Siglingar olíuskipa við Ísland

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 18:21:39 (2939)

2003-01-22 18:21:39# 128. lþ. 63.10 fundur 452. mál: #A siglingar olíuskipa við Ísland# fsp. (til munnl.) frá samgrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[18:21]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn vegna þess að á 121. löggjafarþingi 1996--1997 flutti ég ásamt hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni till. til þál. um tilkynningarskyldu olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning. Þessi tillaga var síðan samþykkt og á grundvelli hennar var þessi nefnd skipuð sem hæstv. samgrh. gat um áðan.

Hins vegar þurfa menn að horfa á annað líka auk mengunarslysa sem geta orðið vegna skipstapa olíuskipa. Það er annað sem vantar hér inn í og þarf alvarlega að gefa gaum að og það er sá mikli flutningur sem orðinn er á ballest eða sjó á milli heimsálfa. Varðandi það er almenn regla orðin t.d. svo að ég nefni Kanada að skipum er bannað að dæla úr ballesttönkum nema í nokkurra tuga sjómílna fjarlægð frá landi. Losun úr ballesttönkum skipa er einmitt einn áhættuþáttur í mengunarslysum. Ég vona því, herra forseti, að þessi nefnd sem hæstv. samgrh. gat um áðan fari að skila af sér.