Siglingar olíuskipa við Ísland

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 18:12:52 (2937)

2003-01-22 18:12:52# 128. lþ. 63.10 fundur 452. mál: #A siglingar olíuskipa við Ísland# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[18:12]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. um siglingar olíuskipa við Ísland sem Ágúst Einarsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, er 1. flm. að og ég fylgi hér eftir í fjarveru hans. Fyrirspurnin er á þskj. 655.

Það er skemmst frá því að segja, herra forseti, að eftir að gríska olíuflutningaskipið Prestige sökk í hafið 250 km undan norðvesturströnd Spánar hefur átt sér stað mikil umræða um siglingu olíuflutningaskipa og þær hættur sem fylgja þeim mikla farmi sem slík skip flytja. Talið er að þetta sé eitt versta umhverfisslys í heiminum nú hin síðari ár og við erum enn þá að heyra í fréttum umræðu um það. Eins og ég segi varð mikil umræða um þennan skipsskaða og afleiðingar hans og hefur umræðan m.a. borist okkur hingað í fréttum ljósvakamiðla.

Þessi skipsskaði hefur haft þær afleiðingar í för með sér, svo tekið sé eitt dæmi, að talið er að fiskneysla á Spáni hafi dregist saman um ein 60% frá því að slysið varð. Það er meira að segja þannig að fiskkaupendur hafa verið tregir að kaupa t.d. skelfisk frá öðrum héruðum Spánar, jafnvel þó svo að þar gæti alls engrar olíumengunar. Í spænskum fjölmiðlum hefur verið fjallað um það að jafnvel reynist erfitt að vinna traust neytenda aftur og þannig hefur t.d. allt eftirlit með fiski á þessu svæði stóraukist.

Hingað til Íslands, herra forseti, skilst mér að hafi komið rúmlega 20 olíuskip á síðasta ári og þau koma flest upp að suðvesturhorni landsins.

Evrópusambandið birti nýlega lista yfir 66 skip sem sögð eru hættuleg til að sigla á evrópsku hafnasvæði og samkvæmt fréttum Morgunblaðsins hafa tvö þessara skipa komið hingað til lands. Mér er ekki kunnugt um hvað var í farmi þeirra.

Einnig kemur upp í huga minn, herra forseti, strand Víkartinds rétt austan við Þjórsárósa 5. mars 1997. Margt var sagt og skrifað um þann skipsskaða sem þar varð, það strand, og mikil umræða átti sér stað um björgun eða ekki björgun og þá ákvörðun skipstjóra að afþakka aðstoð íslensks varðskips. Þess vegna leiði ég hugann að því, herra forseti, hvað hefði gerst ef Víkartindur hefði verið olíuflutningaskip í þessu tilfelli.

Þetta sem ég hef nú rakið er m.a. ástæða þeirrar fyrirspurnar sem hér er lögð fram sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

1. Hvaða reglur gilda hérlendis um siglingar og losun vanbúinna olíuskipa, t.d. skipa með einfaldan byrðing?

2. Eru til áætlanir um viðbrögð við því ef olíuskip færist við strendur Íslands? Ef svo er, hverjar eru þessar áætlanir?