Lýðheilsustöð

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 12:01:23 (2957)

2003-01-23 12:01:23# 128. lþ. 64.5 fundur 421. mál: #A Lýðheilsustöð# frv., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[12:01]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Lýðheilsustöð á sér fyrirmynd á hinum Norðurlöndunum en þær eru þó það nýjar, a.m.k. hjá tveimur Norðurlandanna að ekki er tímabært að spyrja hvaða árangri þær hafa skilað. En ég vil fyrst og fremst koma hér og fagna þeirri nýju sýn að tala um að efla heilsu í stað þess að verjast heilsutapi eða verjast áföllum og þessu endalausa forvarnatali. Ég tel að í heitinu, hvort sem stöðin endar með því að heita Lýðheilsustöð eða Heilsuverndarstöð, felist ný og gagnmerkari sýn á þau viðfangsefni sem verið er að fjalla um. En ég ætla ekki að markmiðið með því að koma á fót lýðheilsustöð hafi verið að spara í þeim málaflokkum sem munu falla undir stöðina samkvæmt frv. og vegna ræðu hv. þm. Péturs Blöndals um andstöðu hans við frv. þá þegar af þeirri ástæðu að það leiddi ekki til sparnaðar vil ég á hinn bóginn lýsa yfir stuðningi við frv. og þá út frá þeim meginmarkmiðum frv. sem eru að samræma heilsueflandi aðgerðir og samnýta krafta allra þeirra sem eru að vinna á þessu sviði.

Við skulum hafa það hugfast að heilsa eins og hún er skilgreind í lögunum um heilbrigðisþjónustu lýtur ekki bara að líkamlegri heilsu heldur líka að andlegri heilsu og enn betur lýtur hún jafnframt að félagslegri heilsu. Það er því ekki í svo lítið ráðist með verkefnum Lýðheilsustöðvar og ljóst er að þau verkefni eru ekki tæmandi talin þar og vikið er sérstaklega að í greinm frv. Við skulum líka horfast í augu við að það er fjölmargt sem staðið hefur út af borðinu og vert er að taka undir Lýðheilsustöðina. Við skulum líka hafa það hugfast að með verkefnum Lýðheilsustöðvarinnar á að ná að stuðla að því að markmiðum heilbrigðisáætlunarinnar, göfugum markmiðum heilbrigðisáætlunar til ársins 2010 verði náð.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv., ég reikna með að hv. heilbr.- og trn. fái það til meðferðar að lokinni þessari umræðu og ég trúi því að við munum fara yfir alla þætti þess og gefa góðan gaum að þeim umsögnum sem við fáum um frv. og jafnvel fá til okkar gesti og skoða það sem best.