Tóbaksvarnir

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 10:36:29 (2947)

2003-01-23 10:36:29# 128. lþ. 64.4 fundur 415. mál: #A tóbaksvarnir# (EES-reglur) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[10:36]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur farið yfir þær breytingar sem felast í frv. til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir. Eins og kom fram í máli hans eru þetta breytingar sem koma í kjölfar tilskipunar Evrópusambandsins um samræmingu á ákvæði í lögum og stjórnsýslufyrirmælum sem aðildarríkin hafa tekið að sér að koma í lög. Eftir að hafa farið yfir frv. get ég ekki séð annað en að þetta mál eigi að eiga greiða leið í gegnum hv. heilbr.- og trn. Mér sýnast öll ákvæði til bóta. Það eru m.a. ný ákvæði um viðvaranir um skaðsemi tóbaks og aðrar upplýsingar á tóbakspökkum. Það eru kröfur til framleiðenda um upplýsingar um efni í tóbaki, þ.e. innhaldsefni og síðan eru settar skorður um hámark ákveðinna efna, ekki bara tjöru heldur einnig nikótíns og kolsýrings eins og kemur fram í athugasemdum við frv.

Herra forseti. Ég er hlynnt frv. og mun taka þátt í vinnslu þess í heilbr.- og trn. og skoða þá betur þau ákvæði sem kveðið er á um í frv. en tel að ekki ætti að vera neitt því til fyrirstöðu að málið verði afgreitt fyrir vorið.