Siglingar olíuskipa við Ísland

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 18:16:08 (2938)

2003-01-22 18:16:08# 128. lþ. 63.10 fundur 452. mál: #A siglingar olíuskipa við Ísland# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[18:16]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hér á landi gilda alþjóðlegar reglur um siglingar olíuskipa og búnað þeirra sem eru byggðar á samþykktum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og reglum sem gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði þar um. Reglurnar eru annars vegar byggðar á svokallaðri MARPOL-samþykkt um varnir gegn mengun sjávar sem tekur m.a. til búnaðar olíuskipa og hins vegar á reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu um olíuskip með einfaldan byrðing.

Nýleg reglugerð Evrópusambandsins kveður einnig á um bann við flutningi svartolíu í skipum með einföldum byrðingi sem fara um hafnir aðildarríkja. Reglugerðin hefur verið tekin upp í EES-samninginn og höfum við gert ráð fyrir lögfestingu hennar hér á landi innan tíðar.

Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna tekur jafnframt til siglinga olíuskipa. Hann veitir olíuskipum rétt til að sigla hvar sem er um heimshöfin með þeim fyrirvara að strandríki hafa heimild til að setja reglur um siglingar skipa með hættulegan eða mengandi varning meðfram strandlengju. Ég vil einnig geta sérstaklega frv. til laga um vaktstöð siglinga sem ég lagði fram á haustþingi og er nú til meðferðar í samgn. þingsins. Þar er lagt til að sett verði á fót vaktstöð siglinga sem verði miðstöð skipaumferðar í íslenskri efnahagslögsögu. Vaktstöðin mun m.a. hafa umsjón með fullkomnu sjálfvirku alþjóðlegu eftirlitskerfi með skipum sem tekið verður upp á næstu árum. Með því kerfi munu möguleikar til eftirlits skipa sem flytja hættulegan varning aukast til mikilla muna sem skiptir mjög miklu máli.

Umræða um takmarkanir á umferð olíuskipa hefur verið í gangi hér á landi um nokkurt skeið og í byrjun ársins 1998 var skipuð nefnd til að fjalla um takmörkun siglinga skipa við suðvesturströnd Íslands. Nefndin skilaði skýrslum og tillögum í desember árið 2000. Samband ísl. kaupskipaútgerða gerði alvarlegar athugasemdir við starfshætti og niðurstöður nefndarinnar og skýrslu flokkunarfélagsins Det Norske Veritas sem niðurstöður nefndarinnar byggðu efnislega á. Ein meginniðurstaða nefndarinnar var að vinna þyrfti betur að rannsóknum á öldufari, straumum og áhrifum á siglingaöryggi ef breyta ætti siglingaleiðinni við suðvesturhorn landsins og bera þær niðurstöður saman við núverandi siglingaleið. Hingað til hafa þessar rannsóknir verið fjármagnaðar af almennu rannsóknarfé Siglingastofnunar. En á þessu ári voru framlög til rannsókna á sjólagi við suðurströnd aukin um 5 millj. kr. að minni tillögu. Þessum rannsóknum hefur miðað vel og lýkur væntanlega í árslok 2004. Ákvörðun um afmörkun siglingaleiða verður byggð á niðurstöðum þessara rannsókna. Það er skoðun mín að nauðsynlegt sé að leiða þetta mál til lykta eins fljótt og auðið er og taka ákvörðun um hvernig takmarka beri siglingar skipa á umræddu svæði.

Ég hef tekið ákvörðun um að fela sérstakri verkefnisstjórn í samvinnu og í samráði við hagsmunaaðila að fara yfir málið og móta skýrar reglur um afmörkun siglingaleiða olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning inn í íslenska efnahagslögsögu í samræmi við ályktun Alþingis frá 1997 og verður að þessu unnið á næstu vikum og mánuðum.

Í öðru lagi er spurt: ,,Eru til áætlanir um viðbrögð við því ef olíuskip færist við strendur Íslands? Ef svo er, hverjar eru þessar áætlanir?``

Viðbúnaður og viðbrögð við umfangsmiklum mengunaróhöppum hér við land eru á hendi Umhverfisstofnunar, áður Hollustuvernd ríkisins. Viðbúnaður stofnunarinnar er margþættur og tekur mið af áhættugreiningu og líkindum á stórum mengunaróhöppum hér við land. Viðbragðsáætlun verður ekki lýst hér í heild heldur verður gerð tilraun til þess að lýsa þeim í stuttu máli. Svarið byggir á upplýsingum frá Umhverfisstofnun.

Árið 1997 var gefin út skýrsla um viðbúnað, viðbrögð og áhættu á bráðum mengunaróhöppum við Ísland á vegum bráðamengunarnefndar umhvn. Ein af niðurstöðum skýrslunnar var að megináhætta á bráðum mengunaróhöppum hér við land væri fyrir suðurströnd landsins og inn Faxaflóa en þar er langmest umferð olíuskipa og stórra vöruflutningaskipa sem geta haft umtalsvert magn olíu í eldsneytisgeymum sínum. Í framhaldi af þeirri vinnu var hafist handa við gerð vákorts af suður- og vesturströnd landsins og er verkið í lokavinnslu samkvæmt þessum upplýsingum. Umferð olíuskipa hér við land er ekki umtalsverð. Árlega eru flutt til landsins um það bil 700 þús. tonn af olíu með skipum sem taka 20--30 þúsund tonn hvert sem þýðir að olíuskip er á ferðinni aðra hverja viku eins og fram hefur komið.

Mun meiri áhætta er talin vegna flutninga risaolíuflutningaskipa sem geta borið með sér umtalsvert magn olíu í eldsneytistönkum. Ísland tekur hins vegar mikinn þátt í alþjóðasamstarfi um varnir gegn mengun sjávar af völdum olíu og annarra skaðlegra efna og viðbrögð við bráðamengun sjávar. Niðurstaðan er því sú að Ísland hefur takmarkaða möguleika til þess að koma sér upp fullkomnum búnaði og starfskröftum til að bregðast við stórum olíuslysum við strendur landsins. Engu að síður eru uppi áætlanir um hvernig megi bregðast við. Verði stór óhöpp má leita jafnframt til alþjóðlegra samstarfsaðila sem eru fúsir til þess að veita aðstoð.