Lýðheilsustöð

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 12:21:12 (2960)

2003-01-23 12:21:12# 128. lþ. 64.5 fundur 421. mál: #A Lýðheilsustöð# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[12:21]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram mjög áhugaverð og fróðleg umræða og það er enginn vafi á því að Lýðheilsustöð getur orðið framfaraskref í heilbrigðisþjónustu okkar. Ég tek undir þau orð hæstv. heilbrrh. að ekkert er jafnþýðingarmikið og öflugt forvarnastarf.

Hér hafa komið fram margar ábendingar sem vert er að taka tillit til. Það er mitt mat að það sé þýðingarmikið að hv. heilbrn. fari yfir þær og ég tek sjálf undir þær ábendingar sem frsm. Samfylkingarinnar í þessu máli, Ásta R. Jóhannesdóttir, kom með í umræðunni.

Ég kveð mér ekki síst hljóðs í andsvari til að bregðast við upplýsingum hæstv. ráðherra varðandi óhefðbundnar lækningar. Ég er afskaplega sátt við að heyra að Guðmundur Sigurðsson læknir muni veita þessu verkefni forstöðu. Ég þekki störf hans að góðu einu og þykist vita að málið sé í góðum höndum.

Mér finnst þýðingarmikið að það verði farið í málið með öll þau verkefni sem komu fram í þáltill., að hún öll verði framkvæmd, og spyr hvort svo sé. Verða öll þau verkefni fengin starfshópnum eða hinni formlegu nefnd ef svo er? Það er fróðlegt að vita hversu stór nefndin á að vera og hvaða tímamörk henni eða hópnum verða gefin til að skila þessu verkefni. Við erum að skoða þessi mál afar seint miðað við nágrannalöndin en jafnánægjulegt er að Alþingi skuli hafa sameinast um þessa ályktun og að ráðherra skuli hafa brugðist við henni.