Hvalveiðar

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 16:41:59 (3003)

2003-01-23 16:41:59# 128. lþ. 64.8 fundur 20. mál: #A hvalveiðar# (leyfi til veiða) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[16:41]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrir fjórum árum bar þetta mál nokkuð á góma í aðdraganda kosninga. Þá greindi menn á um hvort hvalveiðar mundu hefjast á því kjörtímabili sem er að líða. Ég minnist þess að hv. þm. sem hér var í ræðustól var nokkuð viss um að af því yrði. Nú hefur hann stutt ríkisstjórn og þá ráðherra sem tóku við völdum, sjútvrh. þetta kjörtímabil. Hann var einn af þeim sem flutti þetta mál.

Staðan er sem sagt þessi: Hv. þm. nefndi að hæstv. ráðherra hefði verið ötull og lagt sig fram, verið áhugasamur og unnið að þessu máli eftir bestu getu. Nú er svo komið að við höfum gengið í Alþjóðahvalveiðiráðið og teljum okkur hafa fullan rétt til að hefja veiðar í vísindaskyni. Ég held að enginn þræti um það. Hvað dvelur þá orminn langa? Meiri hluti þjóðarinnar vill þetta og hæstv. sjútvrh. vill þetta. Hverjir vilja þetta ekki?

Ég hefði talið tíma til þess kominn að ákveða að þessar veiðar gætu hafist svo að þeir sem vilja taka þátt í þeim og undirbúa sig fyrir það fái til þess tíma. Mér finnst þetta undarlegt. Ég vil spyrja hv. þm. hvað hann telur að sé að gerast í þessu máli. Er það eins og verið hefur í gegnum tíðina, að ríkisstjórnin sem nú situr sé jafnmikið á móti hvalveiðum og ríkisstjórnirnar sem setið hafa undanfarin ár? Þar hefur málið ævinlega strandað.