Lyfjalög og læknalög

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 14:42:50 (2985)

2003-01-23 14:42:50# 128. lþ. 64.6 fundur 423. mál: #A lyfjalög og læknalög# (lyfjagagnagrunnar) frv., KF
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[14:42]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, og læknalögum, nr. 53/1988.

Í tillögum um breytingu á lyfjalögum er gert ráð fyrir að komið sé á fót tvenns konar gagnagrunni, þ.e. annars vegar með ópersónugreinanlegum upplýsingum um afgreiðslu lyfja til sjúklinga og hins vegar persónugreinanlegum upplýsingum. Það er sem sagt mismunandi tilgangur með þessum tveimur gagnagrunnum. Annar er um tölfræði og yfirsýn og hinn er þegar um misferli eða meint misferli er að ræða af ýmsum toga.

Þegar litið er á 3. gr. þessa frv. þar sem rætt er um persónugreinanlegan gagnagrunn þá er tiltekið að þrír aðilar eigi aðgang að honum. Samkvæmt frv. eru það Tryggingastofnun ríkisins, Lyfjastofnun í samvinnu við landlækni og í þriðja lagi landlæknir. Þarna finnst mér vanta í fyrsta liðinn að Tryggingastofnun ríkisins vinni sínar kannanir í samvinnu við landlækni og vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh. hvort því þurfi ekki að bæta þar inn.

Eftirlit með lyfjaávísunum er nú þegar hjá landlækni. Ég greip fram í áðan þegar hv. þm. Þuríður Backman talaði til að undirstrika það að eftirlitið er þegar mjög virkt hjá landlækni og hann hefur tækifæri til þess að miðla upplýsingum um meinta misnotkun og þegar fíkniefnaneytendur fara á milli lækna. Þá að sjálfsögðu reynir hann að gera læknum viðvart.

Við búum við það hér á landi að hafa vel menntaða læknastétt. Það eru að verða hátt í þúsund manns í þeirri stétt. Þann 1. janúar 2001 voru þeir 760. Ég geri ráð fyrir að þeir séu farnir að halla í 900 núna. Auðvitað finnast alls staðar svartir sauðir en ég held að í læknastéttinni séu þeir óvenju fáir, til allrar hamingju.

[14:45]

Frv. gerir ráð fyrir því í 5., 6. og 7. gr. að viðurlög við því að læknar ávísi sjálfum sér ávana- og fíknilyfjum verði hert og sömuleiðis er verið að reyna með þessu að koma í veg fyrir of margar ávísanir einstakra lækna til einstakra sjúklinga. Það er af hinu góða. Það hefur verið undirstrikað og ítrekað frá Læknafélagi Íslands að efla þurfi eftirlit landlæknis. Mér finnst þetta frv. vera alveg í samræmi við þær óskir sem settar voru fram í bréfi frá Læknafélagi Íslands til heilbrrh. Það var sennilega snemma á síðasta ári sem Læknafélagið sendi nokkuð ítarlegt bréf með tillögum um það hvernig taka ætti betur utan um þennan málaflokk.

Þar á meðal var þetta, að styrkja eftirlit landlæknisembættisins, og það var líka tiltekið að auka þyrfti eftirlit með lyfseðlum. Frv. sem við ræðum hér um er líka í þá veru.

Það þyrfti einnig að athuga nánar hlut Persónuverndar og þá kröfu að lyfseðlum sé eytt en það sem vantar inn í þetta og kannski er í vinnslu í ráðuneytinu einhvers staðar annars staðar er tillaga Læknafélagsins um að stofnuð verði afeitrunarmiðstöð eða komið verði á einhvers konar miðstöð fyrir djúpt sokkna fíkniefnaneytendur.

Mig langar að spyrja ráðherrann sömuleiðis hvort þessi liður í bréfi Læknafélags Íslands frá því í fyrra sé í vinnslu og hvort við megum eiga von á tillögum frá ráðuneytinu um þetta.

Loks var það verkjateymi á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi sem lagt var til að yrði styrkt. Ég tel að það sé einnig mjög mikilvægt.

Ég lít svo á að það verði að gera algjöran greinarmun á þessum gagnagrunnum eftir því hvort við erum að tala um gögn sem hið opinbera getur leitað í eða hvort læknir sem meðhöndlar einstakling getur leitað í þau. Ég er ekki hlynnt því að stóri bróðir hafi auga sitt á smæstu atriðum og jafnvel ekki stórum atriðum í lífi almennings. Það eru viðkvæm mál sem fjallað er um á þessum vettvangi. Notkun ávanabindandi lyfja og vímuefna er auðvitað eitt, kynlífsvandi annað, áfengissýki, getnaðarvarnir og geðsjúkdómar. Samt hefur í þjóðfélagi okkar markvisst verið unnið að því, ekki síst af hálfu sjúklinganna, að koma umræðunni um þessi atriði öll á framfæri, gera hana sýnilega og reyna að draga úr pukrinu, samviskubitinu og felunum sem lengi hafa fylgt þessum ákveðnu málaflokkum.

