Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 15:25:31 (2995)

2003-01-23 15:25:31# 128. lþ. 64.7 fundur 17. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[15:25]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (frh.):

Herra forseti. Við höldum áfram umræðu um mál sem frestað var á síðasta ári og er um tillögu til þál. um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu og tekur sérstaklega til þess að hér séu opnari viðskipti með fisk og það liggi betur fyrir hvernig viðskiptin eiga sér stað með því að hafa fjárhagslegan aðskilnað milli útgerðar og vinnslu.

Við teljum einnig að það mundi verða til þess að auka afla á fiskmarkaði sem að öllu öðru jöfnu mundi auka hér mikið verðmæti í sjávarútvegi, verðmæti þess sjávarfangs sem unnið er úr aflanum og efla jafnframt atvinnustigið í landinu.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér í örstuttu máli að vitna í lok kafla ræðu minnar á síðasta ári þegar við vorum að ræða þessi mál, áður en ég fer yfir í það að ræða meira um verðmætisaukann í sjávarútvegi, hvernig megi með auðveldum hætti auka hann, og vitna þá m.a. til skýrslu sem sjútvrh. lét vinna, svokallaða AVS-skýrslu, um fimm ára átak til að auka verðmæti sjávarfangs, en ég hafði boðað það í fyrri ræðu minni að ég mundi víkja nokkrum orðum að því máli.

Ég vil einnig vekja athygli á því, herra forseti, að frá því að þessari umræðu lauk hefur m.a. Sjómannasamband Íslands ályktað sérstaklega um málið, en það sagði á þingi sínu:

,,23. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að lög verði sett um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu. Eins og staðan er í dag getur kaupandi og seljandi afla verið einn og sami aðilinn sem í krafti einokunaraðstöðu sinnar ákveður verðið. Slíkur viðskiptamáti hlýtur að brjóta í bága við lög um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti. Eðlilegt hlýtur að teljast að allir fiskkaupendur hafi sama möguleika á að kaupa þann fisk sem leyfilegt er að veiða úr takmarkaðri auðlind. Fyrsta skrefið til að koma á eðlilegum viðskiptaháttum með fisk er að aðskilja veiðar og vinnslu fjárhagslega sem leiðir til þess að allur afli verði seldur á fiskmarkaði.``

Þessi ályktun Sjómannasambands Íslands er algjörlega í samræmi við þá hugsun sem er í þeirri tillögu sem við höfum flutt og rædd var á síðasta ári og umræða heldur hér áfram um.

Ég vil, herra forseti, víkja sérstaklega að því að þetta er angi af fiskveiðistjórnarkerfi okkar og því miður sem við skyldum aldrei hafa tekið upp frjálsa framseljanlega sölu og leigu á aflakvótum því að sá réttur þurfti aldrei að vera hjá útgerðinni til þess að hægt væri að stunda hér eðlilegar og arðbærar fiskveiðar. Útgerðarmennirnir þurftu eingöngu að hafa þá vissu að þeir mættu gera út skip sín til fiskveiða hvort sem það var í aflakvótakerfi eða einhverju öðru kerfi. En þeir þurftu aldrei á leigu- og söluréttindum á aflakvótanum að halda til þess að halda áfram eðlilegu og sjálfsögðu útgerðarmynstri.

Það er nákvæmlega þarna sem skilur á milli hagsmuna útgerðarmanna og hagsmuna fólksins í landinu. Það eru útgerðarmennirnir sem hafa þennan rétt til leigu og sölu á aflaheimildum og geta nýtt hann með ýmsum hætti, m.a. í viðskiptum, eins og áður hefur verið bent á og einnig er dregið fram í grg. með þessari tillögu og það eru útgerðarmennirnir sem hafa síðan ákvörðunarrétt um það hvenær þeir vilja selja þessi réttindi frá fyrirtæki sínu og þá jafnvel burt úr byggðunum, sem hefur auðvitað sums staðar haft mjög alvarlegar og skelfilegar afleiðingar á afkomu fólks og öryggi þess til að búa í hinum dreifðu sjávarbyggðum.

Herra forseti. Það er m.a. tilgangur fiskveiðistjórnarlaganna að auka hér arðsemi og efla atvinnu og segir í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna að þau séu til að vernda og byggja upp fiskstofnana og byggja upp trausta atvinnu og byggð í landinu.

Vil ég nú víkja aðeins að þeim þætti máls og þá sérstaklega í tengslum við skýrslu sem hæstv. sjútvrh. beitti sér fyrir að unnin væri og ég vitnaði til fyrr í máli mínu. Í þeirri skýrslu koma fram ýmsar merkilegar upplýsingar sem mig langar að draga fram.

