Úthlutun á byggðakvóta

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 14:00:25 (2979)

2003-01-23 14:00:25# 128. lþ. 64.94 fundur 367#B úthlutun á byggðakvóta# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[14:00]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Hér var áðan sagt að sértækar aðgerðir verði seint réttlátar. Við vitum að markaðsbúskapurinn byggir á almennum aðgerðum en ekki sértækum, og ég fagna því að loksins er kominn hingað í þingsalinn almennilegur frjálshyggjumaður sem talar gegn þessum sértæku aðgerðum og er þess vegna auðvitað boðberi markaðslausnanna á þeim vanda sem við er að glíma hverju sinni.

Virðulegi forseti. Við vitum auðvitað (Gripið fram í: Hver ...?), það var hv. 5. þm. Norðurl. v. sem talaði svona hér áðan, eins og menn muna.

Fyrir nokkrum árum var lausnarorð flestra á þeim vanda sem uppi var í byggðum landsins að efla úthlutun á byggðakvóta. Það var auðvitað áður en menn fóru að reyna að útfæra þessar aðferðir. Það er þannig, eins og kom fram í máli hæstv. sjútvrh. sem var mjög athyglisvert, að 12.500 tonnum er á þessu ári úthlutað með öðrum hætti, á öðrum grundvelli, en öðrum aflahlutdeildum í landinu. Með öðrum orðum, 12.500 tonnum er úthlutað á því sem menn kölluðu hér áður og fyrr byggðatengdum forsendum. Þetta er heilmikil breyting og auðvitað viðleitni í þá átt að bregðast við þeim vanda sem uppi er í byggðum landsins, eins og allir vita. Vandinn er hins vegar sá að þessi úthlutun byggist alltaf á mati og getur aldrei byggst á öðru. Þess vegna hlýtur alltaf að verða ágreiningur um þetta eins og við þekkjum og þarf ekki að koma á óvart.

Samfylkingin hefur talað mikið um þessi mál. Ég vek athygli á því að í frv. Samfylkingarinnar, sem er á dagskrá fundarins á eftir, er gert ráð fyrir því að með matskenndum hætti verði úthlutað aflaheimildum til byggða sem sérstök ástæða er talin til að styrkja með slíkri úthlutun. Það er Byggðastofnun sem á að leggja mat á þetta samkvæmt frv. Það er með öðrum orðum matskennd aðferð við að úthluta þessum heimildum þótt þær verði síðan boðnar út hæstbjóðendum til þess að veiða þær.

Virðulegi forseti. Þær lausnir sem menn hafa verið að koma fram með hérna --- fyrir utan auðvitað markaðslausnir vinstri grænna --- þ.e. lausnir eins og Samfylkingin hefur verið að boða eru lausnir sem byggja á matskenndum aðferðum sem Byggðastofnun á að leggja blessun sína yfir.