Úthlutun á byggðakvóta

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 13:53:41 (2976)

2003-01-23 13:53:41# 128. lþ. 64.94 fundur 367#B úthlutun á byggðakvóta# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[13:53]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Sértækar aðgerðir í atvinnumálum verða seint eða aldrei réttlátar né heldur er nokkur leið að hugsa sér þær sem einhverjar framtíðarráðstafanir í uppbyggingu atvinnulífs, þvert á móti. Það er dapurlegt að heyra hér að fulltrúar Sjálfstfl., sem hafa einmitt lagt áherslu á að sértækar aðgerðir væru ekki til framtíðar, eru núna að mæla þeim bót. Það eru hinar almennu aðgerðir og hinn almenni grunnur sem ræður um hvernig atvinnulífið blómstrar.

Tökum dæmi um úthlutun á þessum fiskveiðiheimildum sem kallaðar hafa verið byggðakvóti. Í dag voru fréttir í útvarpinu um það að umboðsmaður Alþingis hefði gert alvarlegar athugasemdir við úthlutun þeirra þegar þær voru fyrst gerðar fyrir tveimur árum. Lítum svo á úthlutunina núna. Hún átti að vera gagnsærri. En hvernig var hún framkvæmd? Jú, umsóknarfrestur var til 16. desember. Um 600 umsóknir bárust og tveim dögum síðar er búið að úthluta nærri 60 aðilum kvóta. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Hver haldið þið að treysti á svona vinnubrögð? Þetta er náttúrlega fullkomin sýndarmennska og algjörlega ótrúverðug og ekki því fólki bjóðandi sem stundar þessa atvinnu.

Virðulegi forseti. Ég hef líka þungar áhyggjur af því að hækkandi gengi íslensku krónunnar nú gagnvart erlendum gjaldmiðlum muni verða litlum atvinnufyrirtækjum enn erfiðara, minni atvinnufyrirtækjum úti um land sem berjast við að halda í fiskveiðiheimildir sínar í harðri samkeppni við risana. Vandi fiskvinnslunnar og fiskveiðanna úti um allt land er hrikalegur og verður ekki leystur með einhverjum svona plástrum á gjörsamlega götótt og ranglátt fiskveiðistjórnarkerfi.