[15:30]

Það kemur hér t.d. fram á bls. 56 og 57 í þessari skýrslu, með leyfi forseta, að fersk þorskflök, þegar þau eru reiknuð í verðmæti yfir á veiddan fisk úr sjó, gefa 272 kr. að meðaltali á kíló, útflutningsverðmæti, miðað við árið 2001, fersk þorskflök, á sama tíma og sjófrysting er með 185 kr. og landfrysting einnig með 185 kr. Þarna munar hvorki meira né minna en 87 kr. á hverju einasta kílói, herra forseti, og þar af leiðandi hefði maður haldið að í þessari skýrslu hefði strax verið dregin fram afar sterk ábending um að það mætti auka virði sjávarfangsins og verðmætasköpun í þessu þjóðfélagi ásamt atvinnu til mikilla muna með því að leggja meiri áherslu á veiðar sem gætu komið með ferskan fisk að landi sem dygði til vinnslu í að vinna fersk flök til útflutnings.

Hins vegar er í þessari skýrslu vikið mikið að því að vinna megi aukaafurðir úr þorski, m.a. úr hausum og öðru slíku, en frekar lítið vikið að því atriði að þarna er í raun og veru mjög auðvelt að auka verðmæti mikið með því að efla hráefnisvinnslu á dagróðraskipum eða skipum sem koma með ferskt hráefni að landi og auka vinnslu á því. Þarna munar 87 kr. á hverju einasta kílói, herra forseti.

Ég verð að segja og dreg ekki dul á það að stefna hæstv. sjútvrh. í þessum málum, að kýla kvótasetninguna yfir smábátaflotann, stuðla að fiskveiðistjórnarkerfi þar sem framseljanlegir kvótar eru til sölu, þar sem þeir stóru og stærri verða sífellt stærri og öflugri og kaupa upp vertíðarflotann, hinn gleymda flota sem stundum hefur verið nefndur svo, hráefnisöflunarflotann fyrir landvinnslustöðvarnar, veldur því auðvitað að við erum að færa verðmætasköpunina niður. Við værum tvímælalaust með aukinni ferskfisksvinnslu að auka geysilega mikið í verðmætum.

Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að við getum ekki fært öll þau tæpu 100 þús. tonn upp úr sjó sem fara í sjó- og landfrystingu á þorski beint yfir í fersk flök. En stefnan vinnur alveg á hinn veginn og hefur gert það á undanförnum árum, að stórútgerðirnar sem reka öflugustu frystiskipin safna til sín kvótunum, meira færist í þeirra hendur, landróðraskipunum fækkar, það dregur úr atvinnu í sjávarbyggðunum og það dregur úr verðmætasköpun í heild fyrir þjóðfélagið.

Það er auðvitað meginatriði þessa máls að með breyttri stýringu og breyttum áherslum yfir í það að strandveiðiflotinn hafi meira frjálsræði til veiða og meiri aflaheimildir og komi með ferskt hráefni að landi til vinnslunnar er hægt að auka verðmæti mikið.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst undarlegt að þetta skuli ekki dregið alveg sérstaklega fram og nefnt. Það er dregið hér fram að ef allur óunninn þorskur sem fluttur var út á árinu 2001 yrði nýttur í fersk flök gæti það skilað 300 millj. ísl. kr. í auknum útflutningstekjum miðað við 45% nýtingu og að 70% færu í flug og 30% í blokk. Þetta stendur hér í skýrslunni. En það er ekki tekið sérstaklega fram að með því t.d. að auka landvinnslu á ferskfiski um 25 þús. tonn, svo að við tökum sem dæmi, 1/4 af því sem nú er fryst úti á sjó og fryst í landi, værum við að auka verðmæti sjávarfangs úr þorskinum um einhverja milljarða.

Það er auðvitað hægt að setja upp öfgafull dæmi um að ef öll þessi 100 þús. tonn sem við veiðum og frystum samtals úti á sjó og í landi færu í fersk flök, sem er auðvitað ekki raunhæft markmið og ekki hægt að ætlast til að við næðum að selja eftir þeim leiðum, væri bara þessi verðmætisauki yfir 7 milljarðar kr., bara með þeirri breytingu einni, úr sama aflamagni. En það er auðvitað ekki framkvæmanlegt heldur eingöngu dregið hér fram til að benda á um hvers konar verðmætisauka er að ræða, og er þetta þó ekki, herra forseti, í þessari skýrslu mesti verðmætisaukinn sem hægt er að finna.

Í skýrslunni segir um karfann, með leyfi forseta: ,,Verðmæti aflans hefur lækkað um 18% á tímabilinu.`` Tímabilið sem hér er miðað við er frá 1992--2001. Ég verð að segja eins og er að það kemur mér nokkuð á óvart að verðmæti karfaaflans hefur minnkað á undanförnum árum. Það kemur líka fram í þessari skýrslu og hefur lítið verið um það getið að fersk karfaflök gefa 321 kr. á kíló. Heill, óunninn karfi seldur á erlendum mörkuðum gefur 147 kr. Landfrystur karfi gefur 124 kr. og sjófrystur karfi, takið eftir, gefur 107 kr.