Þetta hefur leitt af sér breytt viðhorf í þjóðfélaginu. Ég held að það sé mjög jákvætt að menn viðurkenni vandann og að skilningur vaxi á þessum málum í þjóðfélaginu. En það breytir því ekki að einstaklingurinn á rétt á sinni persónuvernd gagnvart hinu opinbera og gagnvart stóra bróður. Það gildir ekki það sama með lækninn sem meðhöndlar sjúklinginn og ég ætla að skýra mál mitt aðeins nánar.

Ég lít svo á að aðgengi læknis, sem er að meðhöndla einstakling, að uppýsingum um aðra lyfjanotkun þess sama sjúklings hljóti að mega líta á sem útvíkkun á sjúkraskránni. Ef það væri alltaf sami læknirinn sem meðhöndlaði sjúklinginn og alltaf sama apótekið sem hann færi í væri þetta ekki vandamál, þá væri þetta í sjúkraskránni sjálfri. En það er ekki svo, sérstaklega ekki hér í þéttbýlinu. Auðvitað leitar fólk oft annað utan dagvinnutíma. Það fer á sjúkrahúsin, á Læknavaktina, á Barnalæknavaktina. Þar eru gefnir út lyfseðlar sömuleiðis sem ekkert endilega skila sér, að vísu sendir Læknavaktin heimilislæknum ávallt bréf um þau samskipti sem þar fara fram en ég lít svo á að það sé lífsnauðsynlegt fyrir heill sjúklingsins að þessar upplýsingar séu ínáanlegar af þeim lækni sem meðhöndlar sjúklinginn. Mér finnst þetta skipta mjög miklu máli og vera allt öðruvísi en aðgengi hins opinbera að einkaupplýsingum fólks.

Á Læknadögum í síðustu viku var haft viðtal við nokkra lækna, þar á meðal við Margréti Georgsdóttur, yfirlækni á Heilsugæslustöð miðbæjar. Hún benti á að ef læknar væru ekki heimilislæknar sjúklinga sem til þeirra leituðu eftir ákveðnum lyfjum ættu þeir að reyna að skrifa út lyf til eins eða tveggja daga í senn. Þetta er auðvitað æskilegt að reyna að gera en það þýðir auðvitað jafnframt aukinn lyfjakostnað. Stundum er sjúklingurinn með langvarandi verki, kannski krabbameinssjúklingur eða með einhverja slíka greiningu, og það er nauðsynlegt að hann fái lyfin sín. Þá gerir það honum fjárhagslega erfiðara fyrir ef hann verður uppiskroppa með lyfin að þurfa að leita læknis og fá lyf til skamms tíma í senn. Það eru því ýmsar hliðar á þessu máli.

En Margrét var einnig í viðtali í sjónvarpinu 14. janúar. Ég vitna í orð hennar, herra forseti, með leyfi:

,,Síðan þarf læknirinn að hafa aðgang að gagnagrunni. Mér finnst algjörlega eðlilegt ef sjúklingur leitar til mín sem læknis og ég á að fara að gefa honum lyf að ég geti fengið upplýsingar um það hvaða lyf hann er að nota svo það sé tryggt að ég verði honum ekki að skaða.``

Seinna segir hún:

,,Hvernig ætlarðu að lækna mann sem þú veist ekki hvaða lyf er að taka? Alla vega sá sem á að taka þátt í meðferð sjúklingsins verður að vita á hvaða lyfjum viðkomandi er.``

Ég held að það hljóti öllum að vera augljóst að það verður að vera hægt að nálgast upplýsingar af þessu tagi fyrir þá lækna sem fá sjúkling í meðferð. Ég tek annað dæmi af sjúklingi sem kemur inn á bráðamóttöku sjúkrahúss og er kannski ekki með meðvitund eða ekki með næga rænu til að geta sagt frá sínum málum eða hvaða lyf hann taki. Það er auðvitað algjör lífsnauðsyn að sá læknir sem tekur við honum geti haft aðgang að upplýsingum um hvaða lyf hann tekur.

En svo erum við auðvitað með misnotkun sem er fram hjá eðlilegum lyfjaávísunum lækna, t.d. eru sum vanabindandi lyf eins og parkódín, sterk verkjalyf af því tagi, seld án lyfseðils í apótekum. Og það er hægur vandi fyrir þann sem ætlar sér að misnota slíkt að fara vissan rúnt milli apóteka ef hann býr í þéttbýli eins og Reykjavík. Þetta er auðvitað eitthvað sem er stýrt með reglugerð.

Mín skoðun er sú að þótt ný tækni geri mönnum sífellt auðveldara að safna saman upplýsingum um einstaklinga eigi ekki að gilda það sama um aðgang hins opinbera að persónugreinanlegum upplýsingum og fyrir lækna. Þess vegna legg ég það til að við meðferð málsins í heilbrn. þingsins verði skoðað sérstaklega hvernig tryggja megi að læknar hafi aðgang að upplýsingum um sjúklinga sína eða þá sem þeir eru að meðhöndla hverju sinni.