er að sjálfsögðu tilbúinn að stuðla að skoðanaskiptum og umræðum um þessi mál þannig að við lítum líka til reynslu nágrannalandanna sem hafa slíkar deildir og hafa rekið þær um langt skeið. Ég tel því eðlilegt að það sé skoðað vandlega hvernig þeim mikilvæga þætti er faglega best fyrir komið. En eins og ég rakti í svari mínu eru þau sjónarmið uppi núna að það sé heppilegra að sinna þessum málaflokki dreift í þeim stofnunum sem fyrir hendi eru.