Úthlutun á byggðakvóta

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 13:36:53 (2970)

2003-01-23 13:36:53# 128. lþ. 64.94 fundur 367#B úthlutun á byggðakvóta# (umræður utan dagskrár), sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[13:36]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka frummælanda fyrir að taka upp málið hér á hv. Alþingi.

Það er rétt sem kemur fram hjá honum, að á undanförnum árum hefur verið nokkuð um sértækar aðgerðir í sjávarútvegi. Þær koma til vegna þess að sjávarútvegur okkar hefur gengið í gegnum gríðarlega miklar breytingar á undanförnum árum og áratugum. Þessar breytingar hafa komið nokkuð misjafnt við byggðirnar og í flestum tilfellum eru byggðirnar útgangspunkturinn í aðgerðunum.

Kvótakerfið er einungis hluti af þeim breytingum sem sjávarútvegurinn hefur gengið í gegnum en samspil ýmissa þátta, breytingar í útflutningsmálum, breytingar á fjármagnsmörkuðum, breyting á mörkuðum, hefur auðvitað leitt til þess að sjávarútvegurinn hefur breyst. Hann hefur getað brugðist við þessum breyttu aðstæðum. Í dag er hann því miklum mun sterkari og nýtist okkur, íslensku þjóðinni, miklum mun betur en 1983 þegar kvótakerfið, eins og við þekkjum það, var fyrst tekið upp. Kvóta hafði þó verið beitt í ýmsum greinum sjávarútvegs fyrir 1983. Ég held að raunverulega vilji enginn hverfa aftur til þess ástands sem oft kom upp fyrir árið 1983.

Segja má að um sex sértækar aðgerðir sé að ræða, þ.e. hinn svokallaða jöfnunarsjóð, sem var tímabundinn en er nú orðinn ótímabundinn. Fyrst var úthlutað úr honum 1999--2000 og var sú úthlutun upp á 3.000 lestir. Síðan Byggðastofnunarkvótinn upp á 1.500 lestir. Og síðan er það úthlutun á grundvelli 9. gr. vegna skerðingar aflamarks sem aðallega hefur verið beitt vegna skerðingar á innfjarðarrækju og skelveiðum, eins og hv. þm. nefndi í upphafserindi sínu. Síðan er það krókaaflamarksbyggðakvótinn svokallaði sem tvívegis hefur verið úthlutað. Síðan er það þorskeldiskvótinn sem einu sinni hefur verið úthlutað upp á 500 tonn og að lokum byggðakvótinn sem úthlutað var síðasta desember.

Það væri auðvitað betra að ekki þyrfti að koma til aðgerða sem þessara en ég held við verðum að hafa í huga að það hefur verið gert ráð fyrir því, alla vega alveg frá árinu 1990 þegar sú löggjöf sem við búum við í dag var samþykkt í upphaflegri mynd, að til þess kæmi að beita þyrfti aðgerðum sem þessum.

Ég vonast til að í gegnum þessar aðgerðir sem hér hafa verið nefndar og eru hver upp á sinn mátann hafi verið hægt að nálgast og styðja við allar þær byggðir sem hafa lent í vandkvæðum á undanförnum árum vegna breytinga í sjávarútvegi. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að svona aðgerðir bæta aldrei allar þær breytingar sem verða. Þær geta samt aðstoðað við að aðlagast nýju umhverfi og til að spyrna við fótum, jafnvel til nýrrar útrásar.

Það er ekki þannig að við viljum að sjávarútvegurinn hjá okkur verði alltaf óumbreytanlegur. Hann verður að geta breyst. Hann verður að geta brugðist við nýjum aðstæðum og horft fram í tímann, jafnvel sjálfur tekið ákvarðanir um breytingar sem hann telur að geti orðið atvinnugreininni og þjóðinni til hagsbóta. Þess vegna höfum við byggt þetta kerfi upp sem markaðskerfi, framsalið er í öllum meginatriðum frjálst og það er grundvöllur þess að þessi aðlögun og útrás geti átt sér stað.

Þrátt fyrir þetta ber okkur að reyna að aðstoða þegar illa stendur á og til þess höfum við á undanförnum árum beitt 12.500 tonnum. Ég vonast til að við höfum náð til þeirra, herra forseti, sem á þeirri aðstoð hafa þurft að halda.