Úthlutun á byggðakvóta

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 14:02:49 (2980)

2003-01-23 14:02:49# 128. lþ. 64.94 fundur 367#B úthlutun á byggðakvóta# (umræður utan dagskrár), Flm. KVM
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[14:02]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Ég þakka þeim sem tóku þátt í þessari umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég spurði hæstv. ráðherra þeirrar spurningar hvort hann teldi ekki rétt að fara að breyta kerfinu en hann svaraði henni ekki á þann veg að hann vildi það.

Eins og ég sagði áðan geta náttúrlega komið upp aðstæður og mikill aflabrestur eins og á sér núna stað í Breiðafirði með skelina. Þegar um slíkar úthlutanir er að ræða er það algert neyðarbrauð. En þegar allt kerfið virkar þannig að það þarf að fara að úthluta kvóta um allt landið, alveg frá Reykjanesi og hringinn, aftur að Reykjanesi að Vestmannaeyjum meðtöldum, er eitthvað meira en lítið að. Og það er það sem er til umræðu hér, herra forseti. Það þarf að breyta öllu fiskveiðistjórnarkerfinu og við þurfum að skipta um kerfi svo að fólkið í kringum landið upplifi að það sé réttlæti í landinu en ekki óréttlæti og klíkuskapur og úthlutanir jafnvel eftir því í hvaða flokkum menn eru. Sagt hefur verið í mín eyru að fólk upplifi slíkt ástand þegar verið er að úthluta eftir geðþóttaákvörðunum.

Það er líka mjög undarlegt, herra forseti, að ein af reglunum í nýjustu reglugerð um úthlutun byggðakvóta sé að það fari eftir því hvernig umsóknin er, hvaða rök umsækjandi hafi fyrir því að biðja um kvóta. Þá er þetta orðið býsna huglægt, herra forseti.

Ég er á þeirri skoðun að það þurfi að gjörbreyta kerfinu. Það má alls ekki tala um það kerfi sem nú er eins og það sé eitthvað sem þurfi að vera hér um aldur og ævi. Ef svo væri, herra forseti, væri ekki lengur þörf fyrir Alþingi Íslendinga.