Siglingar olíuskipa við Ísland

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 18:25:11 (2941)

2003-01-22 18:25:11# 128. lþ. 63.10 fundur 452. mál: #A siglingar olíuskipa við Ísland# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[18:25]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil bara undirstrika og endurtaka það sem ég sagði fyrr, í fyrsta lagi að við förum að sjálfsögðu eftir þeim reglum um búnað skipa sem settar eru. Við erum innan hins Evrópska efnahagssvæðis og þar hafa verið settar tilteknar reglur sem við Íslendingar tökum upp hvað varðar tvöfaldan byrðing m.a. þannig að það skiptir auðvitað mjög miklu máli að það sé gert.

Að hinu leytinu, hvað varðar afmörkun siglingaleiða hér við suðurströndina, þá eru mjög deildar meiningar. Þess vegna varð það niðurstaða okkar í ráðuneytinu að láta fara fram þessar rannsóknir sem hafa staðið yfir, umfangsmiklar rannsóknir fyrir suðurströndinni, til þess að geta fært sterk rök fyrir afmörkun siglingaleiða vegna þess að það er uppi mikill ágreiningur um málið annars vegar á milli sérfræðinganna sem leggja tilteknar leiðir og svo hins vegar þeirra sem reka skipafélögin og skipstjórnarmanna þannig að þarna þarf að fara skynsamlega að. En undirstrika verður að alltaf er það svo að ákvörðun um siglingaleið verður að sjálfsögðu að öllu leyti að vera í höndum skipstjórnarmanna því að þeir verða að meta aðstæður hverju sinni, aðstæður miðað við sjólag og aðstæður um borð í skipinu o.s.frv. Það verður því að treysta á skipstjóra og útgerðir skipanna hvað þetta varðar.

Hins vegar held ég að vaktstöð siglinga, sem við gerum ráð fyrir að taki að sér þetta hlutverk að fylgjast með, muni hafa mikilvægu hlutverki að gegna og eigi að geta aðstoðað við afmörkun siglingaleiðanna og stjórnað umferðinni við strendur landsins. Það er það hlutverk sem henni er m.a. ætlað.

Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir áhugann á málinu og ég fagna því vissulega.