Ef við tökum þarna milliverðið, landfrystinguna, 124 kr., og berum saman við fersk flök í útflutningi munar hvorki meira né minna en 197 kr. á hverju einasta kílói sem flutt er úr landinu. Þarna er vissulega um mikinn verðmætisauka að ræða. En þess ber auðvitað að geta að togaraflotinn er einkar hentugur til þess að veiða karfa og þess vegna er ekki auðvelt um þarna að breyta. Vafalaust mætti þó með auknum fersklöndunum og stuttum veiðiferðum tryggja þessi gæði.

Þá komum við að ýsunni, herra forseti. Við skulum minnast þess þegar við ræðum um ýsuna að henni var troðið inn í kvótasetningu á smábátana, aflamagnið tekið niður, atvinnustigið á landsbyggðinni beinlínis tekið niður með aðgerðum hæstv. sjútvrh. og forustumanna ríkisstjórnarinnar og auðvitað þeirra þingmanna sem þessa aðgerð studdu. Þetta hefur auðvitað þýtt það að dregið hefur úr atvinnu úti á landsbyggðinni, það hefur líka dregið og mun draga úr verðmætasköpun ef fram heldur sem horfir.

Það er einfaldlega þannig að fersk flök í útflutningi gefa 253 kr. á kíló þegar sjófrystingin á ýsu gefur 188 kr. á kíló. Þar munar 65 kr. á hverju einasta kílói, herra forseti. Og það er dálítið einkennilegt að menn skuli hafa slegist svo hart um það að koma kvótasetningunni yfir smábátana. Smábátaútgerð var auðvitað viðbragð landsmanna við því að vertíðarflotinn dróst saman og atvinnutækifærum fækkaði, sjómenn reyndu að stofna til útgerða á smábátum sem þá var nokkurt frelsi í, og það er einkennilegt að ríkisstjórnin skuli hafa tekið sér það fyrir hendur að vinna skemmdarverk á þjóðfélaginu með því að fara þá leið sem farin var. Það er alveg ótrúlegt, herra forseti, að þurfa að upplifa það að hér séu unnar skýrslur fyrir hæstv. sjútvrh. og ráðuneytið um það hvers konar verðmætisauka við gætum verið að stefna að með ferskfisksútflutningi og að það skuli farið í alveg gjörsamlega öfuga átt. Svo tala menn hér um atvinnuástand og hagkvæmni í sjávarútvegi. Hvílík öfugmælavísa, herra forseti.

Þannig hafa þær aðgerðir sem við höfum staðið fyrir og stjórnvöld hafa beitt sér fyrir varðandi stjórn fiskveiðanna beinlínis orðið til þess að skaða þjóðarbúið. Það er verið að vinna skaða á þjóðarbúinu með þeim tillöguflutningi sem hér hefur fengið að ganga í gegnum hv. Alþingi um kvótasetningu fleiri og fleiri fisktegunda og inn á smærri og smærri skipaeiningar.

Og síðan áfram með frjálsa framsalið og hagkvæmnina sem sjútvrh. vék að fyrr í dag þegar rætt var um aflapottana. Þá sagði hann eitthvað á þá leið að það yrði að vera frjálst framsal til að auka hagkvæmni í landinu. Ég veit ekki, herra forseti, hvað maður á að kalla svona framsetningu þegar hæstv. ráðherrann hefur sjálfur unnið að því að láta semja þessa skýrslu og fer svo með allt önnur rök en standa í hans eigin plaggi, plaggi sem var unnið fyrir hann. Það er alveg ótrúlegt, herra forseti, að menn skuli ekki horfa á þetta eins og það er í raunveruleikanum, að það er hægt að auka atvinnu í landinu með því að efla strandveiðarnar, gefa meira frelsi í strandveiðunum. Það er hægt að auka verðmætin, það er hægt að auka möguleika þeirra sem eru í fiskveiðunum með því að taka upp eðlileg viðskipti. Og sú tillaga sem við flytjum um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu, sem síðan mundi vonandi leiða til þess að fiskur yrði almennt seldur á fiskmörkuðum og það yrðu í raun eðlileg eigendaskipti milli útgerðar og vinnslu, yrði til þess að auka hér verðmæti. Að stefnan skuli vera sú að keyra kvótakerfið og kvótana inn á stærri og stærri einingar, meiri samþjöppun í þessu þjóðfélagi, minnkandi atvinnu í sjávarbyggðunum --- og kalla það hagkvæmni. Hagkvæmni hverra? Hagkvæmni þeirra sem safna saman þessum einingum í stór útgerðarfélög. Og nú síðast gerir forstjóri hins nýja fyrirtækis, Brims, kröfu um að hækka þakið, geta safnað kvótunum hraðar saman og valdið meiri skaða í þjóðfélaginu undir stjórn þessarar ríkisstjórnar. Þetta er ótrúlegt hlutskipti, herra forseti.